Brim gagnrýnir samkeppniseftirlitið

frettinBjörn Bjarnason, InnlentLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Með samningnum við matvælaráðherra verður athugunin pólitískt viðfangsefni og þess vegna vill Brim vita um réttarstöðu sína.

Samkeppniseftirlitið (SKE) sektaði útgerðarfyrirtækið Brim um 3,5 milljónir á dag frá og með 19. júlí fyrir að skila ekki upplýsingum sem tengjast rannsókn eftirlitsins á stjórnunar- og eignartengsl fyrirtækja í sjávarútvegi. Rannsóknina vinnur eftirlitið á kostnað matvælaráðuneytisins.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, neitar að greiða sektina og segir óeðlileg vinnubrögð að matvælaráðuneytið greiði samkeppniseftirlitinu fyrir að sinna verkefni sem þessu. Brim ætlar að kæra úrskurð SKE til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og bera fram kvörtun við umboðsmann alþingis.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri SKE, segir gagnrýni forstjóra Brims reista á misskilningi. Hann vísi í ákvæði samnings SKE og matvælaráðuneytisins um að ráðuneytið geti stöðvað greiðslur. Það sé „misskilningur að það dragi úr sjálfstæði eftirlitsins,“ segir Páll Gunnar. Ráðuneytið geti aðeins stöðvað greiðslur ef samkeppniseftirlitið nýti fjármagnið til annarra verkefna.

Guðmundur Kristjánsson segir svör Páls Gunnars „aumkunarverð“. Í samningnum standi skýrum stöfum í 4. grein að SKE greini matvælaráðuneytinu reglulega frá stöðu verkefnisins á meðan á samningstíma standi. Í 5. grein segi síðan að ráðuneytið hafi rétt á að stöðva millifærslur eða fresta þeim telji það framkvæmd verkefnisins ekki í samræmi við samninginn. Ráðuneytið hafi því rétt á að vita allt um hvað er verið að fjalla um í athuguninni.

Að í þessu felist aðeins réttur ráðuneytisins til að hætta greiðslum noti SKE fjármuni þess til annarra verkefna en umsaminna er í besta falli ósennilegt. Í því fælist svo mikil vantrú á gagnsæi í störfum SKE að græfi undan öllu trausti til stofnunarinnar.

Forráðamenn SKE og Brims deila einnig um hver átti frumkvæði að samningi SKE og ráðuneytisins. Í tilkynningu matvælaráðuneytisins frá 5. október 2022 segir að ráðuneytið hafi gert samning við SKE „um að tryggja fjárhagslegt svigrúm til að stofnunin geti ráðist í athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi“. Þessi kortlagning sé í samræmi við stjórnarsáttmálann „og áherslur Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra“.

Í samtali við Morgunblaðið í dag (21. júlí) segir Páll Gunnar að það sé „alveg klárt“ að samkeppniseftirlitið hafi ákveðið að „að fara í þessa athugun og stýrir henni.“ Blærinn á tilkynningu ráðuneytisins frá 5. október sýnir að matvælaráðherra ætlar að eigna sér niðurstöðurnar og sérgreiðslur ráðuneytisins til SKE eiga að tryggja að enginn geti efast um eignarhaldið.

Í Morgunblaðinu er Páll Gunnar spurður um fordæmi fyrir því að SKE taki að sér verkefni eins og þetta. Forstjórinn segir já en nefnir allt annars konar verkefni, það er samkeppnismat á lögum og reglum í ferðaþjónustu og byggingariðnaði.

Hér er um vandræðamál fyrir SKE að ræða. Forstjórinn fer undan í flæmingi og gagnsæi skortir. Með samningnum við matvælaráðherra verður athugunin pólitískt viðfangsefni og þess vegna vill Brim vita um réttarstöðu sína. Vald SKE er mikið eins og sektarákvörðunin sýnir, þjóni hún pólitískum tilgangi er um valdníðslu að ræða.

Skildu eftir skilaboð