Bandaríkski stórsöngvarinn Tony Bennett er látinn 96 ára að aldri. Bennett lést á heimili sínu í New York eftir erfiða baráttu við Alzheimer-sjúkdóminn.
Bennett greindist með Alzheimer-sjúkdóminn árið 2016, en hélt áfram að framleiða og taka upp tónlist til ársins 2021.
Jafnaldri hans, Frank Sinatra, kallaði hann vinsælasta söngvara í heimi. Upptökur hans voru flestar gerðar fyrir Columbia Records, sem samdi við hann árið 1950. Tónlist Bennett einkenndist af gríðarlegri elju, hlýju, raddlegum skýrleika og hreinskilni. Bennett vann til 20 Grammy-verðlauna, tvennra Emmy-verðlauna og hefur selt yfir 50 milljón plötur á ferli sínum.
Söngvarinn hélt tónleika í Eldborgarsal Hörpu árið 2012 sem var hluti af hljómleikaferð hans um Evrópu, og var Ísland síðasti viðkomustaðurinn.
Á meðal þekktustu laga hans eru I Left My Heart In San Francisco, The Way You Look Tonight og For Once In My Life.
Bennett var fæddur 3. ágúst árið 1926 í Astoriu í New York-borg. Söngvarinn lætur eftir sig eiginkonu og fjögur börn.