Dagskrárvald í röngum höndum

frettinBjörn Bjarnason, InnlentLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir í Morgunblaðinu í dag, 22. júlí, að einhverra hluta vegna hafi „þjóðfélagsumræðan færst í æ meiri mæli frá því að ræða á hvaða grunni við ætlum að stefna áfram sem samfélag“. Dagskrárvaldið sé „iðulega yfirtekið af mislitlum smámálum með það eina augljósa markmið að þyrla upp ryki og skapa tortryggni“. Telur Hildur ekki ástæðu „til að yppa bara öxlum yfir að trekk í trekk sé umræðan færð úr fókus um grundvallarhagsmunamál þjóðarinnar“. Það sé „ekkert sjálfgefið í því að þau lífsgæði og öryggi sem við höfum vanist verði áfram fyrir hendi“.

Þessi orð leiða til dæmis hugann að stöðu þjóðarinnar í orkumálum. Ný bók um sögu Landsvirkjunar er að stórum hluta saga þjóðar sem taldi brýnt að glíma við stór verkefni til að tryggja hér betri lífskjör og farsælt samfélag með virkjun fallvatna og annarra orkugjafa. Hvar værum við án heita vatnsins? er oft spurt og ekki að ástæðulausu þegar litið er til þess sem virkjun þess hefur gefið okkur.

Réttilega er bent á að hernám Breta og og síðan koma Bandaríkjahers hingað til lands árið 1941 hafi valdið þáttaskilum í verklegum framkvæmdum og mannvirkjagerð.

Sagan um Landsvirkjun sýnir að þáttaskilin urðu fyrr því að Íslendingar kynntust fyrst stórframkvæmdum þegar hafist var handa við Ljósafossvirkjun við Sogið. Kristján tíundi Danakonungur lagði hornstein að henni árið 1936, nú eru Sogsvirkjanirnar þrjár, byggðar á árunum 1935 til 1963.

Ljósafossvirkjun (mynd Landsvirkjun).

Stig af stigi þróaðist innlend þekking og geta til að virkja vatnsföllin. Þáttaskil urðu með Búrfellsvirkjum og samningnum um álverið í Straumsvík, Alusuisse. Virkjanasagan er síður en svo átakalaus þótt nú sé gjarnan litið á þann árangur sem náðst hefur sem sjálfsagðan hlut og þeir sem tala fyrir því að þessi þráður í atvinnusögunni megi ekki slitna tali fyrir daufum eyrum.

Dagskrárvaldið í virkjanamálum var einfaldlega hrifsað úr höndum þeirra sem vildu stíga áfram skref fyrir skref að vel íhuguðu máli. Í stað þess að talsmenn framkvæmda gæfu tóninn og áhersla yrði lögð á að hanna virkjanir var hannað regluverk sem býr til hvern þröskuldinn eftir annan. Ógjörningur virðist meira að segja að stilla saman strengi allra eftirlitsstofnananna. Gefi ein leyfi bregður önnur fæti fyrir að framkvæmdir hefjist. Mislítil smámál eru notuð til að þyrla upp moldviðri svo að úr verður eitthvað sem sýnist óleysanlegt af því að unnt er að þrasa um það endalaust.

Þverstæðan er að þjóð sem getur framleitt græna orku setur sig í þá spennutreyju að forstjóri Landsvirkjunar spáir orkuskorti af því að bannað er hefja grænar virkjanir. Ákvörðunum um vindorkuver er ýtt á undan sér af því að bíða verður eftir regluverkinu.

Stundum sækir að sú hugsun að frestunaráráttan eigi rætur í meinbægni. Rökin sem talin eru góð og gild til stöðvunar eru mörg of léttvæg til að trúa því á þau sem lögmæt.

Dagskrárvaldið í virkjanamálum var fært frá framfara- og framkvæmdasinnum í höndum þeirra sem standa vörð um regluverkið og þröskulda þess.

Skildu eftir skilaboð