Draslganga á hverjum degi

frettinBjörn Bjarnason, Innlent, PistlarLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Framkvæmd tunnuskiptanna og afleiðingar þeirra lofa þó ekki góðu. Flokkunarfyrirmælin eru alls ekki í takti við veruleikann heldur feilskot á röngum tíma.

Mánuðum saman hafa dunið á Reykvíkingum og öðrum fyrirmæli um hvernig þeir eigi að haga frágangi á heimilissorpi. Þótt vafalaust sé reynt að einfalda fyrirmælin eins og frekast er unnt eru þau flókin í eyrum sumra. Þeir bíða með öndina í hálsinum eftir að skipt sé um öskutunnur hjá þeim og vænta þess að þar verði leiðbeiningar um skilvirkar aðferðir við flokkunina.

Framkvæmd tunnuskiptanna og afleiðingar þeirra lofa þó ekki góðu. Flokkunarfyrirmælin eru alls ekki í takti við veruleikann heldur feilskot á röngum tíma. Þeir sem stóðu að baki fyrirmælunum standa sjálfir ekki sína pligt. Tunnur og tæki skortir. Sorp hrannast upp á götum úti með óþrifum og ólykt.

Skítugir grenndargámar

Ástandið í sorpmálum höfuðborgarinnar og myndir því til staðfestingar minna á það sem gerðist í Napólí um árið þegar mafían taldi sig ekki hafa nægar tekjur af sorphirðunni og lét ruslið bara liggja á götum úti.

Eins og jafnan þegar mál klúðrast hjá borgaryfirvöldum þarf sérstaka færni til að greina hvað fór úrskeiðið. Tækni borgaryfirvalda við þær aðstæður er sú sama og beitt var í íbúaráði Laugardals í byrjun júní þegar starfsmenn borgarinnar skiptust á orðsendingum um hvernig best væri að víkja sér undan að skýra hvernig takast ætti á við biðlista vegna umsókna um leikskólapláss.

Nú er skýring borgarstarfsmanna sú að Íslenska gámafélagið og Terra hafi ákveðið að hætta með endurvinnslutunnur á heimilum í fyrra. Terra hafi ákveðið að „spýta í lófana og byrja að fjarlægja sínar tunnur fyrr en áætlað var“ segir í Morgunblaðinu í dag (25. júlí) í samtali við borgarstarfsmann.

Þegar viðskiptavinur Terra kom allt í einu að auðu rými þar sem tunna fyrirtækisins hafði staðið í mörg ár og sendi fyrirspurn hverju þetta sætti var svarið að viðkomandi hefði átt að hafa fengið tölvubréf eða sms um slit Terru á umsaminni þjónustu vegna þess að nú ætlaði Reykjavíkurborg að leggja til tunnur. Viðskiptavinurinn kannaðist ekki við neina slíka tilkynningu en hefur síðan búið vikum saman með eina tunnu og kvíðir því sem verða vill þegar allar borgartunnurnar berast – hvort 15+ metra gjaldið verði nú fjórfalt og sérhannað tunnurými reynist til einskis.

„Við erum í innleiðingu og einfaldlega ráðum ekki við þetta. Þetta er allt of mikið og við erum ekki með tunnur í þetta,“ segir fulltrúi Reykjavíkurborgar og bendir á grenndarstöðvar eða endurvinnslustöðvar Sorpu. Terra sem sér um þjónustu við grenndarstöðvar í samstarfi við Sorpu getur ekki tæmt gáma stöðvanna af því að fyrirtækið hefur ekki bíla til þess.

Forstjóri Terru segir svona ástand því miður geta skapast þegar farið sé úr einu kerfi í annað þó að auðvitað sé það súrt á meðan á því stendur. Hann boðar hins vegar „fantagott“ nýtt kerfi.

Frásagnir af drasli, tunnuvandræðum, tækjabilunum og bílaskorti vekja spurningar um hvort þarna hafi skort stýrihóp eins og var síðasliðinn vetur þegar gleymdist að ryðja götur Reykjavíkur í snjókomu af því að stýrihópurinn hafði ekki fundað. Druslugangan var um helgina en hvern dag er draslganga um borgina.

Skildu eftir skilaboð