Björn Bjarnason skrifar:
Ég sá Robert Oppenheimer einu sinni í nýrri Kongresshalle í Berlín árið 1958, í fyrstu ferð minni til útlanda.
Hvarvetna ber hátt umræður um kvikmyndina Oppenheimer sem Christopher Nolan leikstýrir eftir eigin handriti. Hver og einn ræðir hana frá eigin sjónarhóli. Í Morgunblaðinu vildi Jóna Gréta Hilmarsdóttir gagnrýnandi sjá afleiðingar kjarnorkusprenginganna í Japan, hún sagði 27. júlí: „Áhorfendum var vissulega lofað mynd um Oppenheimer en ekki fórnarlömb atómsprengjunnar en sú ákvörðun var alltaf að fara að vera varasöm.“
Hvort ákvörðun Nolans að einbeita sér að persónu Oppenheimers eins og heiti myndarinnar segir sé „varasöm“ er langsótt. Sá sem horfir á myndina er ekki í neinum vafa um hrikalegt mannfallið og tjónið sem varð vegna árásanna á Híróshima og Nagasaki. Áhrifamikið atriði í myndinni er þegar Oppenheimer hittir Harry S. Truman Bandaríkjaforseta og vísindamaðurinn, faðir sprengjunnar, varar við áhrifum hennar.
Á vefsíðu The Spectator birtist í vikunni grein eftir fyrrverandi blaðamann við The Sun, Mark Solomons, í tilefni af því að enski leikarinn og rithöfundurinn David Baddiel fann að því í blaðinu The Jewish Chronicle að gyðingurinn dr. J. Robert Oppenheimer sé ekki leikinn af gyðingi. Baddiel veltir fyrir sér hvort myndin hefði ekki orðið áhrifameiri hefðu gyðingar leikið mörgu eðlisfræðingana af gyðingaættum sem unnu að Manhattan-verkefninu (gerð sprengjunnar), þar á meðal Oppenheimer sjálfan.
Cillian Murphy, bláeygður Íri með skörp kinnbein, leikur Oppenheimer. Solomons segir að Nolan leiti gjarnan til Murphys til að leika í myndum sínum og í þessu tilviki vilji svo til að þótt Murphy sé ekki gyðingur sé hann líkur aðalsöguhetjunni, gyðingnum Oppenheimer í mynd Nolans – líklega sé hann líkari honum en nokkur leikari af gyðingaættum sem kemur í huga Solomons. Murphy sé eins og Oppenheimir, hávaxinn, grannur og það sem mestu skipti með stingandi blá augu. Solomons segir að í ævisögu Oppenheimers, Amercian Promtheus, tali samstarfsmenn og jafnvel andstæðingar söguhetjunnar um „björtustu fölbláu“ augun eða „ísköldustu bláu augun“ sem „gáfu honum sérstakt svipmót“. Nolan studdist við þessa bók við handritsgerð myndarinnar. Meðleikarar Murphys, Matt Damon og Emily Blunt, segja að skínandi augnaráð hans hafi stundum fipað þau við töku myndarinnar.
Ég sá Robert Oppenheimer einu sinni í nýrri Kongresshalle í Berlín árið 1958, í fyrstu ferð minni til útlanda. Fór ég með föður mínum sem sótti ráðstefnu í Vestur-Berlín þar sem mennta- og vísindamenn gegn harðstjórn kommúnista komu saman.
Benti faðir minn mér sérstaklega á Oppenheimer sem þá var heimsfrægur. Er mér minnisstætt hve blá augu hans voru skörp og hve grannur og snar í snúningum hann var. Er ástæðulaust að gera athugasemd við val Nolans á aðalleikaranum í nýrri stórmynd hans sem fær réttilega metaðsókn. Kjarnorkuþáttaskil mannkynssögunnar voru ekki átakalaus. Hvað sem við segjum um persónur og leikendur núna höfum við lifað í tæp 80 ár í skugga sprengjunnar.
One Comment on “Oppenheimer þá og nú”
,,var alltaf að fara að vera vara söm.“
Djöfull er að lesa staglið í kerlingar-afmáninni.