Vestur-Afríkumenn leiða uppreisn gegn þaulsetnum nýlenduherrum

Erna Ýr ÖldudóttirErlent, Erna Ýr Öldudóttir, Orkumál, Stjórnarfar, Stjórnmál, UtanríkismálLeave a Comment

Athyglin undanfarið hefur færst frá margboðaðri en misheppnaðri stórsókn Úkraínuhers (NATO) á Suður- og Austurhéruð landsins (sem lýstu yfir sjálfstæði og gengu í Rússneska ríkjasambandið), til Afríkuríkisins Níger. 

Málin virðast þó ekki alveg óskyld, þar sem að eitt leiðir af öðru og NATO ríkin hafa sýnt veikleika á undanförnum misserum, til að mynda í Úkraínu og við snautlega brottför bandaríska hersins o.fl. frá Íslamska furstadæminu Afghanistan árið 2021. Nokkur Afríkuríki hafa rekið Frakka í burtu á undanförnum misserum. Jafnframt var stjórnvöldum hliðhollum Bandaríkjunum o.fl. í Sambandslýðveldinu Myanmar kollvarpað af hernum árið 2021.

Glöggir netverjar muna ef til vill eftir þessu eróbikk-myndbandi sem skrásetti valdaránið í Myanmar 2021 í bakgrunninum:

A woman conducted her aerobics class in Myanmar without realizing a coup was taking place. Behind her, a military convoy arrives at parliament.
by u/kevinowdziej in Damnthatsinteresting

Níger er fyrrum nýlenda Frakklands, en vísbendingar eru um að nýlenduáhrifum Frakka í landinu hafi hvergi nærri verið lokið. Á þetta benti til dæmis Georgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, í þrumuræðu síðasta haust eftir að Emmanuel Macron, forsætisráðherra Frakklands, hafði móðgað Ítali:

Nígerski herinn, undir forystu herforingjans Abdourahamane Tchiani, stóð fyrir valdaráni 26. júlí sl. og settu forsetann, Mohamed Bazoum, araba vinveittan frönskum hagsmunum, í stofufangelsi í forsetahöllinni. Herstjórnin nýja vill losna við erlent herlið úr landinu og loka fyrir útflutning á gulli og úrani. Franska herliðið hefur fengið 30 daga frest til að hafa sig á brott.

Málið þykir einkar óheppilegt fyrir Frakkland, sem stólar m.a. á úran frá Níger til að kynda kjarnorkuverin sín. Um 70% af franskri orku fæst úr kjarnorkuverum, en auk þess flytja Frakkar orkuna út fyrir dágóðan pening. Til viðbótar er búið að reka Frakka frá öðrum fyrrum nýlendum undanfarin misseri. Varnaðarorð Jacques Chirac, fv. Frakklandsforseta frá í mars 2008 hljóðuðu svo: „Án Afríku, mun Frakkland verða að þriðja heims ríki“.

Miklir hagsmunir fyrir Evrópu

Til viðbótar hafði verið áætlað að veita gasi frá Nígeríu, í gegnum Níger og Alsír norður til Evrópu. Allar þær áætlanir eru nú í uppnámi og orðið er ljóst að mikið er í húfi fyrir Evrópu eftir að Nordstream leiðslurnar í Eystrasalti voru eyðilagðar og Evrópa var látin slíta orkuviðskiptum sínum við Rússland.

TranSahara gasleiðslan liggur í gegnum Níger og Alsír til Evrópu.

Í Níger, sem er eitt fátækasta ríki heims, hefur einungis um 18% þjóðarinnar aðgang að rafmagni. Sagan segir að frönsk fyrirtæki greiði Níger ellefu dollara fyrir kílóið af úrani á meðan 218 dollarar fáist fyrir það á markaði.

Ekki nóg með það, heldur hafa menn bent á að gullgeymslur Níger séu tómar þrátt fyrir að í landinu sé stundaður talsverður gullgröftur. Öðru máli gegnir um stappfullar gullkistur Frakklands sem ekki á gullnámur heima fyrir.

Herstjórnin nýja með stuðningi almennings hefur óskað eftir því að erlent setulið í landinu hafi sig á brott. Vesturlandabúar hafa að mestu yfirgefið landið eftir að mótmælendur hliðhollir hernum réðust á franska sendiráðið í höfuðborginni Niamey. Þúsund bandarískir hermenn, sem standa vörð um dróna- og njósnastarfsemi C.I.A. í Dirkou í norðurhluta Níger, sýna þó ekki á sér fararsnið ennþá. Bandaríkin hafa sótt sitt sendiráðslið og krafist þess að herstjórnin láti völdin af hendi.

Herstjórn Níger á að hafa óskað eftir aðstoð hinna rússnesku Wagner-liða sem aðstoðuðu herstjórnina í Malí og í Búrkína Fasó við að koma frönsku setuliði í burtu og halda hryðjuverkahópum í skefjum. Enn er ekki vitað hvort þeir hafi ákveðið að verða við þeirri beiðni, en óstaðfestar fréttir hafa borist af því að Al-Kaida hafi ráðist á Wagner við landamæri Malí og Níger í gær. Þessi vel þekktu og hvimleiðu samtök hryðjuverkamanna ásamt ISIS eru talin vera runnin undan rifjum bandarískra leyniþjónusta. Þeir eru fengnir til að halda almenningi og stjórnvöldum á ýmsum svæðum í heiminum í heljargreipum.

Hryðjuverkahópar valda upplausn svo að mögulegt sé að koma herliði og stjórnvöldum hliðhollum Bandaríkjunum og gömlum nýlenduherrum að, undir því yfirskini að „koma á friði“ eftir að allt er farið úr skorðum. Átök hafa verið í Súdan á milli stjórnarliða studdra af hinum rússnesku Wagner-liðum og uppreisnarmanna studdum af Egyptalandi (sem þiggur fé frá Bandaríkjunum). ISIS hefur nú allt í einu og upp úr þurru látið á sér kræla í Sómalíu og Yemen.

Þetta svæði er kallað Sahel. Vesturlönd gætu verið að missa áhrif sín þar til Rússlands.

ECOWAS-ríkin, sem mynda Efnahagsbandalag Vestur-Afríku og er vinveitt Vesturlöndum, fordæmdu valdaránið, frystu eignir og settu á viðskiptabönn. Til viðbótar hótaði bandalagið innrás sem átti að hefjast á miðnætti í gær, yrði nígerski forsetinn ekki látinn laus og settur í embætti á ný. Enn er ekki ljóst hvernig ECOWAS-ríkin, sem strangt til tekið er ekki hernaðarbandalag, myndu standa að innrás og hernaðaríhlutun í landinu. Senegal gaf út yfirlýsingu um þátttöku í hernaðaraðgerðum gegn nýju herforingjastjórninn í Níger. Nígería, Benín og Fílabeinsströndin eru skv. yfirlýsingum tilbúin til þess líka.

Eindreginn stuðningur barst frá herstjórnum nágrannaríkja

En þá gerðist það að herstjórnir Gíneu, Búrkína Fasó og Malí (sem öll hafa verið rekin úr ECOWAS) lýstu því yfir að vopnuð erlend íhlutun í Níger myndi jafngilda „stríðsyfirlýsingu“ gegn þeim. Þær kollvörpuðu einnig sínum lýðræðislegu stjórnvöldum á árunum 2021 og 2022 og Wagner hefur hjálpað þeim að hafa stjórn á ástandinu, sem hefur aflað Rússlandi aukinna vinsælda í Afríku. Til viðbótar afskrifaði Pútín 23 milljarða dollara skuldir Afríkuríkja á Pétursborgarfundi ríkjanna í lok júlí sl. Ekki hefur verið gripið til neinna tímanlegra ráðstafana á Vesturlöndum sem einnig þykir veikleikamerki herbúða hinna þaulsetnu nýlendudrottnara.

Einnig lítur út fyrir að Alsír, Chad og Lýbía hafi veitt þögult samþykki fyrir stjórnarskiptunum, en Níger hefur opnað landamæri sín að þessum ríkjum aftur. Alsírski forsetinn Abdelmadjid Tebboune hefur þvertekið fyrir að vilja eiga hernaðarleg afskipti af Níger. Málið er viðkvæmt vegna hagsmuna Alsír af gasleiðslunni. Varnarmálaráðherra Alsír flaug á fund varnarmálaráðherra Rússlands í síðustu viku sem gæti verið vísbending um í hvað stefnir.

Forseti Nígeríu vildi hinsvegar senda herlið til að „skakka leikinn“ í Níger, en stuðningur fékkst ekki til þess á nígeríska þinginu sem hvatti hann til að leita diplómatískra leiða í staðinn. Til að flækja málin frekar hafa aðskilnaðarsinnar Biafra í Nígeríu heitið fullum stuðningi við herstjórnina í Níger:

Senegalski herinn myndi þurfa að þramma yfir Malí til að komast til Níger og Fílabeinsströndin þarf að komast í gegnum Burkina Faso yfir til Níger, svo að óljóst er enn hvernig á að fara að þessu. Nígerski herinn áformar að stilla sér upp við landamæri sín að Benín og Nígeríu til öryggis.

Stóðu ekki við stóryrðin um vikufrest

Samstaða ECOWAS-ríkjanna um hernaðarleg afskipti af Níger gæti þannig staðið völtum fótum, en takmarkanir hafa verið settar á netnotkun í Senegal þar sem almenningur þar virðist styðja valdaránið í Níger í meira mæli en stjórnvöld þeirra. Níger hefur lokað lofthelgi sinni frá miðnætti en það gæti m.a. stöðvað drónaflug C.I.A. frá Dirkou í Sahara eyðimörkinni, í norðurhluta Níger. Einnig er uggur um almennar flugsamgöngur frá vesturströnd Afríku og sunnar til Evrópu og Norður-Afríku, ekki síst ef Lýðveldið Gínea, Malí og Búrkína Fasó loka einnig sinni lofthelgi.

Enn bólar ekkert á innrás hersveita úr löndum ECOWAS, sem hafa „óskað eftir frekari tíma til undirbúnings“. Fresturinn sem þau gáfu Níger til að leysa forsetann úr haldi og setja hann aftur í embætti nú liðinn án aðgerða, en boðað hefur verið til neyðarfundar ECOWAS nk. fimmtudag í Nígeríu. Nígerski herinn, auk almennings í landinu sem styðja hann búa sig hinsvegar undir að taka til varna gegn árás erlendra ríkja, en óljóst er enn hverjir gætu hafið þau og hvenær. Nígerska þjóðin muni svara óvinveittum hernaðarafskiptum undireins og af fullri hörku, skv. yfirlýsingu.

Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu mála í Afríku á næstu dögum og misserum, og hvort þessir atburðir gætu haft á skipan mála í heiminum.

Skildu eftir skilaboð