Líkami, meðvitund og hamingja

frettinPáll Vilhjálmsson, PistlarLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Meðvitundin kemur með líkamanum við fæðingu. Annars er nýburi andvana fæddur. Meðvitundin er tveggja þátta. Í fyrsta lagi heilinn, þar verður meðvitundin til. Í öðru lagi hugsun og sjálfsvitund, sem er óefnisleg afurð heilastarfseminnar.

Heilinn er líffæri sem ekki er hægt að skipta út (þótt sumum veitti ekki af). Flest önnur líffæri, hjartað meðtalið, er hægt að endurnýja. Í versta falli lagfæra eða vera án, sbr. botnlangann.

Velmegun og framfarir í lýtalækningum valda aukinni eftirspurn eftir læknisfræðilegu inngripi sem áður var bundið við slysfarir og sjúkdóma. Réttlætingin er huglæg, ekki hlutlæg.

Sumir vilja skipta um kynfæri með þeim rökum að þeir séu fæddir í röngum líkama. Það er sjálfsblekking. Enginn getur fæðst í röngum líkama. Það er líffræðilegur ómöguleiki. Heilinn, þar sem meðvitundin á heima, fæðist með líkamanum.

Hér áður var orðið ,,sálin" notuð um meðvitundina. Í samtímanum eru það helst trúaðir einstaklingar sem tala þannig. Trúaðir telja sálina eilífa. Guð er aldrei svo vondur og miskunnarlaus að klæða sálina líkama af röngu kyni. Guð gerir ekki mistök. Annars væri hann ekki guð.

Fólki langar oft að líkami sinn sé öðruvísi en hann er; grennri, hærri, stæltari og svo framvegis. Maður getur grennt sig, stælt vöðvana en gerir lítið með líkamshæð og enn minna með kyn. Fólk getur fengið löngun til að vera hitt kynið, eða þriðja, fimmta eða seytjánda kynið. En það er ekki hægt. Kynin eru aðeins tvö. Allir, nema örfá læknisfræðileg frávik, fæðast annað tveggja sveinbarn eða meybarn. Darwin og biblían eru þar á einu máli, fræðin og trúin. Þeir sem segja annað fara með rangt mál.

Löngun fólks til að vera í öðrum líkama en það fékk við fæðingu býr í meðvitundinni. Það er hagkvæmara og heilladrýgra að vinna með meðvitundina, uppræta ranghugmyndir og rækta réttar, fremur en að gera árás á eigin líkama, stunda sjálfskaða í þágu ranghugmynda.

Hvað er til ráða?

Maður byrjar á að vísa út í ystu myrkur falsspámönnum sem boða bull, ergelsi og firru. Að hægt sé að fæðast í röngum líkama, að kyn sé huglægt en ekki hlutlægt og að kynin séu fleiri en tvö. Þar á eftir beitir maður skilningarvitunum til að greina á milli ímyndunar og veruleika. Aðferðin er traust og þaulprófuð. Descartes notaði hana á árnýöld og lagði þar með grunninn að nútímavísindum. (Sem raunar láta á sjá á þessari öld, en það er önnur saga).

Sjálfshjálp, að skipta út röngum hugsunum fyrir réttar, er leiðin til farsældar. Þegar vitið hefur unnið sitt starf er dómgreindinni beitt til að sættast við sjálfan sig, líða vel í eigin skinni, og gera sér að góðu þann skrokk sem maður hefur - og helst fara vel með hann. Forn-Grikkir kölluðu það heilbrigða sál í hraustum líkama.

Hlutverkaleiki, sem börn og sumir fullorðnir stunda, má hafa sér til hugarhægðar. Súperman, Barbie, Messi, Gunnar Hámundarson, Jóhanna af Örk og Hallveig Fróðadóttir eru dæmi um sögupersónur sem má dunda sér við að þykjast vera. Börn læra að flest að greina á milli ímyndunar og veruleika er þau vaxa úr grasi. Fáeinir halda í bernskuna fram á fullorðinsár. Af þeim má hafa skemmtun en aldrei viturleg ráð.

Í lokin er rétt að segja á þessum degi í þessari viku: það á ekki að hleypa lífsskoðunarfélögum í leik- og grunnskóla til að kenna þvætting eins og að kyn sé ágiskun við fæðingu en ekki óvefengjanleg staðreynd. Án staðreynda verður lífsins vegferð stormasöm áttleysa, uppskrift að óhamingju.

Skildu eftir skilaboð