Björn Bjarnason skrifar:
Miklar umræður eru nú í Svíþjóð og Danmörku um hvernig bregðast eigi við pólitískum þrýstingi frá samtökum múslímalanda, sem telja vegið að heilögum spámanni sínum og trúarbrögðum með niðurlægingu á Kóraninum á opinberum vettvangi þegar helgiritið er brennt eða rifið í tætlur.
Ný bók eftir færeyska fræðimanninn Heini í Skorini, Kampen om ytringsfriheden – Religion, politik og global værdikamp – Orrustan um tjáningarfrelsið – Trú, stjórnmál og hnattræn átök um gildi – auðveldar skilning á þessum deilum. Þær eru ekki nýmæli heldur hafa um áratugi mótað alþjóðastjórnmál, einkum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
Átökin á milli ólíkra menningar- og trúarbragðaheima snúast á alþjóðavettvangi um gerð ályktana og samþykktir í stofnunum á borð við mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna (SÞ) og á sjálfu allsherjarþinginu.
Í bókinni koma múslímsku samtökin The Organization of Islamic Cooperation (OIC), Samstarfsstofnun múslíma, frá 1969 víða við sögu. Samtökin líta sjálf á sig sem „sameiginlega rödd múslímska heimsins“. Þau eru næstfjölmennustu samtök sjálfstæðra ríkja á eftir Sameinuðu þjóðunum sjálfum. Höfuðstöðvar þeirra eru í Jedda í Sádi-Arabíu.
Í forsetatíð Baracks Obama vakti undrun meðal ríkisstjórna í Evrópu hve Bandaríkjastjórn sýndi mikinn vilja til samstarfs við OIC þrátt fyrir að þar sökuðu menn vestræn ríki hvað eftir annað um að sýna íslam fyrirlitningu. Leiddi sáttaviljinn til þess að í mars 2011 samþykktu aðildarríki SÞ ályktun með svo löngu nafni að síðan er hún kennd við tölustafina 16/18. Að mati vestrænna ríkja sneri textinn að því að bæta skilyrði andófsmanna og trúarlegra minnihlutahópa í löndum múslíma. Frá sjónarhóli OIC snerist málið um að vernda múslíma á Vesturlöndum.
Þessi málamiðlun kom í stað ályktunar sem allsherjarþing SÞ samþykkti í óþökk Vesturlanda fyrir tilstilli OIC árið 1999. Höfuðmunurinn var sá að 1999-ályktunin snerist um að vernda trúarbrögð en nýja 16/18-ályktunin sneri að því að veita einstaklingum vernd án tillits til trúar þeirra. Vilji yfirvöld verja mannréttindi er það ekki gert með banni við bókabrennum eða gagnrýni á trúarbrögð.
Heini í Skorini segir að hvað sem líði pólitískum og trúarlegum klofningi milli ríkja múslíma, eins og til dæmis Írans og Sádi-Arabíu, sé OIC voldug hreyfing á alþjóðavettvangi. Hún láti að sér kveða um álitamál sem snerta meðal annars jafnrétti, kynferðislega minnihlutahópa, tjáningarfrelsi, trúfrelsi og önnur gildishlaðin málefni.
Þeim sem vilja átta sig á eðli samskipta við þjóðir múslíma, aðildarríki OIC, er greiningin í bókinni ómetanleg og dýpkar skilning á því sem í húfi er. Af lestri hennar fæst einnig skýrari sýn á dvínandi áhrif frjálslyndra lýðræðisríkja í alþjóðasamstarfi. Stjórnendur valdboðsríkja ganga í lið með OIC-ríkjum til að þrengja að Vesturlöndum og alþjóðlegum ítökum þeirra.
Lýst er fjölmörgum dæmum um hvernig Rússar undir forystu Vladimírs Pútíns, skjallbandamanns höfuðklerka rétttrúnaðarkirkjunnar í Rússlandi, gera sér dælt við múslíma utan Rússlands í von um að gera vestrænum ríkisstjórnum óleik.
Vegna gagnrýni OIC undanfarið hafa ráðherrar í Stokkhólmi og Kaupmannahöfn stigið á stokk og sagt að gripið verði til gagnráðstafana gegn þeim sem brenna Kóraninn. Í skjóli kröfu um tjáningarfrelsi sé ekki unnt að afsaka slíkt. Auðveldara hefur þó reynst um að tala en í að komast.
Heini í Skorini minnir á að í anda 16/18-ályktunarinnar náðist samkomulag um fleiri gömul ágreiningsmál milli Bandaríkjastjórnar, ESB og OIC. Má þar nefna verkefni sem kallað er á ensku Rabat Plan of Action, Rabat-aðgerðaáætlunin, frá árinu 2012. Í áætluninni voru öll ríki hvött til að afmá ákvæði um guðlast úr lögum sínum þar sem þau væru skaðleg, einkum fyrir minnihlutahópa.
Mörg vestræn ríki gripu þá til slíkrar lagahreinsunar. Hér fluttu Píratar frumvarp 20. janúar 2015 um að 125. gr. almennra hegningarlaga um guðlast yrði afnumin í nafni tjáningarfrelsis. Gekk frumvarpið umræðulaust í gegnum þingið og varð að lögum 2. júlí 2015. Einn þingmaður greiddi atkvæði gegn því. Þjóðkirkjan studdi frumvarpið en Kaþólska kirkjan á Íslandi og Hvítasunnukirkjan Fíladelfía lögðust gegn því.
Í samhljóða áliti allsherjar- og menntamálanefndar alþingis um frumvarpið var bent á Rabat-aðgerðaáætlunina frá 2012 um bann við hatursorðræðu á grundvelli þjóðernis, kynþáttar eða trúarlegs haturs sem hvetti til mismununar, óvildar eða ofbeldis.
Danir afnámu guðlastsákvæðið hjá sér árið 2017. Lars Løkke Rasmussen, núverandi utanríkisráðherra, var þá forsætisráðherra og eindreginn stuðningsmaður niðurfellingarinnar. Brá því mörgum núna þegar hann taldi að hugsanlega yrði að gera guðlast refsivert að nýju til að þóknast OIC og gæta danskra hagsmuna gagnvart ríkjum múslíma. Mette Frederiksen forsætisráðherra segir að bann við að brenna Kóraninn sé ekki brot á tjáningarfrelsinu.
Óljóst er til hvaða ráða danska ríkisstjórnin grípur. Hún er á milli steins og sleggju. Breyti hún lögum að kröfu OIC í von um sættir út á við yrði hún sögð knékrjúpa fyrir hótunum öfgafullra múslímastjórna í stað þess að standa föst fyrir eins og á sínum tíma í tilefni hótana vegna skopmynda af Múhameð spámanni í Jyllands-Posten. Undanlátssemi við OIC nú myndi rjúfa einarða samstöðu dönsku stjórnmálaflokkanna á heimavelli gegn slíkri íhlutun múslíma og í útlendingamálum.