Kóranbrennur ögra tjáningarfrelsinu

frettinBjörn Bjarnason, Erlent, TrúmálLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Mikl­ar umræður eru nú í Svíþjóð og Dan­mörku um hvernig bregðast eigi við póli­tísk­um þrýst­ingi frá sam­tök­um mús­líma­landa, sem telja vegið að heil­ög­um spá­manni sín­um og trú­ar­brögðum með niður­læg­ingu á Kór­an­in­um á op­in­ber­um vett­vangi þegar helgi­ritið er brennt eða rifið í tætl­ur.

Ný bók eft­ir fær­eyska fræðimann­inn Heini í Skor­ini, Kam­pen om ytr­ings­fri­heden – Religi­on, politik og global vær­dikamp – Orr­ust­an um tján­ing­ar­frelsið – Trú, stjórn­mál og hnatt­ræn átök um gildi – auðveld­ar skiln­ing á þess­um deil­um. Þær eru ekki ný­mæli held­ur hafa um ára­tugi mótað alþjóðastjórn­mál, einkum á vett­vangi Sam­einuðu þjóðanna.

Átök­in á milli ólíkra menn­ing­ar- og trú­ar­bragðaheima snú­ast á alþjóðavett­vangi um gerð álykt­ana og samþykkt­ir í stofn­un­um á borð við mann­rétt­indaráð Sam­einuðu þjóðanna (SÞ) og á sjálfu alls­herj­arþing­inu.

Fánar OIC-ríkjanna 57.

Í bók­inni koma mús­límsku sam­tök­in The Org­an­izati­on of Islamic Cooperati­on (OIC), Sam­starfs­stofn­un mús­líma, frá 1969 víða við sögu. Sam­tök­in líta sjálf á sig sem „sam­eig­in­lega rödd mús­límska heims­ins“. Þau eru næst­fjöl­menn­ustu sam­tök sjálf­stæðra ríkja á eft­ir Sam­einuðu þjóðunum sjálf­um. Höfuðstöðvar þeirra eru í Jedda í Sádi-Ar­ab­íu.

Í for­setatíð Baracks Obama vakti undr­un meðal rík­is­stjórna í Evr­ópu hve Banda­ríkja­stjórn sýndi mik­inn vilja til sam­starfs við OIC þrátt fyr­ir að þar sökuðu menn vest­ræn ríki hvað eft­ir annað um að sýna íslam fyr­ir­litn­ingu. Leiddi sátta­vilj­inn til þess að í mars 2011 samþykktu aðild­ar­ríki SÞ álykt­un með svo löngu nafni að síðan er hún kennd við tölustaf­ina 16/​18. Að mati vest­rænna ríkja sneri text­inn að því að bæta skil­yrði and­ófs­manna og trú­ar­legra minni­hluta­hópa í lönd­um mús­líma. Frá sjón­ar­hóli OIC sner­ist málið um að vernda mús­líma á Vest­ur­lönd­um.

Þessi mála­miðlun kom í stað álykt­un­ar sem alls­herj­arþing SÞ samþykkti í óþökk Vest­ur­landa fyr­ir til­stilli OIC árið 1999. Höfuðmun­ur­inn var sá að 1999-álykt­un­in sner­ist um að vernda trú­ar­brögð en nýja 16/​18-álykt­un­in sneri að því að veita ein­stak­ling­um vernd án til­lits til trú­ar þeirra. Vilji yf­ir­völd verja mann­rétt­indi er það ekki gert með banni við bóka­brenn­um eða gagn­rýni á trú­ar­brögð.

Heini í Skor­ini seg­ir að hvað sem líði póli­tísk­um og trú­ar­leg­um klofn­ingi milli ríkja mús­líma, eins og til dæm­is Írans og Sádi-Ar­ab­íu, sé OIC vold­ug hreyf­ing á alþjóðavett­vangi. Hún láti að sér kveða um álita­mál sem snerta meðal ann­ars jafn­rétti, kyn­ferðis­lega minni­hluta­hópa, tján­ing­ar­frelsi, trúfrelsi og önn­ur gild­is­hlaðin mál­efni.

Þeim sem vilja átta sig á eðli sam­skipta við þjóðir mús­líma, aðild­ar­ríki OIC, er grein­ing­in í bók­inni ómet­an­leg og dýpk­ar skiln­ing á því sem í húfi er. Af lestri henn­ar fæst einnig skýr­ari sýn á dvín­andi áhrif frjáls­lyndra lýðræðis­ríkja í alþjóðasam­starfi. Stjórn­end­ur vald­boðsríkja ganga í lið með OIC-ríkj­um til að þrengja að Vest­ur­lönd­um og alþjóðleg­um ítök­um þeirra.

Lýst er fjöl­mörg­um dæm­um um hvernig Rúss­ar und­ir for­ystu Vla­dimírs Pútíns, skjall­banda­manns höfuðklerka rétt­trúnaðar­kirkj­unn­ar í Rússlandi, gera sér dælt við mús­líma utan Rúss­lands í von um að gera vest­ræn­um rík­is­stjórn­um óleik.

Vegna gagn­rýni OIC und­an­farið hafa ráðherr­ar í Stokk­hólmi og Kaup­manna­höfn stigið á stokk og sagt að gripið verði til gagn­ráðstaf­ana gegn þeim sem brenna Kór­an­inn. Í skjóli kröfu um tján­ing­ar­frelsi sé ekki unnt að af­saka slíkt. Auðveld­ara hef­ur þó reynst um að tala en í að kom­ast.

Heini í Skor­ini minn­ir á að í anda 16/​18-álykt­un­ar­inn­ar náðist sam­komu­lag um fleiri göm­ul ágrein­ings­mál milli Banda­ríkja­stjórn­ar, ESB og OIC. Má þar nefna verk­efni sem kallað er á ensku Rabat Plan of Acti­on, Rabat-aðgerðaáætl­un­in, frá ár­inu 2012. Í áætl­un­inni voru öll ríki hvött til að afmá ákvæði um guðlast úr lög­um sín­um þar sem þau væru skaðleg, einkum fyr­ir minni­hluta­hópa.

Mörg vest­ræn ríki gripu þá til slíkr­ar laga­hreins­un­ar. Hér fluttu Pírat­ar frum­varp 20. janú­ar 2015 um að 125. gr. al­mennra hegn­ing­ar­laga um guðlast yrði af­num­in í nafni tján­ing­ar­frels­is. Gekk frum­varpið umræðulaust í gegn­um þingið og varð að lög­um 2. júlí 2015. Einn þingmaður greiddi at­kvæði gegn því. Þjóðkirkj­an studdi frum­varpið en Kaþólska kirkj­an á Íslandi og Hvíta­sunnu­kirkj­an Fíla­delfía lögðust gegn því.

Í sam­hljóða áliti alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd­ar alþing­is um frum­varpið var bent á Rabat-aðgerðaáætl­un­ina frá 2012 um bann við hat­ursorðræðu á grund­velli þjóðern­is, kynþátt­ar eða trú­ar­legs hat­urs sem hvetti til mis­mun­un­ar, óvild­ar eða of­beld­is.

Dan­ir af­námu guðlastsákvæðið hjá sér árið 2017. Lars Løkke Rasmus­sen, nú­ver­andi ut­an­rík­is­ráðherra, var þá for­sæt­is­ráðherra og ein­dreg­inn stuðnings­maður niður­fell­ing­ar­inn­ar. Brá því mörg­um núna þegar hann taldi að hugs­an­lega yrði að gera guðlast refsi­vert að nýju til að þókn­ast OIC og gæta danskra hags­muna gagn­vart ríkj­um mús­líma. Mette Frederik­sen for­sæt­is­ráðherra seg­ir að bann við að brenna Kór­an­inn sé ekki brot á tján­ing­ar­frels­inu.

Óljóst er til hvaða ráða danska rík­is­stjórn­in gríp­ur. Hún er á milli steins og sleggju. Breyti hún lög­um að kröfu OIC í von um sætt­ir út á við yrði hún sögð knékrjúpa fyr­ir hót­un­um öfga­fullra mús­líma­stjórna í stað þess að standa föst fyr­ir eins og á sín­um tíma í til­efni hót­ana vegna skop­mynda af Múhameð spá­manni í Jyl­l­ands-Posten. Und­an­láts­semi við OIC nú myndi rjúfa ein­arða sam­stöðu dönsku stjórn­mála­flokk­anna á heima­velli gegn slíkri íhlut­un mús­líma og í út­lend­inga­mál­um.

Skildu eftir skilaboð