Páll Vilhjálmsson skrifar:
Miðflokkurinn er kominn upp í tæp níu prósent en fær Framsókn hálft áttunda prósent í nýrri mælingu Gallup, sem ekki fer hátt. Nokkur tíðindi atarna, ásamt þeim að sókn Samfylkingar stöðvast við 28 prósentin. Mælingin var tekin, að vísu, svo það sé sagt, áður en Helga Vala hrökk frá borði.
Vendingar stjórnmálanna síðustu vikurnar eru þær helstar að Samfylkingin færist jafnt og þétt til hægri í áherslum og málflutningi. Stefna Kristrúnar formanns er að gera flokkinn gjaldgengan í stjórn með Sjálfstæðisflokknum.
Hægrisjónarmið sækja í sig veðrið, sbr. Miðflokkinn og umbreytingu Samfylkingar. Eftirlætismál vinstrimanna ríða ekki feitum hesti í umræðunni. Tilraunir Vinstri grænna með kynjapólitík, dýravernd, loftslagsmál og stuðning við hælisiðnaðinn skora ekki. Vinstri græn mælast undir sex prósentum í nefndri könnun. Gagnvart kjósendum birtast Vinstri grænir sem sérhagsmunabandalag öfgahópa sem trúa að sumir fæðist með rangt heilabú og að loftslagið sé manngert en ekki náttúrulegt.
Stærsta ósagða pólitíska fréttin síðustu missera er að ekki er talað um vinstristjórn sem valkost. Spurningin er hvernig hægristjórn leysir af sitjandi þjóðstjórn.
Harla ólíklegt er að í kosningum fái Sjálfstæðisflokkur og Samfylking meirihluta. Gæti þó gerst. Meiri líkur eru á þriggja flokka stjórn. Þriðji flokkurinn undir vagninum yrði Miðflokkur eða Framsókn. Ólíklega Viðreisn og tæplega Vinstri græn. Enginn talar við Pírata enda ekki viðræðuhæfir.
Enn er langt til kosninga og óvissuþættir margir. Vinstriflokkar munu gera áhlaup á Samfylkingu þar sem Kristrún á enn eftir að kjafta sig frá skattasniðgöngunni. Hún verður teiknuð upp sem auðkona í Garðabæ.
Þingveturinn sem fer í hönd verður giska fróðlegur. Í vetur er síðasta tækifæri Vinstri grænna að snúa fylgisþróuninni við, tileinka sér meginstraumsmál fremur en neðanbeltispælingar með grænkeraívafi. Kristrún er í færum að treysta Samfylkinguna sem 20-prósenta flokk. Það yrði afrek. Miðflokkur og Sjálfstæðisflokkur etja kappi um hugmyndaforræðið hægra megin við miðju. Framsókn leitar að miðgildinu þar á milli.
Vorið 2024 er enn ár eftir af kjörtímabilinu. Ef ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur treystir sér til að ljúka kjörtímabilinu, sem er óvíst, verður kosningaveturinn notaður í uppsóp meginstraumsflokka á fylgi jaðarflokkanna; Viðreisnar, Pírata og Ingu-flokksins. Enn er óljóst hvoru megin hryggjar Vinstri grænir lenda, í meginstraumi eða á jaðrinum.