Eftir Kristinn Sigurjónsson lektor:
Núna 10. sept er baráttudagur gegn sjálfsvígum.
Lítið er gert í því að fara ofan í ástæður þess að fólk tekur sitt eigið líf. Helst er minnst á þunglyndi og eiturlyfjaneyslu.
Vissulega falla margir fyrir lyfjabölinu, en það er stundum flokkað sem lyfjaeitrun.
Tengsl barns við foreldri margfalt mikilvægari
Bakgrunnur barna og stuðningur sem sem þau fá, skiptir gríðarlega miklu máli. Gamla máltækið að maður sé manns gaman á sér miklu breiðari og dýpri rætur. Það er langur vegur frá því að það snýst aðallega um meðhlægjendur og kaffispjall. Allir þekkja það að tengsl æskuvina eru sterkari en vinnufélaga, þau vara lengur og eru öðruvísi. Tengsl barns við foreldri er margfalt mikilvægari. Þau myndast strax fyrir fæðingu og eflast og styrkjast með hverjum degi. Foreldratengsl eru því öðruvísi en önnur tengsl, því þau tengja þig líka við upprunann og fyrirmyndir. Svo þegar barnið vex úr grasi, þá kemur þörf einstaklingsins til að þekkja sínar rætur. Tengslin á milli barns og foreldris eru yfirleitt varanleg og mjög mikilvæg.
Fjöldi rannsókna sýna mikilvægi tengsla milli barns og foreldris
Fjöldi rannsókna, í fjölda áratuga hafa sýnt að börnum vegnar þeim mun betur, því betra samband sem þau hafa við báða foreldra sína. Mjög góð grein frá 2005 birtist hjá norska vísindavefnum um þau vandamál sem skilnaðarbörn verða fyrir, Forskning.is Sliter etter skilsmisse greininn er orðin 18 ára gömul og þar kemur skýrt fram að skilnaður fer mjög illa í börn, þau verða kvíðin, missa sjálfstraustið og þetta ágerist frekar hjá stúlkum en drengjum, fram eftir aldrinum, en föðurleysið hefur verri áhrif á drengi og þarf það ekki að koma á óvart þar sem feður eru fyrirmynd þeirra, deila áhugamálum sem höfða til drengja og gefur möguleika á sameiginlegri upplifun og gleði. Ef föðursins nýtur ekki við, þá verður mesti töffarinn í hópnum þeirra fyrirmynd, sem yfirleitt er mjög slæm fyrirmynd. Haustið 2012 var gerð könnun í Reykjavík sem bar heitið „Til skiptis hjá foreldrum“ sem staðfesta þessar rannsóknir.
Langflest fjöldamorðin í Bandaríkjunum eru framin af föðurlausum drengjum. Það hefur mjög lengi verið vitað skilnaðarbörn ánetjast frekar vímuefnum og áhættuhegðun, og að eftir því sem foreldrar sinna börnum betur saman, því betur vegnar þeim í lífinu, það kemur vel fram í grein í sænska vísindaritinu Forskning.se - Växelvist boende bäst för skilsmässobarnen.
Nú er líka búið að vera þekkt í mörg ár, að áföll í æsku hafa ekki bara andlegar afleiðingar fyrir einstaklingin, heldur geta líka haft margvíslega líkamlegar og varanlegar afleiðingar fyrir einstaklinginn. Þessar rannsóknir kallast ACE rannsóknir og það hefur verið bent á það í mörgum fréttum.
Nýjar rannsóknir frá 2017 við McGill háskólann í Montreal sýna að þegar börn verða fyrir ofbeldi í æsku þá verða breytingar í taugafrumum heilans, sem getur haft varanleg áhrif á hugsun og hegðun. Þetta getur gerst á þroskatíma heilans sem eru um tveir áratugir.
Árið 2015 var gefin út bók eftir hollenska geðlæknir sem er prófessor í geðlækningum við Boston University School of Medicine, Bessel van der Kolk og fjallar hún um þennan skaða sem andleg áföll skilja eftir í huga og líkama einstaklingsins. 2023 kom bókin út á Íslandi og ber heitið Líkaminn geymir allt: hugur, heili, líkami og batinn eftir áföll (hana er hægt að fá sem hljóðbók).
Þögnin um tengslarofin
Fyrir liðlega mánuði síðan var talað við prest í morgunútvarpinu sem heldur utan um hóp sem nefnist Feður, bræður, synir, vinir og makar. Þarna var ekki frekar en fyrri daginn gerð ein einasta tilraun til að greina orsakir fyrir tíðum sjálfsvígum drengja og karlmanna.
Í bítinu fyrir nokkrum dögum var viðtal við tvær konur um gulan september og sjálfsvíg. Þar var ekki eitt einasta orð um afleiðingar tengslarofs barna við foreldri, og lítið gert úr fjölda manna sem taka sitt eigið líf.
Nú er geðröskun, lyfjaneysla og óregla stór áhrifavaldur að sjálfsvígum. Það er vitað að þeir sem verða fyrir skaðlegum tengslarofum við foreldri sitt falla frekar í óreglu og áhættulifnað, en geðröskunin skýrir varla 3-4 sinnum fleiri sjálfsvíg manna en kvenna því geðlyfjaneysla mannanna er helmingur neyslu kvennanna.
Það sem er nokkuð sameiginlegt öllu þessum fréttum og rannsóknum er að það er aldrei minnst einu einasta orði á tengslarof við foreldri sem áfall og tengslarof við feður er algjört bannorð í þessari umræðu.
Það er því sorglegra en tárum taki hvernig aðilar í samfélaginu allt frá áhugamannahópum, stjórnkerfi, löggjafanum og dómsvaldinu samþykkja þetta og jafnvel vinna að því með ógeðfeldum slagorðum eins og að „ekki megi setja foreldri í fangelsi“ sem framkvæmir þetta ofbeldi. Feður verða einnig að sinna þessu og sinna sínum börnum, þótt þeir hafi ekki áhuga á því eða aðrar ástæður gera þeim það erfitt.
Reynsla föðurlausra drengja
Í febrúar í fyrra hringdi ungur maður í símatíma útvarpsstöðvar og bar sig mjög illa því faðir hans vildi ekkert með hann hafa, hafði aldrei haft samband við hann og þegar sonurinn náði svo einu sinni í hann þá lofaði hann að hafa samband og þegar drengurinn ætlaði að bjóða honum í ferminguna sína, þá lokaði faðirinn á hann. Það lagðist mjög þungt á drenginn að hafa aldrei átt pabba, þótt móðir hans hafi stutt hann og reynst honum mjög vel. Það leggst einnig mjög þungt á piltinn að faðirinn hefur bannað hálfsystkinum hans að hafa samband við hann þrátt fyrir vilja þeirra til að hitta hálfbróður sinn. Þrátt fyrir þessi sárindi þá vonaðist pilturinn til þess að hann myndi einhvern tímann geta rætt þetta við pabba sinn. Það þarf mikið til þess að drengir og karlmenn segi frá svona sorg á opinberum vettvangi, því það gera þeir yfirleitt ekki.
Að lokum vil ég nefna frásögn konu sem átti son, sem hafði verið misnotaður í æsku, faðirinn vildi engin samskipti hafa við hann. Hann óskaði ekkert heitar en að eiga góð samskipti við föður sinn og með eftirgangsmunum kom hann í fermingarveisluna. Móðir spurði hvort ekki mætti taka mynd sér og föðurnum með fermingarbarninu en faðirinn neitaði því. Í staðin var tekin mynd af fermingarbarninu með föður afa og föðurömmu og móðurömmu sinni.Þetta og almenn afneitun föðurins á honum lagðist mjög þungt í piltinn. Hann kvæntist aldrei og eignaðist engin börn og þessa afneitun skein í allri reiði hans og kemur fram í ljóðum sem hann orti til foreldra sinna. Eins og komið hefur fram hér á undan, þá eru þessi ör varanleg í sálu barnanna ef ekkert er gert og ca 20 árum eftir mjög sorglega upplifun í femingunni þá tók hann sitt eigið líf.
Með góðfúslegu leyfi móðurinnar;
MÓÐIR MÍN
Móðir mín,
hvar er höndin þín? sem hefur yljað mér um aldur og ævi.
Hlý og góð móðir einsog þú hvað á ég að gera nú?
ég mun sofa með þér
og þú munt sofa með mér.
Móðir mín,
viltu þerra mín tár? viltu vaka mér hjá? enn eru þetta opin sár?
En þú skilur móðir
að lífið tekur sitt,
dagarnir voru okkur góðir, enn samt brennur hjarta mitt.
Þetta ljóð lýsir átakanlega hvað það er mikils virði að standa með börnum sínum. Hér lýsir hann svo líka í bundum máli samskiptum við föður sinn.
TIL FÖÐURS MÍNS
Faðir minn fæddist einsog blóm en visnaði og dó í huga mér, hann fann aldrei þann rétta hljóm sem þurfti handa mér.
Þú læðist einsog gola en samt ertu bara rola
Þú verður að gera,
þá hluti sem eru þér ætlaðir, Þú verður að vera,
minn trausti og góði faðir.
Kristinn Sigurjónsson
fyrrverandi lektor við Háskólann í Reykjavík
3 Comments on “Hvers vegna gefast margir drengir og karlmenn upp?”
Átakanlegt. Harmsögulegt. Og svívirðilegt.
Float grein
Velferðarkommissar WHO kærir sig kollótta um svona smámuni.