Áhrif foreldraútilokunar á börn án föðurfyrirmyndar

frettinForeldraréttur, InnlentLeave a Comment

Eftir Kristinn Sigurjónsson:

Foreldraútilokun

25. apríl ár hvert er baráttudagur gegn foreldraútilokun. Þetta er ferill sem aðallega feður hafa orðið fyrir, en eingöngu vegna þess að þeim hlotnast sjaldnast forsjá barnanna, en hendir bæði feður og mæður og ekki síst börnin. Í heift, reiði eða sárindum við skilnað, þá fer foreldri sem hefur forsjána að hefta eða koma algjörleg fyrir umgengni hins foreldrisins, sem kallast tálmun. Í reiðinni er tálmunin réttlætt fyrir barni og öðrum að foreldrið kæri sig ekki um barnið, og elski það ekki. Þegar svo kemur að réttlætingu gagnvart vinum og ættingjum þá koma oft ásakanir um ofbeldi og þau jafnvel af verstu gerð eins og kynferðislegt ofbeldi.   Foreldraútilokun er þegar barninu er innrætt óvild gagnvart öðru foreldrinu (ensku Parental Alienation), en það getur verið þótt það umgangist báða foreldra og það getur líka verið gagnvart því foreldri sem barnið býr hjá (forsjá- lögheimilisforeldri).  Þessi ranga innræting getur náð svo til róta hugans að seinna þegar þau eru orðin fullorðin þá halda þau áfram að hitt foreldrið sé illmenni og ómenni, hafi beitt það andlegu ofbeldi og jafnvel þótt það hafi lært sálfræði eða aðrar greinar sem fjalla um þessi mál, þá er þessi lygi brennimerkt í huga þeirra.  (The Devastating Effects of Parental Alienation)

Ofbeldi er ekki kynjaskipt

Það daprasta í þessu er að það eru fjöldi samtaka með þúsundum kvenna sem réttlæta tálmun á forsendum ofbeldis. En á það má benda að samkvæmt hlutulausum rannsóknum þá beita feður og karlmenn ekkert meira ofbeldi en mæður og konur nema síður sé og er tálmunin þá ekki talin með.

Fólk hefur mjög mismunandi skoðun á því hvað sé ofbeldi, og sérstaklega þegar kemur að hugtakinu andlegt ofbeldi og ætla ég ekki að fara í það hér, enda væri það efni í aðra grein.

Það hefur verið reynt að fá alþingi til að samþykkja að tálmun sé ofbeldi sem ætti að refsa með sama hætti og annað ofbeldi gagnvart börnum eins og rassskelling eða löðrungur. Það hefur ekki tekist og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og er ýmsu borið við eins og að ekki megi setja foreldri í fangelsi, og virðast þau rök ekki eiga við um feður sem rassskella börn sín.

Góð samskipti við báða foreldra er besta innleggið í uppeldið

Um tíma var bara hægt að mæla líkamlegan skaða af miklu ofbeldi. Nú eftir að faraldsfræðin hefur þróast, þá er meira farið að skoða samband á milli lífsaðstæðna fyrr á árum og aðstæður fólks seinna á ævinni.

Nú er það búið að vera þekkt mjög lengi að börn sem koma frá brotnum heimilum hafa frekar afvegaleiðst, en það virðist ekki mega segja frá því, þögnin um þessi mál er algjör.

Það hefur m. a. komið í ljós samkvæmt sænskri frétt að velferð skilnaðarbarna er algjörlega háð því hversu góðan aðgang þau hafa að báðum foreldrum sínum. (Växelvist boende bäst för skilsmässobarnen)

Á síðust 2-3 áratugum hefur sjónum verið beint að ACE-rannsóknum (Adverse Childhood Experience), það er að segja hvernig andleg áföll barna hefur á líf þeirra seinna á ævinni og þær hafa sýnt að alvarleg (andleg) áföll í æsku geta ekki bara afvegaleitt börnin svo þau leiðast frekar í óhollari lífshætti eins og neyslu áfengis,  eiturlyfja í áhættuhegðun og afbrot, heldur líka valdið þeim líkamlegum kvillum seinna á lífinu eins og t. d. hjarta og æðasjúkdómum.

Börn hafa mjög ríka tilhneigingu til að verja foreldra sína og standa með þeim gegnum súrt og sætt. Þegar þau er svo skyndilega slitin frá öðru foreldrinu sem það hafði mikil og góð tengsl við og verða fyrir foreldraútilokun, þá er það mjög mikið áfall fyrir barnið.  Í dagheimilum og skólum tala börnin um báða foreldra sína og stæra (gorta) sig af þeim, þau eiga bestu mömmurnar og pabbana. Börn sem eru foreldraútilokuð geta þetta ekki, og stundum vita þau ekki að þau eigi pabba eða mömmu. Það þarf ekki að dyljast neinum að þetta veldur börnunum miklu hugarangri að vera svona, ekki bara skör neðar heldur mörgum hæðum neðar í samanburði við félaga og jafnaldra í sínu stolti af sínum foreldrum. Þetta er því gríðarlegt andlegt áfall fyrir börnin, og það sorglega í þessu er að það má ekki tala um þetta hvað þá sporna gegn þessu.

Skortur á fyrirmyndum

Vandamál barna koma yfirleitt ekki í fjölmiðla fyrr en þau eru komin á unglingsárin, en þá bregður svo við að þótt mikið sé talað um vandamálin, þá má alls ekki nefna hver er bakgrunnur þessara barna.  Börn eru þó viðkvæmust gagnvart þessu löngu fyrir unglinsárin, jafnvel á allra fyrstu árum ævinnar.

Þau samtök sem kenna sig við baráttu gegn ofbeldi vilja ekkert ræða þessa hliðar ofbeldis og afleiðingarnar á börnin

Á degi átaks gegn sjálfsvígum skrifaði ég grein um það hvað drengir og menn fremja margfalt oftar sjálfsvíg en stúlkur og konur. Ekkert heyrist frá Píeta samtökunum um þessa hlið málsins sem ég nefndi, því þöggunin er algjör.

Þótt tengslarof við foreldra fari illa með bæði stúlkur og drengi, þá eru hegðun þeirra mismunandi. Meðan stúlkur eru meira í andlegu ofbeldi eins og einelti, þá eru drengir meira í slagsmálum og öðru líkamlegu ofbeldi sem fer frekar í fjölmiðla, þótt andlega ofbeldið sé jafn skaðlegt.

Nú hefur það örlítið verið rætt af leikmönnum að drengir sem alast upp án eðlilegra samskipta við feður sína hafi enga karl fyrirmynd. Fyrirmyndin er þá sótt í þá félaga og þá frekar eldri drengja sem mest ber á og hafa sig mest í frammi. Þetta eru ekki góðar fyrirmyndir, því þetta eru oft frekustu og ofbeldisfyllstu drengirnir. Það er þá alltaf hætta á að drengirnir reyni að toppa aðra til að komast ofar í virðingarstigann.

Eins og áður sagði þá er algjör þögn um þessi mál hérlendis eins og reyndar um allan heim. Það hefur komið fram að ofbeldi barna hefur verið mjög vaxandi síðustu ár, en svo er öll umræðan bara um samfélagsmiðlana en ekki bakgrunn barnanna. Í Bandaríkjunum hafa nú síðustu ár verið flóðbylgja af fjöldamorðum. Aðal umræðan er um mjög frjálsleg byssulöggjöf en nánast ekkert um bakgrunn þeirra sem framkvæma þessi voðaverk. Í New York Post þann 27. mai 2022 birtist grein um þetta. We overlook a significant factor in mass shootings: fatherlessness Þar segir höfundur að hugsun brotamannanna er ekki fjöldamorðin sjálf, heldur sjálfsvígshugsun, Fer höfundur nokkuð í afleiðingar föðurleysins.  Yfirgnæfandi fjöldi þeirra sem fremja þessi voðaverk eru föðurlaus.

Þótt hér hefur aðallega verið bent á vanda drengja vegna föðurleysis og skort á fyrirmyndum, þá hefur það líka alvarlegar afleiðingar fyrir stúlkur að hafa ekki föðurímynd og sama má segja um móðurímyndina. Almennt hefur tálmun og foreldraútilokun skelfilegar afleiðingar á börnin og vonandi kemur þetta upp á yfirborðið í umræðunni og tálmun og foreldraútilokun verði gerð refsivert eins og annað ofbeldi gegn börnum. 

Svo þurfa dómstólar að taka á þessu máli af þekkingu, hlutleysi og festu og dæma lögheimilið til þess foreldris sem er betur treystandi til að tryggja sem jafnasta umgengni við stórfjölskyldur beggja foreldranna og þekkingarsamfélagið á ekki að refsa þeim sem benda á þetta vandamál með brottrekstri, það gæti sparað samfélaginu margan harmleikinn í framtíðinni. 

Höfundur er fv. lektor við Háskólann í Reykjavík.

Skildu eftir skilaboð