Geir Ágústsson skrifar:
Í gegnum minn námsferil upplifði ég kennslustundir hjá mörgum mismunandi kennurum. Umsjónarkennari minn flest mín grunnskólaár var vingjarnleg kona komin yfir miðjan aldur sem fékk nánast stöðu ömmu í huga margra okkar í bekknum. Í menntaskóla voru margir kennarar með viðurnefni í daglegu tali nemenda sem lýstu svolítið nálgun kennaranna í kennslustofu. Var eitt viðurnefnið eftirnafn frægs fjöldamorðingja og einræðisherra. Annar - karlmaður - var kallaður frænka, enda var hann með eindæmum mjúkur í máli þegar hann benti á það sem betur mætti fara. Á mínu fyrsta menntaskólaári var þáverandi rektor á sínu seinasta starfsári. Hann var frægur fyrir margt, svo sem að þéra nemendur á meðan hann kallaði þá vitlausa.
Hvað um það.
Fjölbreytileikinn var alltaf mikill í nemendahópnum, sama hvort það var í grunnskóla, menntaskóla eða háskóla. Það spáðu svo sem fáir í það. Sumir nemendur voru augljóslega á leið út úr skápnum og það blasti við áður en það gerðist. Sumir hófu farsælan feril sem afbrotamenn. Flestir fundu sína fjöl, á einn eða annan hátt, eftir stundum brokkgenga æsku þar sem fólk lærir á líkama sinn og tilfinningar með tilraunastarfsemi og árekstrum á fyrirstöður lífsins en einnig opnanir á tækifærum.
Ekki varð ég var við að kennarar hafi tæklað þessar flækjur í líkama og sál nemenda sinna að öðru leyti en að reyna kenna, og sumir kennarar voru betri en aðrir til að ná til þeirra sem vildu ekki láta ná til sín. Eins og gengur og gerist auðvitað, líkt og í tilviki yfirmanna eða samstarfsfélaga í kringum mig í dag.
Hvað þýðir það þá að sýna virðingu fyrir fjölbreytileikanum? Jú, það að vera fagmaður. Sinna starfi sínu. Stærðfræðikennarinn kennir stærðfræði. Íslenskukennarinn kennir íslensku. Nemendur eru hans skjólstæðingar, rétt eins og viðskiptavinur í fiskbúð. Um leið er hægt að segja að slökkviliðsmaðurinn eigi að vera góður að slökkva eld, og að lögreglan eigi að vera góð í að upplýsa glæpi, og skipti þá skoðun þeirra á leðurgrímum og fjólubláu hári minna máli, a.m.k. á meðan þeir eru í vinnunni.
Kennari getur haft sínar skoðanir á einstaklingsbundnum einkennum einstaklings án þess að það bitni á frammistöðu hans í starfi. Að sjálfsögðu. Varla er ætlast til þess að allir hafi sömu skoðanir á öllu. Eiga slökkviliðsmenn að sýna virðingu fyrir fjölbreytileikanum? Á að rukka þá um skoðanir þeirra á fjölbreytileikanum? Eða eiga þeir að fá að einbeita sér að því að slökkva elda?
Hér að ofan eru mörg spurningamerki því ég er ekki alveg viss um það hvað það þýði að einhver starfsstétt þurfi að bera virðingu fyrir fjölbreytileikanum, sem er vel á minnst ekki opin yfirlýsing um kærleika heldur nákvæm tilvísun í ákveðna hugmyndafræði sem keyrð er áfram af slíku offorsi núna að hætt er við að fæstir viti í raun hvað er rétt skoðun í dag. Er það sú skoðun að kynlífsfræðsla eigi að fara fram á 7-10 ára börnum? Að hún eigi að fjalla um örvun á endaþarmi? Að börn megi setja á lyf til að stöðva kynþroska þeirra og þéttingu á beinvexti? Að ungar stelpur í búningsklefa sundlauga eigi að hætta á að vera viðstaddar fullvaxinn reður líkama með loðna bringu á einstakling sem skilgreinir sig sem konu, einhyrning eða eitthvað annað? Að rými kvenna séu skyndilega orðin að almannaeign?
Ég er ekki viss um að nokkur kennari hafi spáð í því hvað hrærðist um í hausnum á mér eða samnemendum mínum fyrir utan námsefnið og leiðir til að koma því til skila. Var það ekki bara fínt á meðan þeir ræktu starf sitt eftir bestu getu, sem kennarar?