Burðarsúlum breytt í brothamra

frettinArnar Þór Jónsson, InnlentLeave a Comment

Arnar Þór Jónsson skrifar á moggablogginu að samfélagsgerð sem Íslendingar nútímans hafa notið góðs af, var byggð á sterkum stoðum sem fyrri kynslóðir völdu af kostgæfni og lögðu mikla alúð við í anda hugsjóna sem sameinuðu nýfrjálsa þjóð.

Arnar segir að menntakerfið hafi verið byggt upp til að efla siðvit, verkvit og bókvit. „Þrátt fyrir gríðarlegan kostnað og mikinn mannafla getur þriðjungur drengja ekki lesið sér til gagns eftir 10 ára skólagöngu. Þar sem áður var lögð rækt við að verja sakleysið er kerfið nú orðið að vettvangi þar sem skipulega er brotið gegn blygðunarsemi barna, sem enn er þó sérstakt verndarandlag í lögum. Þegar menntakerfið brýtur niður siðvit og bókvit með þessum hætti hlýtur verkvitið að fara sömu leið. Samfélagsleg skaðsemi alls þessa er ómæld.

Sjálfstæðisflokkinn vantar nú örfá ár í að ná aldarafmæli. Hann varð stofnaður og starfræktur í þeim tilgangi að verja frelsi þjóðarinnar og fullveldi hennar til að setja sín eigin lög. Í því skyni hefur flokkurinn ávallt staðið vörð um málfrelsið, lýðræðislega stjórnarhætti og athafnafrelsi borgaranna. Þegar þetta er ritað stendur varaformaður (með stuðningi þingflokks Sjálfstæðisflokksins?) að framlagningu frumvarps sem mælir fyrir um almennan forgang erlendra reglna umfram íslensk lög. Með þessu er Alþingi gengisfellt og allt stjórnmálastarf í landinu sömuleiðis. Á sama tíma hefur flokkurinn veigrað sér við að andmæla þingsályktunartillögu forsætisráðherra um ,,aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu".

Nú er svo komið að erfitt er að greina hvort Þjóðkirkjan leggur meiri rækt við boðun "woke-guðspjallsins" eða Orðs Guðs. Viti lesendur af kirkjum þar sem gestir mega sitja án þess að þurfa að játa pólitískan rétttrúnað mega þeir gjarnan benda undirrituðum á þá griðastaði.

Ef ekki verður snúið af þessari braut hljóta almennir skattgreiðendur fyrr en síðar að snúast gegn því að skattfé þeirra sé notað gegn þeim sjálfum, börnum þeirra og samfélaginu öllu með því að valdhafar og embættismenn umbreyti burðarsúlum í brothamra til almenns niðurrifs,“ segir Arnar.

Skildu eftir skilaboð