Geir Ágústsson skrifar:
Um daginn birtist á samfélagsmiðlum hvatning til fólks um að berja einn tiltekinn miðaldra íslenskan homma og unga, blinda, íslenska lesbíu. Ég nefni ekki nöfn því á þessari hvatningu um að ganga í skrokk á hommanum og lesbíunni er víst höfundarréttur, og búið að hóta því að kæra suma sem endurtaka þessa hvatningu til ofbeldis fyrir brot á höfundarrétti.
Já, fyrir brot á höfundarrétti!
Um þetta er fjallað í hæfilegum smáatriðum á rúmlega 8 mínútum á youtube síðu Brotkasts. Þessar 8 mínútur líða hratt, því fátt fangar betur en sönn saga sem hljómar eins og lygasaga því hún er fáránleg.
Ég vil því vara þá við sem vilja boða að það þurfi að berja þennan tiltekna homma og þessa tilteknu lesbíu um að gera það ekki á þann hátt að það brjóti gegn höfundarrétti þeirrar manneskju sem stakk fyrst upp á því voðaverki.
Hvort hin höfundaréttarvarða hvatning sé lögleg, siðleg og annað er auðvitað ekki til umræðu. Hvatningin kom jú frá manneskju sem allir vorkenna svo mikið fyrir skort á veruleikatengingu að hún er talin hafa rétt fyrir sér í hverju orði. En það er önnur saga.