Páll Vilhjálmsson skrifar:
Pútín átti afmæli í gær. Árás Hamas á Ísrael er afmælisgjöf múslímaheimsins til forseta Rússlands. Afmælisgjöfin færir Rússum sigurstöðu í Úkraínu.
Dálítið langsótt, ekki satt? Kannski.
Árás Hamas á Ísrael setur þjóðríki eftirlifenda helfararinnar í mesta hættu í hálfa öld, frá Yom Kippur-stríðinu 1973, sem, raunar, hófst 6. október. Ekki aðeins eldflaugaárásir heldur sækja Hamasliðar inn á ísraelskt land. Götubardagar eru í þorpum í Suður-Ísrael þar sem m.a. lögreglustöð var hertekin. Gíslar teknir og færðir á Gaza-ströndina.
Árásin er víðtæk sem þýðir að undirbúningurinn stóð marga mánuði. Hamas er ekki í stakk búið að fjármagna og skipuleggja árásina án utanaðkomandi stuðnings. Helsti bakhjarl Hamas er klerkastjórnin í Íran, sem á náið hernaðarsamstarf við Rússa.
Ísrael er vestrænt verkefni í miðausturlöndum í siðferðislegum, trúarlegum, sögulegum, menningarlegum og efnahagslegum skilningi. Án vestræns stuðnings ekkert Ísrael. Punktur.
Úkraínu er haldið uppi af vestrinu. Ef ekki væri fyrir vestræn hergögn og fjármagn hefðu Rússar sigrað Úkraínu á nokkrum mánuðum. Nú þegar er taugaveiklun í Kænugarði um framhald bandarískrar aðstoðar í ljósi deilna á bandaríska þinginu um fjárlög.
Með árás Hamas á Ísrael er barist um vestrænan stuðning á tvennum vígstöðvum. Vestrið er ekki í færum að halda uppi tveimur skjólstæðingum í stríði, sem báðir eru þungir á fóðrum.
Vestrið tekur Ísrael alltaf fram yfir Úkraínu. Ef Rússar sigra fær úkraínska þjóðin frið. Ef Hamas-Íran bandalagið sigrar hefst seinni hálfleikur helfararinnar.
Eina von Úkraínu er að stríð Ísrael við Hamas standi stutt yfir. Yom Kippur 1973 stóð í tæpar þrjár viku og stríðið 1967 í sex daga. Árásin í gær er hernaðarlegur og pólitískur ósigur fyrir Ísraela. Hæpið er að nokkrir dagar nægi til að rétta hlut stjórnarinnar í Jerúsalem. Frekar vikur ef ekki mánuðir.
Stuðningur við Úkraínu dofnar undanfarið. Ef mál skipast þannig að spurt verði hvort eigi fremur að senda dollara og evrur til Kænugarðs eða Jerúsalem er fyrsti, annar og þriðji kosturinn borg frelsarans.
Hamas er skæruliðahópur og stenst Ísraelsher ekki snúning á vígvellinum. En það er ekki barist á sléttum líkt og í Garðaríki heldur einu þéttbýlasta svæði jarðarinnar, Gaza-ströndinni. Sjálfkrafa verður blóðtollur almennra borgara hár. Það veit á stigmögnun átaka. Enn er Vesturbakkinn, hin meginbyggð Palestínumanna í Landinu helga, til friðs. Mögulega ekki lengi.
Gerði Pútín samkomulag við Hamas með milligöngu Írans? Ómögulegt að segja og yrði seint eða aldrei sannað. Víst er að Rússar eru í þann veginn að hefja aðgerðir í Úkraínu sem þeir binda vonir að greiði stjórninni í Kænugarði nægilega þungt högg til að hún riði til falls. Þurrð á vestrænum stuðningi gæti gert útslagið. Ótti um stöðu Ísraels auðveldar hálfvolgum í Úkraínutrúnni að stökkva á Jerúsalemvagninn. Það fara ekki tveir fullir vagnar af aðstoð til Garðaríkis og Landsins helga. Annar verður tómur.
Hamas-árásina á afmælisdegi Pútín má skýra sem tilviljun. Líkt og hrap flugvélar Prigsósjín.
3 Comments on “Hamas færir Pútín afmælisgjöf”
Páll Vilhjálmssom, ég verð nú að segja að þetta sé nú mjög fantasíu og fjarstæðukennd gein hjá þér?
Það sem er sennilega að gerast þarna fyrir botni Miðjarðarhafs sé meira það að fólkið í Palistínu sé að brjótast út úr þessu áralöngu kúgunar og yfirgangi Ísraels. Nú sér Hamas leik á borði þar sem hnignun BNA og geta þerra til stuðning Ísrael fer minnkandi, ég held að það sé aðal ástæðan fyrir þessu stríði þarna núna sem hefur í raunni staðið yfir í langan tíma. Það sem þarf að gera er það að það þarf að koma báðum aðilum að samningaborðinu og semja um tvö þjóðríki, ekki bara að hygla öðrum aðilanum eins og gert hefur verið undir handleiðslu og einræðis yfirgangi BNA hjá UN.
Sammála,þetta eru afleiðingar stefnu vesturlanda í grímulausum yfirgangi gagnvart íbúum þessara svæða eins og raunar í afríku, víða í asíu og suður ameríku, Þetta er almenn vitneskja og satt að segja veit ég ekki hvernig nokkur sem stundar nauðsynlega sjálfsskoðun getur haldið því fram með nokkurri sanngirni að vesturlönd hafi boðvald þarna eða annarsstaðar svo framarlega að vikomandi sé ekki tala um það sem á sér stað innan sinna eigin landamæra,. Hvernig væri nú að hætta að skipta sér af því sem þjóðir eru að gera upp innanlands eða sín á milli ? Menn úr vestrinu eru auðvitað og alltaf, svo það sé á hreinu, að skipta sér af til að vernda hagsmuni bandaríkjanna norður ameríku. Það er kominn tími til að við hættum að sletta okkur fram í það sem kom okkur aldrei við og að úthluta sértrúarhópum landi sökum frásagna úr trúarritum er eitthvað sem við allavega gerum ekki fyrir neina nema þá sem nota sömu bók og við,.Svo væri nú fínt ef fólk , í guðanna bænum, hætti að rugla saman gyðingum og gyðingatrú annars vegar og zíonisma hinsvegar, þetta nánast gengur í berhögg hvort móti öðru.
Afsakið , þetta átti að vera :“ Sammála, Ari Óskarsson :“