Björn Bjarnason skrifar:
„Þetta eru stór tíðindi í íslenskum stjórnmálum sem marka þáttaskil fyrir ríkisstjórnina hvort sem Bjarni hverfur úr henni eða ekki.“
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti á blaðamannafundi kl. 10.30 að morgni þriðjudagsins 10. október að hann segði af sér sem fjármála- og efnahagsráðherra. Hann hefur gegnt embættinu frá 23. maí 2013 fyrir utan mánuðina 11. janúar til 30. nóvember 2017 þegar hann var forsætisráðherra.
Bjarni sagði af sér ráðherraembættinu vegna þess að í áliti umboðsmanns alþingis (UA) sem honum barst í lok fyrri viku var komist að þeirri niðurstöðu að hann hefði „brostið hæfi“ til að samþykkja söluna á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars 2022 þar sem félag í eigu föður ráðherrans var meðal kaupenda en alls hafa um 24.000 keypt hlut í bankanum eftir að ríkið hóf sölu á hlut sínum í honum.
Bjarni sagðist ósammála niðurstöðu UA. Það væri óumdeilt að hann hefði ekki vitað að félag föður síns myndi taka þátt í útboðinu og hann hefði ekki haft neina ástæðu til að láta reyna á hæfi sitt. Raunar hefði verið búið þannig um hnúta með lögum að ráðherra hefði ekki vitneskju um kaupendur. Framkvæmd sölunnar hefði verið í höndum Bankasýslu ríkisins. Hann sagði engar athugasemdir hafa verið gerðar eftir fyrra útboð á eignarhlut ríkisins í bankanum og sín aðkoma að útboðunum tveimur (2021 og 2022), hefði verið nákvæmlega sú sama, skref fyrir skref.
Þrátt fyrir að lýsa sig ósammála niðurstöðu UA sagðist Bjarni virða hana og þess vegna hefði hann ákveðið að víkja úr ráðherraembættinu til að skapa frið um ráðuneytið og fyrirhugaða sölu á því sem eftir væri af eign ríkisins í Íslandsbanka.
Bjarni sagði ábyrgð fylgja völdum og virða bæri niðurstöður stofnana ríkisins eins og UA. Fyrir blaðamannafundinn hafði Bjarni rætt við þingflokk sjálfstæðismanna og að honum loknum ætlaði hann að ræða við formenn hinna stjórnarflokkanna. Frumkvæðið að þessari ákvörðun kæmi „hundrað prósent“ frá honum sjálfum. Hann sagði enga ákvörðun hafa verið tekna um hvort hann færi í annað ráðuneyti.
Þetta eru stór tíðindi í íslenskum stjórnmálum sem marka þáttaskil fyrir ríkisstjórnina hvort sem Bjarni hverfur úr henni eða ekki. Hann hefur staðið vaktina við stjórn fjármála ríkisins um langt árabil og siglt í gegnum marga brimskafla án þess að kvika. Andstæðingar hans hafa vegið að honum persónulega árum saman án þess að hafa erindi sem erfiði en þegar hann stendur frammi fyrir ávirðingum af hálfu UA tekur hann strax ákvörðun um að víkja úr því embætti sem hann er ekki talinn hafa sinnt af nægilegri kostgæfni. Þetta er í samræmi við virðinguna sem trúnaðarmenn almennings verða að bera fyrir grunnstofnunum stjórnkerfisins. Án hennar rynni upp tími lýðskrumara og upplausnar.
Bjarni hefur líklega talið sig standa frammi fyrir þremur kostum: (1) að sitja áfram, (2) að víkja úr embætti, (3) að hætta þátttöku í stjórnmálum. Hann velur millileiðina sem er í anda þess stöðugleika sem hann hefur lagt sig fram um að skapa með stjórnmálaforystu sinni. Nú er þess beðið hvert næsta skref verður.
One Comment on “Bjarni úr fjármálaráðuneytinu – „stór tíðindi í íslenskum stjórnmálum“”
Bjarni litli fór aldrei úr ráðherrastóli og það sem þú Björn kallar „stór tíðindi“ eru í rauninni eingin tíðindi, bara áframhald á sjúkri spillingu valdhafa á Íslandi „eingin ábyrð eingin virðing“
Þetta væri svona eins og maður sem er tekin af lögreglunni fyrir ölfunarakstur enn ákveður svo að skipta á bíl við lögreglumanninn og halda áfram akstri!