Geir Ágústsson skrifar:
Lýðheilsa, eða það sem á ensku kallast (mun skárra nafni) Public Health, hefur undanfarin ár verið dugleg í að rýra trúverðugleika sinn alveg inn að skinni, eða jafnvel beini. Það er hreinlega ástæða til að efast um ráðlagt mataræði lýðheilsusérfræðinga, hvað þá eitthvað flóknara en það.
Ef gagnslausu og hættulegu sprauturnar og ráðleggingar um að halda áfram að kaupa og nota þær eru ekki fullnægjandi dæmi þá held ég að Landlæknir hafi núna endanlega sópað seinustu leifum trúverðugleika út með ruslinu. Úr frétt mbl.is:
Alma Möller landlæknir segir í samtali við mbl.is að loftslagsbreytingar geti haft töluverð áhrif á heilsu Íslendinga og heilbrigðiskerfið þegar litið er fram í tímann. Embætti landlæknis átti fulltrúa í vísindanefnd sem vann að fjórðu matsskýrslu um loftslagsbreytingar í morgun.
Hvað næst? Leiðbeiningar um hvaða svæði í heiminum Íslendingar eigi alls ekki að ferðast til svo þeir fái ekki sjúkdóma sem þrífast í öðru loftslagi en því íslenska?
Hvað er hið fullkomna loftslag fyrir lýðheilsu, að mati landlæknis?
Er betra að það kólni, og að fólk sé viðkvæmara fyrir kvefpestum (kuldi drepur fleiri en hiti), eða hlýni, og að fólk umgangist veirur sem þurfa meiri raka og hlýju?
Voru veirur hinnar hlýju landsnámsaldar verri en veirur litlu ísaldar miðalda og mildari tíma dagsins í dag?
En Landlæknir dvelur ekki lengi við þetta og fer beint úr loftslaginu yfir í mengun, sem er gjörólíkur hlutur:
Alma segir að Það sé lykilatriði að auka vöktun á lýðheilsuvísum með til dæmis auknum loftgæðamælingum til að tryggja heilsu fólks betur. Svifryksmengun geti stundum orðið mikil og segir hún dæmi vera um það að fólk komi á spítala með vandamál tengd svifryksmengun.
Þarna er mögulega hægt að taka undir með Landlækni: Loftmengun er slæm fyrir heilsuna. Í fátækari sveitarfélögum Íslands, t.d. Reykjavík, er ekki til fjármagn til að sópa og hreinsa götur og þá er voðinn vís fyrir lungnasjúklinga.
En Landlæknir skiptir svo aftur um umræðuefni og fer að þylja upp stefnuskrá Samfylkingarinnar:
Alma segir að lokum að aðrar þjóðir séu að sjá að þeir sem höllustum fæti standa efnahagslega komi verst út þannig það að auka jöfnuð gæti skipt sköpum til að tryggja heilsu fólks.
Hagfræðin hérna er brandari. Tveir menn geta búið við mikinn ójöfnuð en hvorugan skort nokkuð. Sá sem á milljarð er ekki endilega hraustari en sá sem á milljón. En báðir eru eflaust hraustari en sá sem á bara eina krónu. Kannski áherslan ætti að vera á að hann eignist milljón frekar en að tveir menn eigni hálfan milljarð hvor. Þannig er fyrri hluti tilvitnunar í Landlækni nokkuð réttur en sá síðari pólitísk (þv)æla.
Ekki veit ég á hvaða vegferð Landlæknir er, eða öll lýðheilsuverksmiðjan ef því er að skipta, en ég tel óhætt að segja að það komi okkur ekkert við og að það séu aðrar raddir mun trúverðugri.