Páll Vilhjálmsson skrifar:
Í viðtengdri frétt er haft eftir Grími Grímssyni yfirlögregluþjóni að enginn sé grunaður vegna meintrar árásar á ráðstefnugest Samtakanna 78 þann 26. september. Fyrir skömmu sagði Grímur að ,,mjög óvanalegt" væri að glæpur af þessu tagi sé ekki upplýstur.
Eftir tæpan mánuð eru þverrandi líkur að rannsókn leiði til staðfestingar að árás hafi verið gerð á ráðstefnugestinn. Án grunaðra stendur aðeins eftir ásökun um glæp.
En hvernig meiddist ráðstefnugesturinn? Fram hefur komið að maðurinn, sem er útlendur, líklega norrænn, slasaðist í andliti, hlaut m.a. tannskaða. Maðurinn var farinn úr landi 36 klukkustundum eftir atvikið og ekkert hefur til hans spurst.
Ef gefið er að maðurinn slasaðist, en ekki vegna árásar, eru tveir möguleikar: sjálfsáverki eða slys, t.d. fall af rafhjóli.
Ef saklausari útgáfan er valin, slys, vaknar spurningin hvers vegna slysið var tilkynnt sem glæpur, líklega hatursglæpur. Jú, það þjónaði tilgangi Samtakanna 78. Þau halda fram að skjólstæðingar sínir séu ofsóttur minnihlutahópur sem ekki nýtur verndar ríkisvaldsins. Fátt er um haldbær rök fyrir sjónarmiðinu en þess meira um upphrópanir.
Hatursglæpur í miðborg Reykjavíkur átti að staðfesta að skjólstæðingar Samtakanna 78 séu ekki óhultir í almannarými. Margir stukku á fordæmingarvagn Samtakanna 78, m.a. ráðherrar og þingmenn og, auðviðtað, gagnrýnislausir fjölmiðlar. Aðfinnslur foreldra á skólastarf Samtakanna 78 átti á kæfa með hatursglæpnum.
Reynist tilgátan rétt, að slys var gert að hatursglæp, hefur það alvarlegar afleiðingar. Í fyrsta lagi er það lögbrot. Í öðru lagi er stórlega vafasamt að veita opinberan fjárstuðning til samtaka sem stunda lögbrot (þótt RÚV sé enn á fjárlögum). Í þriðja lagi verður gengið á stjórnmálamenn sem gleyptu hráar fullyrðingar forsvarsmanna Samtakanna 78. Í fjórða lagi eru fjölmiðlar með allt niðrum sig, líkt og fyrri daginn, endurvarpa staðlausum stöfum hávaðafólks og kalla rannsóknablaðamennsku.
Tilfallandi tekur undir með Grími yfirlögregluþjóni að hér er á ferðinni ,,mjög óvanalegt" atvik sem allir viðkomandi ættu að leggja kapp á að upplýsa. Samtökin 78, sem kærðu og kynntu meinta árás, eru aftur fjarska þögul um málið. Ekkert hefur t.d. frést af meintum brotaþola, reynslu hans af atvikinu og hvernig heilsu hans er háttað. Samtökin segja ekkert og fjölmiðlar spyrja ekki.
Kurlin eru ekki öll komin til grafar í þessu máli.