Björn Bjarnason skrifar:
Hótanirnar og illmennskan sem Auðun Georg sætti er ekkert einsdæmi. Sömu aðferðum er beitt gagnvart ráðherrum og þingmönnum „dirfist“ þeir að snerta hár á höfði fjölmiðlarisans í Efstaleiti.
Auðun Georg Ólafsson var ráðinn fréttastjóri hljóðvarps ríkisútvarpsins (RÚV) í mars 2005, fyrir rúmum 18 árum. Þegar hann kom til starfa 1. apríl 2005 var honum sýnd svo mikil óvirðing og hatur af fréttamönnum ríkisútvarpsins að hann hrökklaðist út úr útvarpshúsinu í Efstaleiti og hefur ekki stigið þangað fæti að nýju fyrr en nú í vikunni.
Þetta er ótrúleg en sönn saga. Starfsmenn RÚV segja nú til afsökunar ofstækinu í mars 2005 að þá hafi pólitískt skipað útvarpsráð í eina skiptið tekið ákvörðun þvert gegn vilja fréttastofunnar og alls ríkisútvarpsins. Starfsmennirnir skjóta sér á bak við að þá hafi þeir eða forverar þeirra hrakið Auðun Georg úr úr útvarpshúsinu vegna þess hvernig þeir voru valdir sem greiddu honum atkvæði í útvarpsráði. Má skilja orðin á þann veg að öðru vísi sé staðið að vali manna í stjórn RÚV ohf. núna. Málum er ekki þannig háttað.
Stjórn RÚV er kosin á aðalfundi í apríl ár hvert en alþingi tilnefnir níu menn og jafnmarga til vara sem kosnir skulu í stjórn félagsins. Hún er með öðrum orðum pólitískt kjörin þótt aðalfundi sé falið að stimpla kjörið. Að starfsmannasamtök RÚV tilnefni einnig einn mann og annan til vara gerir stjórnina ekki ópólitíska. Aðförin að Auðuni Georgi og önnur viðbrögð starfsmanna RÚV falli þeim ekki ákvarðanir stjórnar RÚV, hafa gert stjórn hlutafélagsins marklausa sem gæslumann hagsmuna almennings og skattgreiðenda.
Sé staðan þessi sýnir það enn og aftur að þessi opinbera hlutafélagsvæðing misheppnaðist.
RÚV lýtur opinberri stjórn vegna þess að allir skattgreiðendur í landinu eru skyldaðir til að standa undir kostnaði við þetta opinbera hlutafélag. RÚV býr við meira fjárhagslegt öryggi en önnur ríkisfyrirtæki eða stofnanir. Hótanirnar og illmennskan sem Auðun Georg sætti er ekkert einsdæmi. Sömu aðferðum er beitt gagnvart ráðherrum og þingmönnum „dirfist“ þeir að snerta hár á höfði fjölmiðlarisans í Efstaleiti.
Þetta birtist meðal annars í Morgunblaðinu í dag 26. október þar sem sagt er frá svörum Lilju D. Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra við spurningum blaðsins um tekjur RÚV, skattheimtuna og auglýsingatekjurnar. Ráðherrann svarar í raun engu og hefur ekki neina haldfasta skoðun eins og lýsir sér í því svari hennar að markaðsbrestur sé á innlendum fjölmiðlamarkaði af því að auglýsingasala hafi í stórauknum mæli runnið til erlendra tæknifyrirtækja. „Ég er ekki sannfærð um að brotthvarf RÚV af auglýsingamarkaði myndi leysa þann vanda, heldur þvert á móti auka á hann eins og dæmin sanna frá öðrum löndum,“ segir ráðherrann.
Í öðrum löndum eru ekki auglýsingar í ríkismiðlum. Annars staðar eru auglýsingatekjur erlendra tæknifyrirtækja skattlagðar. Aðgerðaleysi hér í því efni er ekki afsökun fyrir að halda RÚV á auglýsingamarkaði. Ráðherrann lætur einfaldlega undan þrýstingi frá Efstaleitinu. Í upplausninni sem ríkir á íslenskum fjölmiðlamarkaði gætir ekki sömu vandvirkni við miðlun frétta og áður. Einokun RÚV knýr fleiri til að spila með við útbreiðslu rétttrúnaðarins sem opinbera fréttastofan boðar.
One Comment on “Heiftin í Efstaleiti”
Þetta eru merkileg skrif hjá þér Björn Bjarnason, ég veit ekki betur enn þú hafir verið þingmaður og ráðherra á þessum tíma og örugglega haft puttana í því þegar það var handvalið í stjórn RUV?
Þetta kallast nú ekki að skjóta sig í fótinn, þetta myndi heldur kallast að sprengja báðar fæturnar undan sér!
Vandamálið með RUV er einmitt svona spillingar kaunar eins og þú sem færa áróðurinn af alþingi inn í ríkisfjölmiðilinn, þetta kallast að stýra umræðunni.