Gústaf Skúlason skrifar:
Seðlabanki Svíþjóðar segir athugun sænsku ríkisstjórnarinnar á greiðsluháttum Svía vera ófullnægjandi. Seðlabankinn leggur fram tillögur um hvernig bjarga megi greiðslum í reiðufé og innfæra reiðufé að nýju sem viðurkenndan greiðsluhátt í Svíþjóð. Vill Seðlabankinn að það verði lögbundin skylda allra söluaðila í landinu að taka við reiðufé í sænskum krónum.
Flestir sem hafa komið til Svíþjóðar á undanförnum árum hafa eflaust mætt því, að margir veitingastaðir og verslanir segjast ekki taka við reiðufé lengur. Einungis er tekið við rafrænum greiðslum. Hefur þetta vakið reiði margra og verið spurt, hvort sænska krónan sé ekki lengur gjaldgeng í eigin landi.
Hætta á að aðilar þurfi að endurfjárfesta í greiðslubúnaði
Ríkisstjórnin skipaði nefnd til að rannsaka málið sem nú hefur skilað af sér skýrslu sem Seðlabanki Svíþjóðar gagnrýnir harðlega. Fyrrum formaður Móderata, Anna Kinberg Batra, leiddi rannsóknina og leggur aðeins til táknræna skyldu um að taka við reiðufé t.d. vegna skatta, gjalda og lyfseðilsskyldra lyfja.En seðlabankinn er ekki sáttur við það. Framkvæmdastjórn bankans skrifar í samráði til ríkisstjórnarinnar:
„Þegar í dag eru þvílík vandamál með reiðufé og meðhöndlun á reiðufé, að ástæða er til að herða löggjöf tafarlaust sem tryggir stöðu reiðufjár og aðgang að þjónustu með reiðufé.”
„Ef ríkið bíður þar til reiðufé og gjaldeyrisþjónusta hefur lagst af enn frekar, þá getur það leitt til þess að þróunin gangi svo langt að of seint verði að grípa til aðgerð og hætta sé á, að aðilar neyðist til að bakka aftur til baka og endurfjárfesta í greiðslubúnaði og kerfum.”
Vill hraða lagasetningu um skyldu að taka við greiðslu í reiðufé
Samkvæmt viðhorfi seðlabankans ættu allir, sem selja nauðsynlegar vörur og þjónustu eins og matvæli, eldsneyti og lyfjavörur, að jafnaði að vera skuldbundnir að taka við reiðufé á sölustöðum sínum. Seðlabankinn bendir á að innleiða mætti almenna skyldu til að taka við reiðufé á sölustöðum.
„Að lögleiða slíkar kröfur núna myndi ekki þýða mikil inngrip í starfsemi viðkomandi fyrirtækja, þar sem flestir taka enn við reiðufé.”
Reglur um reiðufé þegar í Danmörku og Noregi
Ríkisbankinn minnir einnig á, að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi lagt fram lagafrumvarp sem er víðtækara en tillaga sænsku nefndarinnar felur í sér. Í tillögu ESB verður með nokkrum undantekningum, gert skylt að taka við reiðufé í evrum til greiðslu í evrulöndunum. Einnig eru reglur um skyldu til að taka við reiðufé bæði í Danmörku og Noregi.