Lesið sér til um Palestínu

frettinErlent, Ingibjörg GísladóttirLeave a Comment

Ingibjörg Gísladóttir skrifar:

Innræting RÚV fékk mig til að kalla eftir frjálsri Palestínu, þ.e. eyðingu Ísraelsríkis. Ég var nytsamur hálfviti. Ég iðrast.

Gyðingahatur er afar útbreitt á Íslandi. Ég kenni RÚV um. Ár eftir ár hefur fréttastofan innprentað okkur skoðanir sem ég tel vera komnar frá kommúnistum A-Þýskalands sem studdu íslam og byggðu hinn andfasíska múr sér til verndar gegn vestrænum hugmyndum. Ekki batnaði það þegar nýmarxisminn réð sér til rúms.

Samkvæmt RÚV eru Ísraelsmenn nýlendukúgarar sem hafi hernumið land Palestínumanna, frumbyggja landsins, rekið suma þeirra á brott, vinni í að útrýma þeim öllum, komi í veg fyrir að þeir fái eigið ríki og beiti þá grimmri aðskilnaðarstefnu.

Ég trúði þessu áður fyrr og var meðal þeirra 700 sem léku sig fallna á Arnarhóli um árið en svo fór ég að lesa mér til. Ég las stofnskrá Hamas þar sem stendur skýrum stöfum að útrýma skuli gyðingunum og tók eftir að PLO var stofnað til að frelsa Palestínu á þeim tíma er Jórdanir höfðu rekið alla gyðinga af Vesturbakkanum og Egyptar héldu Gaza. „Frjáls Palestína" er hundaflauta er merkir „útrýmum gyðingunum".

Uppruni Palestínumanna

Á kortum frá tíma Ottómana er svæðið sem Bretar réðu síðar og kölluðu Palestínu (náði líka yfir Jórdaníu) sýnt sem hluti Sýrlands. Mark Twain ferðaðist í hóp um svæðið 1867 og lýsir því í ferðasögu sinni Innocents Abroad (kaflar LII og LII) að er menn nálguðust Jerúsalem sást „varla tré né runni nokkurs staðar. Jafnvel ólífutrén og kaktusarnir ... höfðu nær yfirgefið landið". Í Jerúsalem bjuggu um 14.000 af mjög fjölbreyttu þjóðerni og trú, í tötrum, eymd, fátækt og óhreinindum en annars staðar í landinu sá hann helst bedúína á stangli.

William Melville Christie segir frá uppruna þeirra er byggðu Landið helga í grein frá 1930. „Arabs and Jews in Palestine". Hann segir að arabar hafi búið í nágrenni Palestínu áður en fylgendur Múhammeðs lögðu landið undir sig. Hann segir m.a. að á tímum krossferðanna hafi Saladin fengið senda 150.000 múslima frá Persíu en nýjasta viðbótin hafi komið frá N-Afríku, trúaröfgamenn sem ekki hafi viljað una við stjórn kristinna. Þeir séu án menntunar og tilbúnir til að trúa hverju sem sagt er skaða íslam og fremja fjöldamorð, s.s í Safed. Í landinu er líka forn bændastétt, segir hann, nær óskyld aröbum, og eitthvað af Samverjum í Nablus.

Christie lýsir uppbygginga- og niðurrifsskeiðum gyðinga í Palestínu eftir fall Jerúsalem (70 e.Kr.). Eftir tíma krossferðanna hafi aðeins um 2.000 verið eftir en fjölgað eftir að þeir voru reknir frá Spáni (1492). Hann segir að múslimarnir trúi því að er Kristur komi aftur gegnum Gyllta hliðið í Jerúsalem þá muni múslimar ríkja yfir gyðingum að eilífu.

Gyðingar hófu að flytja til Landsins helga upp úr 1880 að flýja pogrom í A-Evrópu. Christie segir að árið 1906 hafi fimmti hver maður verið gyðingur. Þeir keyptu sig einfaldlega inn í landið og þurftu að halda áfram að borga.

Þrátt fyrir Balfouryfirlýsinguna um rétt gyðinga til landsins þá hömluðu Bretar innstreymi gyðinga eins og William Ziff lýsir í bók sinni The Rape of Palestine en einnig segir hann að uppbygging gyðinga í Palestínu hafi virkað sem segull á araba. Robert Kennedy ferðaðist til Palestínu á vegum Boston Post mánuði áður en Ísrael öðlaðist sjálfstæði 1948 og í grein sinni „British Hated by Both Sides" segir hann að arabar hafi áhyggjur af örri fjölgun gyðinga, þeir vilji ekki hafa þá í landinu nema þeir séu undir sinni stjórn og séu harðir á því að ráðist verði á sjálfstætt ríki gyðinga út í það óendanlega.

Hann segir hins vegar að gyðingarnir séu stoltir af því að fleiri en hálf milljón araba hafi komið til landsins frá 1932-1944 til að njóta lífsgæða sem ekki buðust í neinu öðru ríki er arabar byggja. Þetta sé eina landið í Miðausturlöndum og nærsvæðis þar sem miðstéttararabar fyrirfinnist.

Útrýming og aðskilnaðarstefna

Palestínuaröbum fjölgar stöðugt, bæði í Ísrael þar sem um 2 milljónir þeirra hafa full borgaraleg réttindi, og á svæðum Palestínumanna svo þessi meinta útrýming gengur hreint ekki vel. Engin aðskilnaðarstefna er í gangi innan Ísraelsríkis en reynt er að telja mönnum trú um að hægt sé að tala um slíkt gegn þegnum Palestínsku heimastjórnarinnar, Hamas og flóttamannanna frá 1948 sem eru í nágrannalöndunum.

Hernám og ríkismyndun

Það hefur enginn ísraelskur her verið á Gaza frá 2005 en svæðið er í herkví Ísraela og Egypta sem afleiðing af nær vikulegum sjálfsmorðsárásum upp úr 2000 og endalausum flugskeytaárásum. Ef til vill má segja að Vesturbakkinn sé hernuminn en hann er þó undir stjórn heimastjórnar Abbas.

Ísraelsmenn sömdu um frið við Egypta og Jórdani en Palestínumenn hafa hafnað öllum samningstillögum. Lengst komust samningar árið 2000 er Bill Clinton lagði hart að Arafat og 2008 er Olmert bauð meira en 100% lands en Abbas hafnaði því þrátt fyrir að samningamaður hans, Saeb Erekat, segist hafa lagt hart að honum að samþykkja. Abrahamssamningunum var hafnað fyrirfram.

Vandamálið virðist vera yfirburðahyggja Palestínuaraba, sú bjargfasta trú þeirra að það sé vilji Allah að gyðingar og aðrir í landinu séu undirsátar þeirra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2.11.2023.

Skildu eftir skilaboð