Ingibjörg Gísladóttir skrifar:
Lars Hedegaard er danskur rithöfundur, blaðamaður og sagnfræðingur, þekktastur fyrir að stofna Danish Free Press Society og fyrir gagnrýni á íslam. Í viðtali við Tommy Robinson segir hann frá fátækt í æsku og að hann hafi verið troskíisti langt fram eftir aldri en séð að byltingin væri ekki að gera sig. Hann segir að vinstrið hafi týnt niður stefnumálum sínum: frelsi til að tjá sig, jafnrétti, réttlæti og stöðu gegn rasisma. Nú vilji vinstri menn flokka menn í hópa eftir eiginleikum og skipta þeim í kúgara og kúgaða (nýmarxisminn).
Hin ráðandi stétt kalli sig nú vinstrimenn
Hann segir að hin ráðandi stétt hafi ekki farið neitt en kalli sig nú vinstrimenn. Kapítalistarnir hafi náð öllum völdum, örfá fyrirtæki (Blackrock, State Street, Vanguard) eigi nær allt og á meðan þeir geti látið menn deila innbyrðis með ásökunum um kúgun (konur gegn körlum t.d.) þá taki menn ekki eftir stjórnuninni að ofan. Íslamsvæðingin sé einnig þáttur í því að halda mönnum uppteknum. Sem sagnfræðingur hafi hann tekið eftir því að múslimarnir sem komu til Danmerkur vildu ekki aðlagast. Þeir vildu gjarnan njóta þess öryggis er félagslega kerfið veitir en alls ekki verða Danir.
Næst velta þeir Tommy því fyrir sér af hverju vinstrið sér múslima sem samherja. Í Bretlandi verji sósíalistarnir íslam. Lars segir að litið sé á múslima sem bandamenn til að umbylta hinu lýðræðislega skipulagi en það gleymist að múslimar hafi sín eigin markmið. Menn hefðu átt að læra af því sem gerðist í Íran (og Líbanon, bætir Tommy við). Í Íran hafi margir kommúnistar kallað eftir endurkomu Khomeini en verið fljótlega drepnir eftir að hann komst til valda.
Danir séu á hættulegri braut
Lars talar um að Danir séu á hættulegri braut með því að taka upp þann hluta sjaríalaga sem bannar óvirðulega meðferð á Kóraninum, fleiri kröfur muni koma í kjölfarið og tjáningarfrelsið sé í húfi. Árið 2011 var Lars dæmdur fyrir hatursorðræðu vegna viðtals sem hann fékk ekki að lesa yfir en sýknaður í hæstarétti. Mánuði síðar var honum svo sýnt banatilræði með skammbyssu en kúlan fór framhjá höfði hans. Árásarmaðurinn slapp til Tyrklands og fór þaðan til Sýrlands til að berjast með ISIS. Lars var bannað að nafngreina hann en eftir að nafn hans birtist í tyrkneskum blöðum gerði hann það og var sektaður um 27.000 DKR, sem vinir hans borguðu. Eftir þann atburð hefur hann verið undir lögregluvernd (virðist algengt með Dani) og segir að lögreglustöð hafi verið sett upp í garði Kurt Westergaard (teiknaði mynd af Múhammeð), mönnuð allan sólarhringinn.
Hann segir að þar sem stjórnmálamönnunum sé stjórnað að ofan (WEF, Soros, Bill Gates) sé tilgangslaust að kjósa; borgaraleg óhlýðni sé það sem þarf. Grasrótin þurfi að taka við sér. Menn geti stofnað sjálfshjálparhópa og eigin skóla (það sé leyfilegt í Danmörku). Vinna þurfi bæði gegn íslamvæðingunni og nýmarxismanum (woke-ismanum). Lokaorð Lars eru að ekki vera hræddur. Þori menn ekki að tjá sig þá fari þeir að hata sjálfa sig fyrir aumingjaskapinn. Betra að standa uppréttur.