Ríkisstyrkir sem vopn

frettinGeir Ágústsson, InnlentLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Íslenska ríkið dælir hundruðum milljóna á ári af fé skattgreiðenda í einkarekna fjölmiðla og milljörðum í þann ríkisrekna.

Hvað fær ríkið í staðinn?

Þægilega fjölmiðla sem tipla á tánum þegar hið opinbera vill tæta í sig einhverja starfsgreinina?

Blaðamenn sem víkja í engum aðalatriðum frá efnistökum fréttatilkynninga hins opinbera?

Mátulega gott aðgengi þeirra sem hafa óþægilegar skoðanir að hljóðnemunum?

Vonandi ekki!

En styrkir hið opinbera málefnalega andstæðinga sína? Þá sem hamast og hjakkast í bákninu?

Núna hefur borgarfulltrúi tekið til máls og kallar eftir opinberri ritskoðun og beitingu fjölmiðlastyrkja til að þagga niður í óþægindunum.

Væntanlega er borgarfulltrúinn ekki einn um þá skoðun. Mögulega fór hann í ræðustól eftir að hafa rætt við vini og kunningja og samflokksfólk og fengið hvatningu um að benda á þetta mikla vandamál.

Hið opinbera notar víða styrki til að móta, múta og meiða. Þeir óþægu fá ekkert, þeir þægu fá mikið. Þetta getur hið opinbera auðveldlega gert þegar það er búið að gera rekstrarumhverfið óbærilegt og ráðstöfunarfé fólks að engu og styrkina og skattféð að einu líflínunni. Landbúnaður, nýsköpun, fjölmiðlastarfsemi, listir og menning, íþróttastarf, rekstur skóla og svona mætti lengi telja. Mjög lengi!

Í gamla daga sáu prestar um að þagga niður í gagnrýni og óþægilegum skoðunum með allskyns hótunum og jafnvel handtökum. Í dag þykir meira við hæfi að gera einhvern gjaldþrota. En markmiðið er það sama.

Skildu eftir skilaboð