Ingibjörg Gísladóttir skrifar:
Snemma árs 2018 mátti heyra á RÚV lofsöng um hugrekki ungrar hrokkinhærðrar stúlku á Vesturbakkanum en hún hafði lamið og sparkað í hermenn. BBC líkti henni við Jóhönnu af Örk en í augum bandarísku pressunar var hún jafngildi Rosu Parks. Ahed Tamimi var handtekin og dæmd í 8 mánaða fangelsi fyrir ýmiskonar ofbeldi gegn hermönnum, m.a. grjótkast, og Amnesty tók hana upp á arma sér og krafðist þess að hún yrði látin laus.
Þakkar leiðtoga Hezbollah
Afplánun Ahed var stytt sakir góðrar hegðunar og í myndbandi sem sýnt var í sjónvarpi í Líbanon þakkar hún Hassan Nasrallah, leiðtoga hryðjuverkasamtakanna Hesbollah fyrir stuðning við sig.
„Við styðjum hann öll og erum stolt," sagði hún um Nasrallah. „Mig langar til að senda honum kveðju, til að þakka honum fyrir stuðninginn og til að segja honum að hann veiti okkur styrk," sagði hún.
Amnesty studdi Ahed Tamimi
Ekki kunnu allir súnnímúslimar að meta aðdáun hennar á leiðtoga Hesbollah og virðist lítið hafa farið fyrir Ahed næstu árin en nýlega er hún sögð hafa birt á Instagramreikningi sínum herhvöt til Palestínumanna. Hillel Neuer hjá UN Watch beinir spjótum sínum að Amnesty og segir: „Hetjan ykkar Ahed Tamimi póstaði nýverið, „Komið landtökumenn, við munum slátra ykkur. Við bíðum eftir ykkur í öllum borgum Vesturbakkans. Það sem Hitler gerði ykkur var bara grín. Við munum drekka blóð ykkar og bryðja höfuðkúpur ykkar. Við bíðum ykkar." Neuer spyr „Munið þið fordæma?". Ahed mun nú hafa verið tekin í yfirheyrslu. Móðir hennar vill meina að Ahed hafi ekki skrifað þessi orð en Neuer segir engan vafa leika á að umræddur Instagramreikningur sé hennar.
Fyrirmyndir hennar
Í innslögum Neuers á X (Twitter) má lesa að Ahed hafi haft margar fyrirmyndir: Frænka hennar Manal Tamimi hafi kallað eftir drápum á gyðingum, eða „vampíru síonistum" og hann segir að Ahed hafi dansað í brúðkaupi frænda síns sem hafði myrt, ásamt öðrum, Haim Mizrahi, ungan mann sem kom vikulega í þorp Palestínumanna til að kaupa egg. Brúðurin var hin alræmda Ahlam Tamimi sem skipulagði hryðjuverkaárás á pizzustað í Jerúsalem 2001 þar sem 15 létust, þar af 7 börn, og fleiri en 120 særðust er félagi hennar sprengdi öfluga naglasprengju og sjálfan sig með. Til er myndband af Ahlam þar sem sjá má hana fagna innilega þegar það fréttist hver margir höfðu látist í sprengingunni og í öðru myndbandi má sjá hana ræða um píslarvætti og það hugarástand er píslarvottar fyrir Hamas þurfi að uppná. Í sama myndbandi má sjá hana tala um Palestínu og þann „slakandi, þægilega ilm, sem er eins og hann kæmi fra Paradís" er kemur frá þeim píslarvottum er grafnir hafa verið í landinu.
Notuð í áróðursskyni
Ahed var aðeins 10-11 ára þegar foreldrar hennar fóru að nota hana í áróðursskyni og móðir hennar tók af henni myndir þar sem sjá má hana, þessa písl, steyta hnefann að hermönnum og 2012 er hún var 13 ára var henni boðið til Tyrklands þar sem Erdogan tók á móti mæðgunum á hóteli sínu. Henni voru í ferðinni veitt sérstök hugrekkisverðlaun, opnaði listasýningu og fleiri heiður var henni sýndur.
Nú er Ahed, þetta yndi vinstri pressunnar, hvorki lítil né krúttleg lengur og það sem verra er - hún virðist hafa umbreyst í tröll.