Verkferlar á Glæpaleiti

frettinFjölmiðlar, Innlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Fréttaljósmyndari RÚV reyndi húsbrot í Grindavík og ætlaði sér að brjóta á friðhelgi heimilisins. Heimilisfólki var skipað, nauðugt viljugt, að yfirgefa heimili sitt. Yfirvöld hleyptu síðan fréttagangsterum RÚV inn á yfirlýst neyðarsvæði. Fréttastofa RÚV virðir hvorki siðaðra manna hætti né lög og þrætir alltaf fyrir misgjörðir. Í þetta sinn tjóaði ekki að neita, tilraunin til húsbrots og brots á friðhelgi einkalífs náðist á myndband.

Við erum voða sorrí, segir  Heiðar Örn Sig­urfinns­son fréttastjóri RÚV og kveðst ætla að ,,skerpa á verkferlum." 

Virkilega?

Verkferlar RÚV hafa hingað til leyft aðkomu fréttastofu að byrlun, gagnastuldi, brotum á friðhelgi einkalífs og misþyrmingu fólks í bágindum. Tveir starfsmenn RÚV, Aðalsteinn Kjartansson og Þóra Arnórsdóttir, eru sakborningar í lögreglurannsókn. Hvað gerði RÚV til að upplýsa aðild starfsmanna sinna að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans? Helgi Seljan fréttamaður RÚV var í sambandi við andlega veikan byrlara Páls, fyrir og eftir verknaðinn. Rakel Þorbergsdóttir var fréttastjóri þegar byrlun og stuldur fóru fram, í byrjun maí 2021. Öll fjögur eru hætt en RÚV útskýrir ekki aðild sína að málinu. RÚV segir ekki eitt einasta orð. Eru verkferlar RÚV að hylma yfir lögbrot?

Stjórn RÚV, tilnefnd af alþingi, er farin að átta sig á að ekki er allt með felldu á stofnuninni. Fyrir sex vikum lét varaformaður stjórnar RÚV, Ingvar Smári Birgisson (ISB), bóka eftirfarandi í fundargerð:

ISB árétti mikilvægi þess að fréttastofa starfi í samræmi við lög og virði friðhelgi borgaranna í hvívetna.

Ef stjórn fyrirtækis eða stofnunar þarf að árétta að starfsmenn virði lög og friðhelgi borgaranna er augljóst að um gjörspillta starfsemi er að ræða. Eru til nokkur dæmi að varaformaður stjórnar stofnunar eða fyrirtækis bóki í fundargerð að starfsmenn fari að lögum og virði mannréttindi? Sjá menn ekki viðvörunarljósin? Loka menn augunum af ótta við að verða fyrir ofsóknum ríkisfjölmiðilsins?

Þrátt fyrir bókun varaformanns er áfram haldið að brjóta og bramla og valda saklausum miska. Fréttagangster RÚV reynir húsbrot á neyðarsvæði í Grindavík. Heiðar Örn fréttastjóri segist skerpa á verkferlum. Fréttastjórinn getur ekki einu sinni skerpt á sjálfum sér.

Fréttastofa RÚV tekur lögin ítrekað í sínar hendur og skeytir hvorki um heiður né skömm. Vinnustaðamenning sem elur á siðleysi og lögbrotum er fyrir löngu komin fram yfir síðasta söludag. Orðagjálfur um skerpingu verkferla við þessar aðstæður er siðblinda á hæsta stigi.

Skildu eftir skilaboð