Gústaf Skúlason skrifar:
Reuters greinir frá því, að danski vindorkuframleiðandinn Orsted hafi formlega sagt sig úr hópi þeirra fyrirtækja sem ætlað er að bjóði í norskar vindorkuframkvæmdir á hafsvæði. Kemur það nokkrum dögum eftir að Orsted dró sig út úr tveimur bandarískum vindframkvæmdum á hafi úti.
Afturköllunin kom aðeins tveimur dögum fyrir frest Norðmanna þann 15. nóvember um að vera með í forvalsútboði á byggingu allt að 1,5 gígavatta vindorkuvera úti á hafi. Í frétt Reuters segir:
„Orsted hefur upplýst okkur um, að vegna forgangsröðunar fjárfestinga í eignasafninu, þá muni fyrirtækið hætta þátttöku í vindorkuframkvæmdum á hafi fyrir utan Noreg og hætta við áframhaldandi samstarf, að sögn Bonheur ASA (BONHR.OL) í Noregi.”
Orsted segir í tölvupósti til Reuters, að fyrirtækið forgangsraði ekki lengur verkefni vindorku á hafi úti við Noreg. Orsted dró sig úr bandarískum vindframkvæmdum á hafi úti fyrr í nóvember og vísaði til hækkandi kostnaðar, birgðakeðjuvandamála og hárra vaxta.
Áður en fyrirtækið hætti í bandarískum verkefnum, þá sagði Mads Nipper, forstjóri Orsted, við Bloomberg, að Biden-stjórnin þyrfti að tryggja meiri fjárstuðning við verkefnin á sama tíma og vaxandi verðbólga græfi undan grænu orkuskiptunum. Orsted hefði fengið að minnsta kosti 30% skattafslátt samkvæmt bandarískum lögum um lækkun verðbólgu. Fyrirtækið hafði farið fram á tryggingu fyrir enn meiri niðurgreiðslum af hálfu Biden-stjórnarinnar meðal annars vegna kröfu um kaup á efni innanlands. Einnig bað fyrirtækið um meiri tíma vegna flöskuhálsa í aðfangakeðjunni innanlands.
Orsted varaði við því í lok ágúst, að það gæti staðið frammi fyrir allt að 2,3 milljörðum dala í virðisminnkun í bandarískum verkefnum. Hlutabréf Orsted féllu um 20% þann 1. nóvember þegar fyrirtækið dró sig formlega út úr bandarísku verkefnunum.
Hlutabréf grænnar orku hafa staðið sig verulega illa samanborið við hlutabréf jarðefnaeldsneytis. Sala hlutabréfa grænnar orku hefur stóraukist að undanförnu vegna hárra vaxta og þrátt fyrir niðurgreiðslur bandaríska ríkisins.