Vísindi, jörð og loftslag

frettinLoftslagsmál, Páll Vilhjálmsson, VísindiLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Jarðvísindamenn ráða í framvindu mála á Reykjanesskaga. Rauntímamælingar á skjálftavirkni í djúpi jarðar eru bornar saman við raunmælingar á yfirborði. Upplýsingarnar eru túlkaðar í samhengi viðurkenndra kenninga um hegðun efnis í iðrum jarðar.

En menn vita ekki hvort, hvenær og hvar eldsumbrot hefjast. Þaulskoðun í nokkrar vikur skilar ekki haldbærri niðurstöðu. Engin ástæða er að efast um heilindi sérfræðinganna. Þeir eru allir af vilja gerðir að spá sem réttast um næstu klukkustundir, daga og vikur, að ekki sé talað um ár og áratugi. Þrátt fyrir vísindalega þekkingu á jarðhræringum er ekki hægt að slá neinu föstu. Allt er með sterkustu fyrirvörum, í raun upplýstar ágiskanir.

Víkur þá sögunni að öðrum náttúruvísindum, loftslagsfræðum. Þeir sem fylgjast með veðurspám vita að þokkalega áreiðanlegar veðurspár eru aðeins til 5-7 daga. Jarðvísindi eru í þeim skilningi einfaldari en loftslagsvísindi að í jörðu niðri eru færri breytur, mest berg í föstu formi eða seigfljótandi, í þremur lögum; kjarna, möttli og skorpu. Í jarðvísindum er ekki talað um óreiðu. Breyturnar eru fáar og þekktar, samspil þeirra á milli sæmilega skilið - en samt er óvissa.

Loftslag jarðar er aftur viðurkennd óreiða. Ef ekki væri óreiðunni til að dreifa yrðu áreiðanlegar veðurspár gerðar til lengri tíma en viku eða svo. Óreiða felur í sér óvissu og hana verulega. Engu að síður er til fólk, jafnvel með háskólapróf í viðeigandi fræðum, sem fullyrðir að útblástur mannsins á koltvísýringi, CO2, valdi heimshlýnun. Meintir sérfræðingar spá hlýnun upp 3 til 5 gráður næstu áratugi. Þeir vita ekki hvernig veðrið verður í næsta mánuði en fullyrða um hlýindi árið 2050.

Koltvísýringur(CO2) er forsenda lífs á jörðinni

Koltvísýringur, CO2, er náttúruleg lofttegund með eitt atóm kolefnis og tvö súrefnisatóm. Lofttegundin er forsenda lífs á jörðinni. Plöntur draga að sér koltvísýring, taka kolefnið sér til vaxtar og viðurværis en skila súrefninu aftur út í andrúmsloftið. Ferlið kallast ljóstillífun. Orkan til ljóstillífunar er sólarljósið (lampar í gróðurhúsum).

Án plantna er ekki líf á jörðinni. Heildarmagn koltvísýrings í andrúmsloftinu er áætlað um 750 gígatonn. Af þessu magni er útblástur mannsins 3-4 prósent, um 29 gígatonn. En það er sem sagt maðurinn, ekki náttúran, sem ræður loftslagi jarðar, segja meintir sérfræðingar. Í raun eru þeir ekki annað en aðgerðasinnar með háskólapróf.

Will Happer loftslagsvísindamaður útskýrir á 5 mínútum hvers vegna meintir sérfræðingar höfðu rangt fyrir sér, hafa rangt fyrir sér og munu hafa rangt fyrir sér. Ástæðan er að í stað þess að freista þess að skilja óreiðuna, sem loftslagið er, smíða meintir sérfræðingar reiknilíkön og gefa þær forsendur að jörðin hlýni. Þetta eru ekki vísindi heldur skáldskapur.

Ef jarðvísindamenn segðu að þeir hafi keyrt reikniforrit með þeirri forsendu að eldgos kæmi upp í miðbæ Grindavíkur og spáðu á þeim grunni gosi í miðbænum - hvað yrði sagt um athæfið? Jú, spurt yrði hvort sérfræðingarnir væru ekki með öllum mjalla.

Meintir sérfræðingar í loftslagsmálum hafa leikið þennan leik í áratugi. Þeir spá hlýnun á grunni reikniforrita með fyrirframgefinni niðurstöðu, að það hlýni. Allir með reynslu af Excel-reikniforriti kunna þessa meginreglu: rusl inn rusl út. Meintir sérfræðingar í loftslagsmálum fela ruslið, skáldskapinn, sem fer inn og selja almenningi ruslið er út kemur sem vísindi.

Skildu eftir skilaboð