Velvakandi hafði samband við Fréttina og benti á þessa 3. ára gömlu frétt sem birt var á RÚV. Eins og landsmönnum er kunnugt um þá hefur verið mikil skjálftavirkni í og við Grindavík sem hefur fært sig mikið í aukanna á undanförnum vikum, með þeim afleiðingum að Grindavíkurbær hefur nú verið rýmdur, og ekki sér fyrir endan á hvort eða hvenær íbúar fái að snúa aftur heim.
Niðurdæling HS Orku veldur jarðskjálftum
Í fréttinni á RÚV kemur fram að niðurdæling HS Orku veldur jarðskjálftum við borholur fyrirtækisins í Svartsengi. Náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir að niðurdælingin valdi aðeins jarðskjálftum þar sem vatninu er dælt niður og ekki sé unnt að rekja alla skjálfta á því svæði til niðurdælingar. Breytt spenna í jarðskorpunni verði til þess að niðurdælingin, sem staðið hefur yfir árum sama, sé núna að leiða af sér jarðskjálftavirkni.
Í greininni segir jafnframt:
„Skjálftavirknin á Reykjanesskaganum núna, við skiljum ekkert almennilega hvað það er sem veldur svona mikilli skjálftavirkni alls staðar. En það sem við sjáum er að það er kvikuinnskot í gangi núna aftur, tók sig upp að nýju í byrjun mars, sem sagt landris og svæðið er að þenjast út með miðju rétt vestan við Þorbjörn. Það sem gerist við það er að sprungur glennast úr og það er mikil skjálftavirkni alls staðar. Þetta í rauninni býr til nýtt spennuástand í allri jarðskorpunni. Þannig að niðurdælingin hjá HS Orku, sem hefur haldist óbreytt í áraraðir, hún er núna farin að valda smá skjálftavirkni,“ segir Kristín Jónsdóttir, hópstjóri Náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands.
Kristín segir að þó svo að niðurdælingu yrði hætt þá myndu jarðhræringarnar á Reykjanesi ekki hætta.
„Ef niðurdælingu væri hætt þarna þá myndu grunnir skjálftar í kringum þessa niðurdælingaholu, þeir myndu líklega hætta. Það er þó ekki alveg hægt að segja það,“ segir Kristín.
Þenslan er á mjög stóru svæði
„Það verður mikil aflögun á stóru svæði. Þannig að við megum alveg búast við jarðskjálftavirkni á mjög stóru svæði vegna þessa. Niðurdælingin hins vegar, hún er bara á litlu svæði. Við erum farin að sjá meiri skjálftavirkni þar vegna þessa breytta spennuástands sem kvikuinnskotið skapar,“ segir Kristín.
Frétt RÚV í heild sinni má lesa hér.