Fréttatilkynning:
Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla alfarið fyrirhuguðu frumvarpi dómsmálaráðherra um stafrænar nauðungarsölur. Það á ekki að líðast að hægt verði að svipta fólk heimili sínu einfaldlega með því að senda tölvupóst. Sérstaklega ekki nema tryggt verði að því hafi að minnsta kosti fyrst borist tilkynning um að hætta á slíku sé yfirvofandi svo hægt sé að bregðast við í tæka tíð.
Með drögum að frumvarpi sem dómsmálaráðuneytið hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda er lagt til að stafræn málsmeðferð verði innleidd í fjárnáms- og nauðungarsölumálum. Yfirlýstur tilgangur þess er að auka hagræði og skilvirkni, en við nánari athugun blasir við að það yrði alfarið í þágu kröfuhafa og á kostnað réttaröryggis almennra borgara.
Verði frumvarpið óbreytt að lögum yrði nóg fyrir kröfuhafa að senda tilkynningu í stafrænt pósthólf (island.is) og í kjölfarið tölvupóst til sýslumanns til að fara fram á fjárnám eða nauðungarsölu á fasteign. Eftir það gæti meðferð málsins orðið að öllu leyti stafræn, en þar með yrði jafnframt dregið talsvert úr möguleikum gerðarþola á að verjast því að gengið verði að húsnæði hans.
Afar misjafnt er hversu auðvelt fólk á með að tileinka sé stafræna tækni og ljóst að margir geta það alls ekki, svo sem vegna fötlunar eða annarra erfiðleika við notkun tölvubúnaðar. Með frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir því að á nokkurn hátt sé tryggt að stafræn tilkynning um fyrirhugaða nauðungarsölu berist raunverulega til viðtakanda. Fyrir vikið gæti fólk sem er ekki mjög vel að sér í tæknimálum ekki orðið vart við slíka tilkynningu og vaknað síðar upp við þann vonda draum að húsnæðið hafi verið selt ofan af því án þess að það fengi tækifæri til að bregðast við í tæka tíð.
Ekkert er að finna í frumvarpsdrögunum sem er til þess fallið að upplýsa gerðarþola um réttarstöðu sína eða leiðbeina honum um möguleika á að gæta réttar síns við málsmeðferðina. Ekki er heldur að finna neitt þar sem stuðlar að því að eignir sem gengið er að seljist á eðlilegu verði, svo sem með sölu á almennum markaði. Þannig yrði áfram hætta á að fasteign seljist á uppboði fyrir verð sem er langt undir markaðsvirði hennar og gerðarþoli sitji uppi með tapið af því eins og mörg dæmi eru um.
Með frumvarpinu er vegið gróflega að mikilvægum mannréttindum eins og réttlátri málsmeðferð, eignarrétti og friðhelgi heimilanna. Það á ekki að líðast að fólk verði svipt heimili sínu með rafrænum hætti án þess að tryggt sé að það hafi að minnsta kosti fengið tilkynningu um að slíkar aðgerðir séu yfirvofandi, ásamt leiðbeiningum um réttarstöðu sína og úrræði sem standa til boða. Þar sem ekkert tillit hefur verið tekið til ábendinga um þetta við útfærslu frumvarpsins, mótmæla Hagsmunasamtök heimilanna því alfarið að það nái fram að ganga í óbreyttri mynd.
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna
Sjá til hliðsjónar:
Mál nr. S-69/2023 - Fjárnám og nauðungarsala - stafræn málsmeðferð - áform um lagasetningu
Mál nr. S-69/2023 - Umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna um áformin
Mál nr. S-217/2023 - Breyting á lögum um aðför og lögum um nauðungarsölu (stafræn málsmeðferð)
Mál nr. S-217/2023 - Umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna um frumvarpsdrögin
Heimilin eru ekki fóður fyrir fjármálakerfið!