Argentíska vandamálið

frettinErlent, Geir ÁgústssonLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Um daginn kusu Argentínumenn yfir sig frjálshyggjumann sem forseta. Sá forseti ætlar sér meðal annars að leggja niður seðlabanka ríkisins. Hann ætlar að skera með vélsög niður hinn opinbera geira, fækka ráðuneytum og einkavæða allt sem hann getur.

En mætir væntanlega viðspyrnu báknsins sem er meira umhugað um eigin velferð en annarra.

Ásgeir Ingvarsson, blaðamaður Morgunblaðsins, skrifar alveg frábæra grein um þetta mál hér (á bak við innskráningarvegg, en að öðru leyti gjaldfrjáls lestur). Þar bendir hann á að þótt kjörið sé gott að þá sé hægt að leggja margar gildrur fyrir hinn nýja forseta.

Þetta forsetakjör er nefnilega vandamál fyrir marga. Fjölmiðlar hafa auðvitað skynjað það með því að fjalla mjög varfærið um málið. Margir vona innst inni að valkostur við það sem hefur ekki virkað hingað til - stæk vinstristefna - virki heldur ekki. Þessi forseti þarf að eiga við þing sem er meira og minna á öndverðum meiði og tekst mögulega að moka sandi í vélina svo hún virki ekki. Ef það tekst að láta yfirlýstar umbætur mistakast er hægt að koma í veg fyrir að svipaðar hugmyndir breiðist út, sem er afskaplega mikilvægt fyrir mörg jakkafötin á spena skattgreiðenda.

En aðeins að lærdómnum hérna:

Nýkjörinn forseti Argentínu, Javier Milei, er gallharður frjálshyggjumaður sem las og framkvæmdi uppskrift annars, en látins, gallharðs frjálshyggjumanns, Murray N. Rothbard. Sú uppskrift felur fyrst og fremst í sér að standa á eigin hugsjónum og kalla lélegar hugmyndir lélegar. Og viti menn: Það höfðaði til kjósenda! Þeir sáu þarna mann sem var ekki að lofa öllu fyrir alla heldur að tala fyrir stefnu - hugsjón!

Þetta ætti að vera innblástur fyrir þennan gráa her af litlausu fólki sen einkennir stjórnmálastéttina víðast hvar. Fólk er sífellt að lofa öllu fyrir alla um leið og að vandamálin eigi einhvern veginn að hverfa þótt stefnubreytingin sé engin.

En svo það sé endurtekið: Margir munu leggja sitt af mörkum til að koma í veg fyrir að hinn nýi forseti nái markmiðum sínum, og vona um leið að það takist þar með að skella skuldinni á hann þegar ekkert breytist til batnaðar, vegna fyrirstaðanna.

Spennandi tímar í vændum, vægast sagt, en ég held með forsetanum og vona að hann nái að bjarga þjóð sinni úr örbirgð.

Skildu eftir skilaboð