Orkuskortur

frettinInnlent, Jón Magnússon, OrkumálLeave a Comment

Jón Magnússon skrifar:

Forstöðumaður fiskvinnslu á Austurlandi sagði fyrir nokkru að svo gæti farið, að fyrirtækið þyrfti að keyra díselrafstöðvar til að hafa næga orku til að sinna starfseminni.

Hvernig stendur á því að við stöndum nú frammi fyrir því að hafa ekki ofgnógt grænnar orku og þingflokksformaður Framsóknar kalli eftir heimild til að stækka smávirkjanir einstaklinga, svo mikill er stórhugurinn.

Ástæðan er sú að Vinstri grænir sitja í ríkisstjórn. Þessi „græni flokkur“ hefur verið í andstöðu við allar vatnsaflsvirkjanir sem byggðar hafa verið. Það var ekki svo alvarlegt meðan flokkurinn var í stjórnarandstöðu. Þá fluttu Steingrímur og Katrín ræður sínar út í tómið á Alþingi án þess að það skipti máli. 

Af einhverjum furðulegum ástæðum,fannst formönnum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks eðlilegt, að leiða þennan fámenna vinstri öfgaflokk VG til öndvegis í ríkisstjórn. 

Ráðherrar VG hafa ekki talað út í tómið heldur staðið gegn nauðsynlegum ráðstöfunum til bjargar fyrir fólk og fyrirtæki. Ein afleiðing þess er orkuskortur í landinu, sem mun bitna af gríðarlegum þunga á þjóðinni hiksti virkjunin við Svartsengi. 

Á 7 ára valdatíma VG hefur málum verið komið svo fyrir að engin vistvæn græn vatnsaflsvirkjun hefur verið byggð og ekki ráðgerð. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem halda um þennan málaflokk hafa látið það yfir sig ganga en bera stjórnskipulega ábyrgð. 

Nú verður ekki við þetta unað lengur. Það verður að bregðast við og tryggja  næga orku svo ekki komi til lífskjararýrnunar, atvinnuleysis og margvíslegra erfiðleika. 

Forsenda þess er að VG fari úr ríkisstjórn núna.

Skildu eftir skilaboð