Að snýta út úr sér regluverki

frettinGeir Ágústsson, InnlentLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Þeir taka ekki oft til máls, þessir forstjórar í atvinnulífinu. Kannski vona þeir að allskyns hagsmunasamtök (Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Félag atvinnurekenda og fleiri slík) geti séð um slíkt. Nógu mikið kostar jú að vera meðlimur í slíkum samtökum, og fínt að láta þau sjá um að segja það sem er óvinsælt og þurfa þar með ekki að hætta á einhver neikvæð viðbrögð.

En á þessu finnast undantekningar. Helgi í Góu er auðvitað frægt dæmi, og mér eftirminnilegt þegar hann lét eftirfarandi orð falla við opnun á nýjum kjúklingaveitingastað:

Þetta er nýr tími, hér áður gátu menn opnað og svo var farið yfir þetta en nú má ekk­ert gera fyrr en öll leyfi eru komin.

Síðan hefur ástandið bara versnað, án þess að húsin - og djúpsteikti kjúklingurinn - hafi batnað.

Núna mætir í umræðuna framkvæmdastjóri Jáverks, Gylfi Gíslason:

Við erum með eitt­hvað reglu­verk og erum alltaf að snýta við það. Það þarf kannski að bæta það eitt­hvað, og oft er verið að því, en það end­ar með að við erum kom­in með svo stórt og þungt kerfi að það er bara hætt að þjóna til­gangi sín­um.

Þetta er vel mælt og fær mig til að sjá fyrir mér regluverkið sem hrúgu af snýtipappír á gólfinu, með einhverju kroti í bland við horið, frekar en snyrtilegar möppur í hillu. 

Flókið og allt að því óskiljanlegt regluverk er lifibrauð báknsins. Svoleiðis regluverk heldur mörgum opinberum starfsmönnum í vinnu við að fara yfir, gera athugasemdir, senda á milli opinberra skrifstofa og að lokum samþykkja en þó alltaf með þeim fyrirvara að báknið geti skipt um skoðun, dregið samþykkið til baka og gert fólk heimilislaust

Forstjórar og aðrir áhrifamiklir aðilar í atvinnulífinu þurfa auðvitað að byrja tjá sig meira. Hagsmunasamtökin sem þeir borga fyrir að framleiða skýrslur og yfirlýsingar geta auðvitað haldið áfram að gera sitt, en það er miklu áhrifaríkara að sjá einstaklinga, með peninga að veði og starfsfólk á launaskrá sinni, tjá sig. Helst að rífa kjaft.

Líkurnar á að einhver stjórnmálamaðurinn leggi í báknið eru auðvitað litlar, en þó stærri en núll

Í millitíðinni þarf atvinnulífið að eyða kröftum sínum í að þræða hrúgu af notuðum snýtipappír á gólfinu í leit að þeim reglum sem gilda, undir vökulum augum opinberra starfsmanna sem halla sér aftur á meðan og drekka vont kaffi, tilbúnir að stökkva á fætur og skipta sér af ef einhver ætlar sér að framleiða verðmæti.

Skildu eftir skilaboð