Namibíumálið, byrlunin og Björn

frettinInnlent, Páll Vilhjálmsson, PistlarLeave a Comment

Í nóvember 2019 hófst Namibíumálið með Kveiks-þætti á RÚV. Aðalfréttamaðurinn var Helgi Seljan sem jafnframt var miðlægur í seðlabankamálinu. Í báðum tilvikum var Samherji skotskífan. Í seðlabankamálinu átti norðlenska útgerðin að hafa brotið gjaldeyrislög. Í Namibíumálinu var ásökunin mútur til namibískra embættis- og stjórnmálamanna.

Seðlabankamálið reyndist eineltisblaðamennska. Helgi böggaði mann og annan en fór með fleipur og fölsuð gögn. Namibíumálið er til úrlausnar fyrir dómstólum í Afríkuríkinu. Enginn Samherjamaður er ákærður en tíu heimamenn fyrir skatt- og umboðssvik.

Ásamt Helga Seljan og RÚV stóðu blaðamenn á Stundinni og Kjarnanum að Namibíumálinu, þ.e. RSK-miðlar. Einn blaðamannanna er Ingi Freyr Vilhjálmsson. Hann bjó Namibíumálið í hendur bróður sínum, Finni Þór Vilhjálmssyni, saksóknara hjá embætti héraðssaksóknara, sem hóf rannsókn í kjölfar Kveiks-þáttarins.

Finnur Þór viðurkenndi óbeint, með bréfi til Namibíu í október 2022, að ekkert hefði fundist á Íslandi er benti til lögbrota Samherja. Í bréfinu er óskað eftir upplýsingum er gætu rennt stoðum undir áfengar ásakanir Jóhannesar Stefánssonar uppljóstrara, sem er eina heimildin fyrir Namibíumálinu. Ekkert saknæmt fannst í Namibíu. Ári eftir bréf Finns Þórs er yfirmaður hans, Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari, kallaður til á RÚV að vitna um að Namibíumenn hafa svarað Finni Þór. En það er ekkert að frétta. Upplýsingarnar frá Namibíu eru ekki nógu merkilegar til að verða að gögnum málsins.

Af Finni Þór saksóknara er það að frétta að hann er orðinn dómari við héraðsdóm Reykjavíkur. Aðeins er eftir að tilkynna útfarardag Namibíumálsins á Íslandi. Af greiðasemi við RSK-miðla er tilkynningunni frestað.

Byrlunar- og símastuldsmálið er framhald seðlabanka- og Namibíumálanna. Það hófst 3. maí 2021 með byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans. Miðstöð glæpsins var í höfuðstöðvum RÚV á Efstaleiti. RÚV birti enga frétt, það gerðu Stundin og Kjarninn með samræmdum hætti 21. maí 2021. Um síðustu áramót sameinuðust Stundin og Kjarninn undir merkjum Heimildarinnar.

Lögreglurannsókn hófst á byrlunar- og símastuldsmálinu eftir kæru Páls skipstjóra 14. maí 2021. Fimm blaðamenn RSK-miðla eru sakborningar: Arnar Þór Ingólfsson, Þórður Snær Júlíusson, Aðalsteinn Kjartansson, Ingi Freyr Vilhjálmsson og Þóra Arnórsdóttir. Ekki er vitað til þess að Helgi Seljan sé sakborningur. Það gæti breyst.

Um síðustu áramót var rannsóknin langt komin og búist var við ákæru í byrjun árs. Ný gögn komu þá fram í málinu. Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks reyndist hafa keypt Samsung síma í apríl til að afrita síma Páls skipstjóra - en Páli var byrlað í maí. Í framhaldi óskaði lögreglan eftir upplýsingum frá Google og Facebook um samskipti byrlara, þáverandi eiginkonu skipstjórans er glímir við andleg veikindi, og blaðamanna. Marga mánuði tekur að fá upplýsingarnar enda stíf formskilyrði sem þarf að uppfylla.

Lögreglan var með upplýsingar um símhringingar á milli blaðamanna og byrlara sem og sms-skeyti: ,,You got mail". Tilgátan er að tölvupóstar og/eða spjall á Facebook veiti upplýsingar um hvað fór á milli blaðamanna og byrlara áður en ráðist var til atlögu.

Síminn sem Þóra keypti fyrir RÚV í apríl 2021 og samskipti blaðamanna við byrlara í aðdraganda atlögunnar að Páli skipstjóra 3. maí 2021 leiða að líkindum í ljós að um skipulegt samsæri var að ræða. Björn Bjarnason fyrrv. ráðherra fjallar um málið og segir:

Sú opinbera stofnun sem býr við mestan álitshnekki vegna alls þessa er sjálft ríkisútvarpið. Ástæðan er sú afstaða stjórnenda þess að horfast ekki í augu við afleiðingar óvandaðra vinnubragða með því að gera hreint fyrir sínum dyrum. Þeir hafa eitthvað að fela.

Björn var á sínum tíma menntamálaráðherra og yfirmaður RÚV. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri horfist ,,ekki í augu við afleiðingarnar," líkt og Björn segir. Útvarpsstjóri losaði sig við Helga Seljan áramótin 2021/2022 og Þóru Arnórsdóttur rúmu ári síðar. Strax haustið 2021 varð Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri að taka pokann sinn. Engar skýringar, aðeins uppsagnir lykilmanna. Ætlar Stefán að segja, þegar ákært verður, að enginn ákærðra sé lengur í starfi? Verður það vörnin?

RÚV er miðstöðin í seðlabankamálinu, Namibíumálinu og byrlunar- og símastuldsmálinu. RÚV svarar ekki fyrir háttsemi sem er margfalt lögbrot, faglega óverjandi og siðleysið uppmálað. Ríkisfjölmiðillinn veldur ómældum skaða saklausra einstaklinga og brýtur skipulega á lögaðilum með hreinan skjöld. Stofnunin sjálf er ófær um að taka til í eigin ranni. Nei, Stefáni verður ekki kápan úr klæðinu því að segja ákærða ekki lengur á launaskrá. RÚV-ómenningin dafnar sem aldrei fyrr þótt brotafólk hrökkvi af skaftinu.

Skildu eftir skilaboð