Ingibjörg Gísladóttir skrifar:
Hinn 14 október 2022 var skrifað undir samkomulag Moderaterna, Kristdemokraterna og Liberalene um stjórn landsins með stuðningi Sverigedemokraterna. Fréttin birti yfirlit um Tidösamkomulagið sem er skipt upp í sex kafla: Heilbrigðismál, loftslags-og orkumál, afbrotamál, innflutning fólks og aðlögun, skólamál og efnahagsmál, en hvernig hefur tekist til eftir fyrsta heila árið undir stjórn Ulf Kristersons?
Á undraskömmum tíma fór flokkur Sverigedemokraterne (undir stjórn Jimmie Åkesson) frá því að vera stimplaður sem úrhrak sem enginn gæti verið þekktur fyrir að vinna með yfir í að vera leiðarljós nýrrar ríkisstjórnar. Helst hefur verið bent á ábyrgð Socialdemokratera (Sossanna) á óábyrgri og skaðlegri innflytjendastefnu en í greininni „Sveriges eks-statsminister skyder med skarpt i giftig svensk udlændingedebat" er birtist í danska Politiken hinn 1/1 2024, ber Ingvar Carlsson, sem varð forsætisráðherra er Palme var myrtur af sér sakir - hann hafi hafnað velferðarflóttamennsku 1989 með Luciaákvörðuninni. Ekki verður þó séð að þeir sem komu á eftir honum sem leiðtogar Sossanna (eða hann sjálfur síðar) hafi gert neitt til að spyrna við fótum.
Gengjavandamálið
Það eru innflytjendagengin með ofbeldi sínu og svindli sem eru stærsta vandamálið. Göteborgs-Posten er með gott yfirlit yfir hverjir voru skotnir til bana í Svíþjóð 2022 og hvar. Þeir voru 53 (færri en árið áður) en þeim hefur fjölgað sem drepnir voru í misgripum eða vegna tengsla við gengjameðlimi (voru 12). Í Dagens Nyheter má sjá að 28 almennir borgarar hafi særst eða fallið vegna gengjastríðanna á árinu, sem er tvöföldun frá árinu á undan. Sprengjuárásum fer enn fjölgandi og í september lést 25 ára kona, granni þess er árásin beindist að, í úthverfi Uppsala. Einnig segir að árásarmenn og fórnarlömb verði stöðugt yngri og að á tímabili hafi 100 „börn" setið í varðhaldi vegna gengjaglæpa.
Þrýstingur frá Svíþjóðardemókrötum
Samkvæmt Expressen voru Sverigedemokraterna farnir að ókyrrast er liðið var ár og lítið virtist vera að gerast og hermt er að krísufundur hafi verið haldinn hinn 22. nóvember síðastliðinn þar sem þeir mættu
Ulf Kristersson, Jimmie Åkesson ásamt ýmsum þungaviktarmönnum stjórnsýslunnar og mun Åkesson hafa komið því til skila að stuðningur flokks síns við ríkisstjórnina sé háður því að hún standi við Tidösamkomulagið.
Er Svíþjóðardemókratinn Kent Ekeroth gerir upp árið, er hann þó þokkalega ánægður: Skattar á bensín og díselolíu hafi verið lækkaðir og betur líti út með orkuöflun með kjarnorku. Hætt verði að styrkja félög sem byggi á að félagarnir hafi annan húðlit en Svíar. Í haust hafi stjórnin tilkynnt um aðgerðir til að takmarka sameiningu ættingja hælisleitenda auk möguleika á að fá hæli sakir mannúðarsjónarmiða. Til að draga úr aðdráttarafli sænska velferðarkerfisins vilja stjórnvöld að menn megi ekki strax komast á bætur. Stjórnin vilji einnig koma upp móttökustöð utan ESB fyrir þá ólöglegu farendur sem ekki er hægt að skila til síns heima. Átta ára búseta í landinu skal vera forsenda þess að menn fái ríkisborgarrétt, hægt skuli vera að afturkalla dvalarleyfi og skerpa skuli á kröfum til þeirra er koma til landsins í atvinnutilgangi, auk annars.
Skattayfirvöldum hefur verið falið að gæta þess að glæpamenn geti ekki skráð sig til heimilis hjá ótengdu fólki (sem svo kannski verður svo fyrir árásum), taka skal manntal í landinu (því sumir gætu verið skráðir undir fleiri en einu nafni) og koma skal í veg fyrir að gengjameðlimir geti svikið út námslán eða styrki til þykjustunáms erlendis. Ekeroth segir að í janúar taki lög um tvöföldun refsingar fyrir vopnalagabrot gildi, í febrúar komi inn bann við dvöl afbrotamanna á tilgreindum stöðum, í mars komi reglur um eftirlitssvæði lögreglu og seinna á árinu verði auðveldara fyrir lögregluna að gera þau verðmæti er gengjameðlimir hafi náð undir sig með ólögmætum hætti upptæk.
En þótt ýmislegt sé að gerast í stríðinu gegn gengjunum þá stendur efnahagur Svíþjóðar ekki of vel. Á market.se má lesa að gjaldþrotum fyrirtækja hafi fjölgað um 29 prósent milli áranna 2022 og 2023 og samkvæmt sænsku hagstofunni (SCB) hefur verg landsframleiðsla lækkað tvo ársfjórðunga í röð og atvinnuleysi er mikið, einkum á meðal innflytjenda. Á ekonomifakta.se má lesa á árinu 2022 hafi atvinnuleysi meðal innfæddra verið 4,7% en 16,1% meðal innfluttra, langmest meðal þeirra er komið hafa frá Afríku, Asíu og öðrum löndum er ekki flokkast sem vestræn. Með kólnandi hagkerfi er ekki líklegt að þau vandamál er fylgja atvinnuleysi minnki.