Yfirlit um Tidösamkomulagið sænska

frettinErlent, Ingibjörg Gísladóttir, StjórnmálLeave a Comment

Hinn 14 október var skrifað undir 62 blaðsíðna sáttmála, Tidösamkomulagið, í gamalli höll í Svíþjóð. Það er samningur Moderaterna með Ulf Kristerson sem forsætisráðherra, Kristdemokraterna, Liberalene, og fá þeir flokkar öll ráðherraembættin, en Sverigedemokraterna styðja við stjórnina sem menn segja að fylgi hugmyndafræði þeirra. Áhrif Dana eru einnig auðsé. Það er vel þess virði að skoða þetta samkomulag nánar því það er líklegt að það hafi áhrif á hinum Norðurlöndunum og þá einnig hér. Samkomulaginu er skipt upp í sex kafla: Heilbrigðismál, loftslags-og orkumál, afbrotamál, innflutning fólks og aðlögun, skólamál og efnahagsmál.

Heilbrigðismál

Í heilbrigðismálum er lagt til að fækka í stjórnunarstöðum og minnka skriffinnsku, bæta skal andlega heilbrigði þjóðarinnar og setja varnir gegn sjálfsvígum í forgang, ekki síst fyrir ungu kynslóðina. Samræma skal reglur um tannlækningar annarri heilbrigðisþjónustu og veita öldruðum með verstu tannheilsuna forgang.

-  Þessar hugmyndir Svía gætu vel nýst okkur.

Loftslags-og orkumál

Tillögur um loftslags- og orkumál ganga út á að fá raforkukerfi sem virkar, fólk og fyrirtæki eigi að fá rafmagn á stöðugu og lágu verði og stefnt að því að kjarnorka fái stærri sess með því að fjárfesta í nýjum verum og athuga hvort hægt sé að koma Ringhalsverunum 1 og 2 aftur í gang. Setja skal reglur sem koma í veg fyrir að stjórnmálamenn loki kjarnorkuverum sem eru örugg og í góðu standi. Markmiðið skal ekki lengur vera 100% „endurnýjanleg" orka, heldur 100% „jarðefnaeldsneytisfrí". Vindorka sé mikilvæg en eigi ekki að njóta sérkjara og taka skuli tillit til umhverfismála og íbúa nærsvæðis. Tækni er varðar sólarsellur sé í hraðri framþróun. Setja skuli greiðsluþak á rafmagnsreikninga - með afturvirkum greiðslum. Svíþjóð skuli fylgja metnaðarfullri loftslags- og umhverfisstefnu en mikilvægt sé að horfa á ástand þeirra mála í heiminum sem heild og þróa alþjóðlegar fjárfestingar samkvæmt sjöttu grein Parísarsamkomulagsins. Einfalda skal regluverk í umhverfismálum til að styrkja samkeppnishæfi matvælaiðnaðar og iðnaðarframleiðslu Svía og flytja út loftslagsvænar vörur og tækni.

-  Svíarnir virðast meina að vindorkan sé ekki sérlega hagkvæm. Ef til vill ættum við að spá í kjarnorkuver, rétt eins og þeir. Einhverjir spekingar hafa hvort eð er skráð að við framleiðum töluverðan hluta raforku okkar þannig.

Afbrotamál

Hvað afbrotamálin varðar þá eru gengin númer eitt tvö og þrjú. Reyna skal að fyrirbyggja að ungmenni leiðist út í glæpi. Tvöfalda skal refsingu fyrir meðlimi gengja og vísa fleiri gengjameðlimum úr landi, leyfa forvirkar rannsóknaaðferðir, vopnaleit á ákveðnum svæðum og taka upp möguleikann á  að takmarka búsetusvæði í allt að tíu ár eftir að menn koma úr fangelsi. Slíkt á einnig að gilda fyrir heiðurstengd brot, brot öfgamanna og ofbeldi innan fjölskyldu. Koma skal á nafnleysi vitna. Taka skal harðar á heiðurstengdum brotum, s.s. yfirgengilegri stjórnsemi, meydómsathugunum- og tilraunum til að blekkja stúlkur í nauðungarhjónabandsferðir úr landi. Ekki skal vera leyft að reyna að fá fram breytingar á kynhneigð með hótunum og þvingunum. Lögreglan á að fá aukna vernd, og þeir sem ráðast á hana að fá þyngri refsingar, magnafsláttur vegna  brota skal felldur niður séu menn orðnir 18, refsingar þyngdar fyrir endurtekin brot og einnig fyrir ofbeldisbrot og kynferðisbrot. Skoða skal möguleikann á að leigja fangelsispláss erlendis sakir fyrirsjáanlegs plássleysis. Neyðarréttur þeirra er ráðist er á á heimili eða nálægt fjölskyldu skal aukinn. Banna skal betl í landinu og ekki leyfa hjónabönd systkinabarna.

Innflytjendur

Hvað innflutning fólks og aðlögun varðar þá vilja menn láta fara fram manntal svo það sé á hreinu hverjir búi á landinu en séu ekki tví-, eða margskráðir og gera sveitastjórnir ábyrgar fyrir að tilkynna um ólöglega innflytjendur. Bæta skal landamæraeftirlit og jafnvel taka upp sænska landamæragæslu á flugstöðvum á ESB svæðinu. Skoða skal möguleikann á því að nota DNA próf við útlendingaeftirlit innanlands. Skoða skal að vísa útlendingum úr landi séu þeir í gengjum, í vændi, öfgasamtökum eða teljist á annan hátt óæskilegir í landinu.Taka skal við 900 kvótaflóttamönnum á ári á samningstímanum (mikil fækkun) og gera þær kröfur til Flóttamannastofnunar SÞ að hún bendi einungis á fólk sem sé líklegt til að aðlagast lífinu í Svíþjóð. Konur, stúlkur og LBGTQ fólk eigi að hafa forgang. Þeir sem sækja um hæli eiga að búa á sérstökum móttökustöðvum á meðan mál þeirra eru í meðferð.

-  Þessi hugmynd um að taka aðeins við fólki sem líklegt sé til að aðlagast er skynsamleg og hana ættum við að taka upp. Bæta mætti kristnum við forgangshópinn, þeir eru ofsóttir víða um heim.

Fólk sem er nýkomið til landsins á ekki að geta farið beint á bætur, réttur til slíks á að koma smám saman. Bjóða skal upp á sænskunám  samhliða verknámi fyrir nýkomna í öllum kommúnum (SFI kombo) og mögulega sænsku-forskóla fyrir börnin. Skerpa skal á reglum um ríkisborgararétt, hafa biðtímann 8 ár og gera meiri kröfur til þekkingar á sænsku samfélagi og til eigin framfærslu. Lagt skal til að hægt sé að afturkalla ríkisborgarrétt hjá þeim sem hafa tvo hafi þeir framið brot er ógna samfélaginu eða fengið hann á grundvelli falskra upplýsinga. Þrengja skal reglur um fjölskyldusameiningar, aðeins maki og börn yngri en 18 ára koma þar til greina. Skoða skal hvernig sé best að fá þá sem ekki hafa aðlagast sænsku samfélagi til að snúa heim. Séu útlendingar dæmdir fyrir alvarleg brot þá beri alltaf að skoða hvort sé hægt að senda þá úr landi og þá skal ekki tekið tillit til meintra tengsla við Svíþjóð. Taka skal harðar á nauðungar- og barnahjónaböndum og skoða hvort hægt sé að ógilda fjölkvænishjónabönd. Skoða skal hvort hætta skuli fjárstuðningi við þau lönd sem neita að taka við eigin þegnum. -  Hér eru ýmsir punktar til íhugunar.

Skólamál
Hvað skólamálin varðar er markmiðið að bæta skólana og auka þar öryggi og vinnufrið, sem skal áréttað að sé á ábyrgð skólastjóra.  Hann skal vera skyldugur til að flytja nemendur sé það nauðsynlegt, t.d. vegna eineltis. Auka skal við kennslu í sænsku og stærðfræði en létta í staðinn stjórnunarbyrði og óþarfa skriffinnsku af kennurum. Allir skulu lesa sænskar bækur auk fagurbókmennta. Öfgahyggja og íslamismi er stórt vandamál í skólum múslima og skal hafa með þeim eftirlit með fyrirvaralausum heimsóknum. Loka skal skólum sem ekki virða þær reglur er gilda um sænska skóla.
Efnahagsmál
Varðandi efnahagsmálin þá skal aðaláherslan vera á að vinna gegn atvinnuleysi og bæta framleiðni. Slíkt er nauðsynlegt til að Svíþjóð geti áfram verið það ríka velferðarríki sem það telur sig vera, í samkomulaginu er þó gert ráð fyrir að draga eilítið úr framlögum til þróunarmála erlendis. Grunnhugmyndin er að allir sem það geti reyni að finna sér vinnu og framfleyti sér með henni. Til að hvetja til þess á að lækka skatta á lág- og millitekjufólk á samningstímanum. Stefnt skuli að því að laga það skrýtna vandamál að jafnframt því að það vanti fólk í vinnu þá sé mikið um atvinnuleysi meðal innflytjenda. Skera skal bótakerfið niður svo það borgi sig að vinna. Atvinnuleysisbætur breytast þó ekki. Atvinnurekendum sem ráði langtímaatvinnulausa sé mætt með lægri kostnaði vegna ráðninganna. Koma skal á móti auknum kostnaði heimilanna og lækka stjórnunarkostnað fyrirtækja. Skattar á fyrirtæki eiga að vera hóflegir svo þeim fjölgi. Leggja skal áherslu á endurhæfingu fólks sem hefur veikst svo öryrkjum fjölgi ekki um of. Hvetja skal eldra fólk til að halda áfram að vinna. Lækka skal skatta á fjárfestingasparnað, með 300.000 SKR skattleysismörkum. -  Eitthvað hérna?
Svo er bara að sjá hvernig gengur. Vænta má alls kyns gagnrýni. Náungi einn hélt því fram að þetta samkomulag boðaði endalok lýðræðis í Svíþjóð, en var ekki fjölmenningarstefnunni komið á án þátttöku almennings? Fyrirsjáanlegt er að pólitísku aktívistarnir hjá Mannréttindadómstól Evrópu gætu viljað þvælast fyrir en ef til vill má segja sig frá honum.

Skildu eftir skilaboð