Hamingja, loftslag og hindurvitni

frettinPáll Vilhjálmsson, PistlarLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Dytti einhverjum í hug að gera alþjóðlegt samkomulag um hamingju? Til dæmis að allir jarðarbúar verði hamingjusamari árið 2035 en þeir eru í ár?

Nei, engum heilvita kæmi til hugar alþjóðlegt samkomulag um hamingjustig íbúa jarðarinnar eftir tíu, tuttugu eða fimmtíu ár. Enginn kann, svo vitað sé, að skilgreina hamingju svo öllum líki.

Sama gildir um loftslag.

Kjörhitastig jarðarinnar er óþekkt. Enginn veitt hver meðalhiti jarðarinnar ætti að vera, svo að öllum líki. Ástralir vildu kannski eilítið svalara loftslag á meðan þorri Íslendinga kysi meiri hlýindi. Enn síður að náttúran, sem öllu ræður, gefi upp kjörhita plánetunnar.

Hvers vegna er þá í gildi samkomulag, kennt við höfuðborg Frakklands, um að meðalhitastig jarðar skuli ekki hækka meira en um 1,5 stig. Jú, sökum þess að búið er að telja almenningi trú um að loftslag sé manngert. Við eigum að trúa maðurinn geti hækkað eða lækkað hitastig jarðar með starfsemi sinni. En það er ekki möguleiki, náttúran stjórnar veðrum og vindum, skýjahulu og sólarvirkni, ekki maðurinn.

Í viðtengdri frétt er mikið gert úr hitametum. Tilfallandi ræddi hita- og kuldamet nýlega. Slík met eru marklaus.

Í skjóli hindurvitna þrífast tröllasögur um áhrif loftslagsbreytinga. Í viðtengdri frétt er hlekkur á loftslagsráð sem er spunafabrikka loftslagskirkjunnar. Þar segir m.a.

Lofthitinn einn og sér hefur margskonar áhrif á starfsemi mannslíkamans. Eftir því sem hann er hærri verður erfiðara fyrir líkamann að halda líkamshita í 37 gráðum. Það leiðir til þess að líkamshitinn getur hækkað til muna með alvarlegum og bráðum áhrifum á heilsu.

Íslendingar fara margir til heitari landa yfir köldustu vetrarmánuðina. Þeir gætu farið t.d. úr mínus fimm gráðum á Fróni í 25 gráður á Tenerife. Það er hitasveifla upp á 30 gráður. Og viti menn Íslendingarnir koma heim fjallhressir eftir sól og sumaryl. En loftslagskirkjan segir að þeir hafi orðið fyrir óbætanlegu heilsutjóni, ,,alvarlegum og bráðum áhrifum á heilsu."

Hvort ætla menn að trúa loftslagskirkjunni eða það sem þeir reyna á eigin skinni?

Algilda uppskrift að hamingjunni kann enginn. En vanþekking og hindurvitni leiða menn á braut óhamingjunnar. Gildir bæði um einkalífið og mannlífið almennt.

Skildu eftir skilaboð