Björn Bjarnason skrifar:
Viðtal í ViðskiptaMogganum í gær (17. janúar) við He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi, um mikil tækifæri og leiðir til að auka viðskipti Íslendinga og Kínverja enn frekar vekur minningar um sambærileg viðtöl við sovéska sendiherrann í kalda stríðinu.
Morgunblaðið vakti oft máls á því á þeim tíma að sovéska stjórnin notaði viðskiptasamband ríkjanna til að koma ár sinni fyrir borð í íslensku samfélagi. Í skjóli viðskiptanna væri fjöldi sovéskra sendiráðsmanna miklu meiri en eðlilegt væri. Sovésk stjórnvöld notuðu viðskiptin í pólitískum tilgangi og til að beina opinberum umræðum inn á ákveðnar brautir sér í hag.
Ritstjórn Morgunblaðsins kynntist því einnig á þessum árum að meðal Íslendinga áttu Sovétmenn talsmenn. Þeir voru ekki aðeins í hópi þeirra sem aðhylltust sovéska stjórnarstefnu og voru andvígir aðild Íslands að NATO og varnarsamstarfinu við Bandaríkin heldur einnig meðal áhrifamanna í viðskiptalífinu sem höfðu beinan hag af sovétviðskiptunum. Það voru þessir áhrifamenn sem fundu hvað mest að því við ritstjórnina að hún varaði við því að sovésk stjórnvöld misnotuðu viðskiptin í pólitískum tilgangi – með aðfinnslum sínum sönnuðu þeir réttmæti skoðana blaðsins.
Sovéska ríkisstjórnin gekk aldrei eins langt og sú kínverska nú á tímum í tilraun sinni til að þagga niður í gagnrýnendum hér á landi. Það var aldrei neinn Íslendingur settur opinberlega á svartan lista í Sovétríkjunum. Þetta hafa kínversk stjórnvöld hins vegar gert núna. Þau settu Jónas Haraldsson lögmann og ellilífeyrisþega á svartan lista í apríl 2021 fyrir það eitt að skrifa í Morgunblaðið og önnur blöð um málefni sem varða Kína.
Var talið að Jónas kynni að verða fyrir þessari þvingun vegna „tilvonandi þátttöku Íslands í þvingunaraðgerðum gagnvart kínverskum lögaðilum og einstaklingum sem tengjast mannréttindabrotum í Xinjiang-héraði á úígúra-múslimum,“ sagði í frétt Morgunblaðsins 16. apríl 2021.
Í dag segir kínverski sendiherrann í viðtali sem sagt er snúast um viðskipti:
„Bandaríkin hafa einnig sakað Kína um að nota fólk frá Xinjiang í nauðungarvinnu við framleiðslu á kínverskum vörum. Þetta er í raun tilhæfulaust. Við höfum ekki fólk í nauðungarvinnu og í Xinjiang fer allt fram lögum samkvæmt.“
Í viðtalinu núna er sendiherranum gefið færi á að agnúast út í Mike Pence, þáv. varaforseta Bandaríkjanna, sem heimsótti Ísland í september 2019 og varaði réttilega við notkun á fjarskipta- og símabúnaði frá kínverska fyrirtækinu Huawei sem hefur verið úthýst í öllum nágrannalöndum okkar og við þátttöku Íslands í kínversku fjárfestinga- og áróðursáætluninni sem kennd er við belti og braut.
Kínverska stjórnin á í mesta basli með belti og braut og er til dæmis hætt við pól-silkileiðina um Norður-Íshaf en Ísland tengdist henni.
Sama dag og viðtalið birtist snýst leiðari Morgunblaðsins um nauðsyn þess að Vesturlönd standi með Tævönum gegn yfirgangi kommúnistastjórnarinnar í Kína. Skyldi kínverski sendiherrann senda ritstjórninni mótmæli? Lítum okkur nær þegar kínversk stjórnvöld seilast til áhrifa.