Páll Vilhjálmsson skrifar:
„Eðlilega er landbúnaður hagkvæmastur þegar tekst að stunda hann í löndum annarra en þeirra sem hafa af honum tekjur. Freistnivandi þeirrar hagkvæmni er gamall og vel þekktur.“
Ofanritað er fyrsta málsgrein í snarpri ádeilu í Bændablaðinu eftir Kristínu Magnúsdóttur. Fyrirsögnin er Blekkingin um ,,lausagöngu".
Lausaganga búfjár er álitamál í dreifðum byggðum. Á landinu öllu er aftur lausaganga blaðamanna orðin að samfélagsmeini. Blaðamenn telja sig hafa rétt að ráðast á einkalíf manna í nafni almannahagsmuna. Kristín bendir á að lausaganga sé nýtt lögfræðihugtak og siðferðið að baki í hæsta máta vafasamt. Gildir bæði um búfé og blaðamenn. Kristín einskorðar sig við málleysingja. Tilfallandi tekur til meðferðar lausung og lögleysu kjaftastéttarinnar.
Fréttastofa RÚV grefur undan siðum og lögum samfélagsins. Ljósmyndari RÚV var gripinn glóðvolgur í tilraun til húsbrots í Grindavík. Engin urðu eftirmálin. Af öðru tilefni lét varaformaður stjórnar RÚV bóka í fundargerð eftirfarandi í haust:
ISB [Ingvar Smári Birgisson] árétti mikilvægi þess að fréttastofa starfi í samræmi við lög og virði friðhelgi borgaranna í hvívetna.
Þegar RÚV leyfir, og jafnvel hvetur til, lausagöngu um einkalíf og persónulegar eigur einstaklinga eru send þau skilaboð engu þurfi blaðamenn að eira. ,,Ég á þetta, ég má þetta," er viðhorfið.
Fáum lögin á hreint og könnum hvort þau leyfi lausagöngu blaðamanna um friðlendur einkalífs landsmanna. Lögin eru nr. 8 frá febrúar 2021 og hljóma svona
-
- gr.
Hver sem brýtur gegn friðhelgi einkalífs annars með því að hnýsast í, útbúa, afla, afrita, sýna, skýra frá, birta eða dreifa í heimildarleysi skjölum, gögnum, myndefni, upplýsingum eða sambærilegu efni um einkamálefni viðkomandi, hvort heldur sem er á stafrænu eða hliðrænu formi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári, enda sé háttsemin til þess fallin að valda brotaþola tjóni.
Ákvæði 1.–3. mgr. eiga ekki við þegar háttsemin er réttlætanleg með vísan til almanna- eða einkahagsmuna.
-
- gr.
Hver sem í heimildarleysi verður sér úti um aðgang að gögnum eða forritum annarra sem geymd eru á tölvutæku formi skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.
Ákvæði 1. mgr. á ekki við þegar háttsemin er réttlætanleg með vísan til almanna- eða einkahagsmuna.
Lögin eru skýr. Það má ekki hnýsast í einkalíf fólks. En blaðamenn undirgangast ekki lögin, segjast standa ofar þeim. Þeir leggja að jöfnu blaðamennsku og almannahagsmuni og telja sig hafa varanlega undanþágu frá landslögum. Furðuhugmyndin, að blaðamennska jafngildi almannahag, er inngróin í helstu verðlaunablaðamenn landsins. Afleiðingin er ofbeldi og mannréttindabrot.
Þórður Snær Júlíusson er ritstjóri Heimildarinnar. Hann er einn af fimm sakborningum í byrlunar- og símastuldsmálinu. Allir fimm eru blaðamenn, ýmist á Heimildinni eða RÚV. Í skýrslutöku hjá lögreglu 11. ágúst 2022 er eftirfarandi haft eftir Þórði Snæ:
Aðspurður sagðist Þórður ekki telja sig hafa brotið gegn friðhelgi einkalífs þeirra aðila sem voru til umfjöllunar í umræddum greinum. Aðspurður sagði Þórður það fjarri lagi að hann hefði gerst brotlegur við lög með skrifunum. Þórður sagðist hafna því algjörlega. Þórður sagðist einni vilja benda á að þegar þessu ákvæði var bætt í lögin á sínum tíma hafi sérstaklega verið tekið fram að þetta ákvæði mætti ekki nota gegn blaðamönnum til þess að hindra þá í þeirra störfum. Þórður sagði það sína upplifum að það sem væri í gangi núna væri gegn þessu refsileysisákvæði. (feitletrun pv)
Ritstjórinn talar um að ekki megi hindra blaðamenn að störfum. Er hluti af starfslýsingu blaðamanna að leggja á ráðin um byrlun, síðan stela og þar á eftir ljúga og blekkja? Hafa blaðamenn heimild til að brjóta lög refsilaust? Síðan hvenær?
Þórður Snær er ekki einsdæmi. Meðsakborningar hans í byrlunar- og símastuldsmálinu, Arnar Þór Ingólfsson og Aðalsteinn Kjartansson, fara með sömu rulluna í yfirheyrslu hjá lögreglu. Landslög eiga ekki við okkur, við erum blaðamenn með undanþágu frá siðum, reglum og lögum samfélagsins. Enda erum við allir verðlaunablaðamenn.
Þeir sem kunna að lesa sjá að í lögunum stendur ekkert um refsileysi blaðamanna sem staðnir eru að lausagöngu um einkalíf borgaranna. Blaðamenn eru ekki með undanþágu frá landslögum, nema í undarlegum hugmyndaheimi ritstjóra Heimildarinnar. Í lögunum segir aftur að séu almannahagsmunir í húfi megi réttlæta brot á einkalífi. Þessi undanþága er ný í lögunum, frá 2021. Tilgangur löggjafans var augljóslega ekki að gera skotmörk blaðamanna réttlaus. Til að réttlæta brot á friðhelgi einkalífs þurfa verulegir hagsmunir að vera í húfi. Ekki að blaðamann vanti efni í frétt til að knésetja Pétur eða Pál.
Þórður Snær staðhæfir að blaðamenn séu almannahagsmunir holdi klæddir. Blaðamenn hafi leyfi til lausagöngu inn í einkalíf einstaklinga, hirða gögn, skjöl, myndefni og upplýsingar sem þeir telja sig geta notað gegn fólki. Allt í nafni almannahagsmuna. Málatilbúnaður ritstjórans hrynur þegar þess er gætt að blaðamennska og almannahagur eru gjörólíkir hlutir. Blaðamennska er eins og hver önnur starfsgrein. Engum dytti í hug að segja trésmíðar varða almannahag umfram aðrar starfsgreinar.
Belgingur blaðamanna um eigið ágæti og sérstöðu er kostulegur í ljósi þess að fæstir blaðamenn búa að fagmenntun í greininni. Blaðamennska er ekki lögvernduð starfsgrein, hver sem er getur kallað sig blaðamann. Sumir eru með pungapróf í einhverri háskólagrein en aðrir luku ekki framhaldsskóla. Fátækleg menntun er bætt upp með ósvífni, að ekki sé sagt mannfjandsamlegu viðhorfi.
Undanfari þjófnaðar á síma Páls skipstjóra Steingrímssonar var byrlun. Samkvæmt lögum er byrlun annað tveggja líkamsárás eða morðtilraun. Áttar fólk sig á hvert stefnir með lausagöngu blaðamanna á þeim almenningi er kallast landslög?