Hvað kemur okkur við?

frettinErlent, Innlent, Jón MagnússonLeave a Comment

Jón Magnússon skrifar:

Áratugum saman hefur þursaveldið Íran, ástundað þjóðarmorð á minnihlutahópum í landinu m.a. trúarbragðahópa, þar sem Bahaiar hafa heldur betur fengið fyrir ferðina, en Gyðingar og kristnir eru flúnir eftir ítrekaðar ofsóknir. 

Klerkastjórn þursaveldisins lætur sér ekki nægja að myrða fólk vegna þess að það hefur aðrar trúarskoðanir en Múhammeðstrú, baráttan gegn mannréttindum snýr líka að eigin borgurum. 

Fyrir rúmu ári var kona um tvítugt handtekin og misþyrmt svo hroðalega, að hún dó. Sök hennar var að hylja ekki hár sitt á almannafæri. Í kjölfar þess brutust út víðtæk mótmæli gegn þursunum sem stjóra Íran, en Siðgæðislögreglan og herinn brugðust við af hörku og hundeltu og drápu unga fólkið sem stóð fyrir mótmælunum. 

Þúsundir á þúsundir ungs fólks var drepið fyrir það eitt að velja frelsið en hafna helsinu. Þessi mótmæli stóðu mánuðum saman fyrir tæpum tveim árum síðan. Af tilviljun var ég staddur í London þegar landflótta Íranir stóðu fyrir mótmælagöngu og sá þá betur þann hrylling sem um er að ræða. Klerkastjórnin hikar ekki við að drepa börn allt niður í 12 ára fyrir það eitt að samsama sig ekki að öllu leyti með því sem þeim er skipað af siðgæðislögreglunni. 

Ég hef oft velt því fyrir mér af hverju RÚV sá ekki ástæðu til að vekja sérstaklega athygli á aðferðum þessa villimannaríkis, sem voru í stríði við eigin borgara og engin ekki einu sinni svonefnd kvennréttindafélög sáu ástæðu til að mótmæla eða aðrir sem að venju lýsa skoðun sinni með þeim hætti. 

Það var engin mótmælaganga í Reykjavík vegna barnamorðana í Íran. Þar sem um morð á eigin þegnum er að ræða. 

Það skýtur nokkuð skökku við, að engin skuli sjá ástæðu til að mótmæla morðum án dóms og laga í Íran eða hvetja til refsiaðgerða m.a. að fólk kaupi ekki íranskar vörur, á sama tíma og sjálfskipaðir handhafar réttlætisins láta ekki af því að mótmæla varnarviðbrögðum Ísrael eftir hræðilegustu hermdarverkaárás, sem unnin hefur verið í núinu, þannig að það tekur jafnvel út yfir það sem Ísis gerði. 

Samanburður á viðbrögðum við morðin í Íran á eigin borgurum og mannfalli í hernaði í Ísrael er sláandi svo ekki sé meira sagt. 

Skildu eftir skilaboð