Geir Ágústsson skrifar:
Núna er flóttinn frá dómsdagsspádómum loftslagsprestanna hafinn af fullum krafti. Almenningur er farinn að gera grín að þessu, fræðimenn eru að yfirgefa vel borguð störf því þeir þola ekki hvernig niðurstöður þeirra eru rangtúlkaðar, ríki eru byrjuð að útvatna loforð sín um orkuskipti og fyrirtæki eins og olíufélög og bílaframleiðendur sömuleiðis. Gríðarlegur kostnaðurinn er farinn að verða mörgum ljós og það skiptir ekki máli hversu sterk trúin er - að geta keypt í matinn eða borgað starfsmönnum laun er alltaf í efsta sæti.
Enginn skortur er á bókum í dag sem fjalla um skaðann af herferð manna gegn hagkvæmu jarðefnaeldsneyti og hvernig sú herferð er bæði kæfandi dýr og að lokum skaðlegri en verstu dómsdagsspádómar, sérstaklega fyrir fátækari heimshluta. Vil ég mæla með þremur sem ég hef nýlega lokið við:
- Apocalypse Never: Why Environmental Alarmism Hurts Us All eftir Michael Shellenberger
- False Alarm eftir Bjorn Lomborg
- Fossil Future: Why Global Human Flourishing Requires More Oil, Coal, and Natural Gas--Not Less eftir Alex Epstein
Ríki eins og Indland og Kína reisa áfram og í miklu magni orkuver knúin kolum og gasi á meðan Evrópubúar láta taka af sér bílinn og jafnvel matinn. Raunsæ ríki, sem hafa efnast nægilega, eru að skipta úr kolum í gas og jafnvel að henda í kjarnorkuver en dettur ekki í hug að reiða sig á vindmyllur og sólarorku. Raunsæinu vex hryggur um hrygg víða, sem betur fer.
Á meðan eru Íslendingar að skipta úr hreinu rafmagni yfir í olíu, en það er önnur saga.
Það má alveg dáðst að því hvernig loftslagsprestarnir halda margir hverjir sínu striki jafnvel þótt þeir séu hænufeti frá því að gera sig að athlægi. Nýyrðasmíðin er til dæmis alveg makalaus. Fyrst átti það að vera hlýnun Jarðar en þegar hún stöðvaðist þá voru loftslagsbreytingar almennt vandamálið. Síðan var blásið í hamfarahlýnun og um leið skullu á þyngstu og köldustu vetur sem um getur á mörgum svæðum. Nýjasta nýtt er svo að tala um loftslagsóreiðu, svona eins og loftslagið hafi áður verið í röð og reglu en ekki lengur.
Kannski skila þessar endurmerkingar á gömlu innihaldi sér í einhverju. Íslenski bjórinn Boli hafði verið til í mörg ár en kallaður eitthvað annað. Nýtt nafn og nýjar umbúðir og Boli birtist á sérhverju tjaldstæði. En hérna er ekki verið að selja svalandi drykk heldur súra mjólk. Það er kominn tími til að henda henni í ruslið þar sem nú þegar liggja sóttvarnaraðgerðir veirutíma, regndansar af ýmsu tagi og vonandi sem fyrst geldingar á börnum og pólitískur rétttrúnaður eins og hann leggur sig.
One Comment on “Flóttinn frá dómsdagsspádómum loftslagsprestanna hafinn af fullum krafti”
Hér er glæný kvikmynd sem allir ættu að sjá. Climate: The Movie (The Cold Truth)
https://www.youtube.com/watch?v=A24fWmNA6lM