Páll Vilhjálmsson skrifar:
Lasse Skytt, danskur blaðamaður búsettur á Íslandi, er í skotlínunni síðustu vikur fyrir falsfréttamennsku. Fyrstu fréttir í dönskum fjölmiðlum um falsfréttir Skytt birtust fyrir hálfum öðrum mánuði. En fyrir ári afhjúpaði Páll skipstjóri Steingrímsson Lasse Skytt sem falsfréttamann í íslensku fréttamáli - og fékk afsökunarbeiðni frá norsku útgáfunni Aftenposten-Innsikt. Skipstjórinn ruddi brautina í stærsta fjölmiðlahneyksli Norðurlanda seinni ára.
Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Heimildarinnar og Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður Blaðamannafélags Íslands fengu Lasse Skytt til að skrifa um Namibíumálið og byrlunar- og símastuldsmálið. Þetta var um áramótin 2022/2023. Skytt skrifaði tvær greinar fyrir verkkaupa og kom þeim á framfæri í tveim norrænum fjölmiðlum, Aftenposeten-Innsikt og danska fagblaðinu Journalisten.
Greinin í Aftenposten-Innsikt birtist í febrúar 2023. Fyrsta setning kynningar segir allt sem segja þarf um eðli frásagnarinnar:
Í febrúarútgáfu Aftenposten-Innsikt getur þú lesið hvernig Ísland varð spilltasta land Norðurlandanna.
(I februarutgaven av Aftenposten Innsikt kan du lese om hvordan Island er blitt Nordens mest korrupte land.)
Kvótakerfið og Samherji sérstaklega eru ástæður þess að Ísland sé á kafi í spillingu, samkvæmt Lasse Skytt. Helstu heimildarmenn danska blaðamannsins eru Þórður Snær ritstjóri Heimildarinnar og Sigríður Dögg formaður Blaðamannafélagsins. Þau notuðu Skytt til að ata þjóð sína auri á norrænum vettvangi.
Tilfallandi fjallaði um grein Skytt rétt eftir að hún kom út, í febrúar í fyrra, og benti á rangfærslur, fúsk og ósannsögli. Í blogginu sagði m.a.:
Þórður Snær Júlíusson ritstjóri segir í viðtali að lögreglusveit hafi verið send frá höfuðstað Norðurlands suður til Reykjavíkur í febrúar á liðnu ári að hafa uppi á honum og þrem öðrum blaðamönnum fyrir Samherjaskrif. Tilgangur lögreglunnar, að sögn Þórðar Snæs, var að krefjast þess að blaðamenn gæfu upp nöfn heimildarmanna sinna.
Ritstjóri Heimildarinnar, áður Kjarnans, fer með rangt mál. Það kom engin stormsveit að norðan að sækja Þórð Snæ og þrjá aðra blaðamenn. Fjórmenningarnir voru aftur boðaðir til yfirheyrslu 14. febrúar í fyrra en lögðu á flótta og létu ekki ná í sig fyrr en í ágúst. Í ofanálag vissi lögreglan hver heimildarmaðurinn var. Það kemur fram í greinargerð lögreglu frá 23. febrúar.
Viðtalið við Þórð Snæ birtist í norska tímaritinu Innsikt. Viðtalið er hluti af stærri umfjöllun um Namibíumál RÚV, Stundarinnar og Kjarnans, RSK-miðla, sem í bráðum fjögur ár hafa sakað Samherja um spillingu og lögbrot þar syðra.
Blaðamaðurinn sem skrifar viðtalið og fréttina í Innsikt er ekki á ritstjórn útgáfunnar heldur lausapenni. Hann heitir Lasse Skytt og er danskur. Skytt auglýsir þjónustu sína til sölu á netinu, segist skrifa lipran texta og kunni að höfða til valinna markhópa. Menn sem auglýsa sig svona eru almannatenglar og yfirleitt kallaðir lygarar til leigu af heiðarlegum blaðamönnum.
Páll skipstjóri Steingrímsson hafði samband við Tinu Skarland ritstjóra Aftenposten-Innsikt og vakti athygli á mörgum missmíðum greinar Skytt. Tina ritstjóri er ábyrgur blaðamaður. Hún hóf rannsókn á Skytt-greininni. Niðurstaðan var að Aftenposten-Innsikt baðst afsökunar á að hafa birt greinina. Í mars í fyrra baðst norska útgáfan fyrirgefningar á að hafa birt falsfrétt Skytt með Þórð Snæ og Sigríði Dögg sem aðalheimildir. Tilfallandi bloggaði af því tilefni:
Í marsútgáfu Innsikt er löng afsökunarbeiðni þar sem raktar eru margar villur og rangtúlkanir í grein Skytt. Íslensku blaðamennirnir útveguðu Skytt aðgang að Jóhannesi Stefánssyni, svokölluðum uppljóstrara. Jóhannes talar aðeins við þá blaðamenn sem gleypa frásögn hans hráa og fjalla ekki um hve vafasöm heimild uppljóstrarinn er.
Í afsökunarbeiðni Innsikt er tekið fram að útgáfan hafi ekki séð neinar trúverðugar heimildir um að Jóhannes hafi fyrir hönd Samherja mútað embættismönnum í Namibíu. ,,Það hefði átt að koma fram í greininni," segir Innsikt, ,,að Jóhannes er einn til frásagnar um að hafa stundað mútur."
Skytt hafði ekki samband við Samherja þegar hann undirbjó greinina. Enda var Skytt í vinnu hjá RSK-miðlum til að ófrægja Samherja. Aldrei stóð til sjónarmið annarra en RSK-miðla kæmust á framfæri. Afsökunarbeiðni Innsikt segir: ,,Verkferlar hjá okkur brugðust. Grunnatriði blaðamennsku er að ásakanir séu bornar undir þá sem þær beinast að. Það var ekki gert í þessu tilviki."
Innsikt biðst einnig afsökunar á að í grein Skytt séu yfirheyrslur lögreglu yfir blaðamönnum tengd Namibíumálinu. Umfjöllun um skýrslutöku lögreglu af blaðamönnum átti ekki heima í umfjöllun um Namibíumálið, segir í yfirlýsingu Innsikt.
Ófrægingarherferð Þórðar Snæs og Sigríðar Daggar um íslenskt samfélag var sem sagt úrskurðuð ómarktæk, enda byggð á ósannindum. Páll skipstjóri hafði samband við Tinu Skarland ritstjóra Aftenposten-Innsikt. Það er ástæðan að norska útgáfan baðst afsökunar á hafa birt falsfrétt Skytt. Til að hnykkja á hve hrikalegt brot Skytt var á vinnureglum blaðamanna birti Skarland ritstjóri ítarlega yfirlýsingu frá Samherja í júlíútgáfu tímaritsins. Hvorki hafa Þórður Snær né Sigríður Dögg beðist afsökunar á sínum hlut í málinu.
Norðlenskur skipstjóri skaut samanlögðum blaðamönnum á Norðurlöndum ref fyrir rass. Hann var ári á undan þeim að afhjúpa alræmdasta og spilltasta falsfréttamann Norðurlanda síðustu áratuga. Sá hlaut auðvitað að vera búsettur hér á landi, líkur sækir líka heim. Íslenskir blaðamenn ættu nú í fyllstu auðmýkt að senda Páli skipstjóra innilegar þakkir fyrir að standa vaktina, ,,vekja athygli á staðreyndum og samhengi þeirra," eins og segir í auglýsingaherferð Blaðamannafélags Íslands.
Vel á minnst. Fær skipstjórinn ekki gullmerki Blaðamannafélagsins fyrir óeigingjarnt starf í þágu heiðarlegrar blaðamennsku? Aðalfundur félagsins er eftir fimm daga. Verðlaun til bjargvættar blaðamennsku eru þó borin von. Blaðamannafélagið verðlaunar helst skúrka, enda stjórnendur félagsins af sama sauðahúsi.