Fékk á sig miklar skammir fyrir að gagnrýna aðgerðir í faraldrinum

frettinInnlent, ViðtalLeave a Comment

Hörður Magnússon íþróttafréttamaður segir stutt í hjarðhegðun á Íslandi. Hörður, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segir stemmninguna oft vera þannig að það sé bara ein skoðun leyfð og að allir eigi að ganga í takt:

Stutt í minnimáttarkennd og hópsálarstemmningu

„Við erum þjökuð af þessarri smæð á Íslandi og það býr til ákveðna minnimáttarkennd. Við erum bæði með pínu ofsóknaræði en á sama tíma með minnimáttarkennd. Allir sem fara út fyrir normið og þora að vera öðruvísi eru oft litnir hornauga af fólki. En innst inni langar okkur öll að vera frjáls og þora bara að vera við sjálf. En það er stutt í hópsálina hjá okkur á Íslandi og ég fell stundum í það líka," segir Hörður, sem fór þó gegn straumnum þegar kom að faraldrinum og umræðu um hann:

„Ég skrifaði nokkrar færslur á Facebook sem féllu vægast sagt í grýttan jarðveg og það var ekki stemnning fyrir neinu nema einni skoðun. Ég var bara að velta upp spurningum, en á þessu tímabili mátti það ekki. Það fóru að renna á mig tvær grímur eftir 2-3 mánuði og ég velti því fyrir mér hvort viðbrögðin væru of harkaleg og hvort það yrðu verri afleiðingar af aðgerðunum en faraldrinum sjálfum. Þetta áttu fyrst að vera 3 mánuðir, svo 6, svo 9 en þetta endaði tveimur árum. Það fór öfugt ofan í mig að það ættu bara allir að hlýða og enginn mætti segja neitt eða koma með gagnrýni á þetta. Svo var stemmningin í Laugardalshöllinni mjög furðuleg, með einhver 80´s lög á fóninum og allir áttu að vera í stuði. Maður spurði sig hvar fjölmiðlarnir væru og það skorti gríðarlega á alla gagnrýna umræðu. Ég er alls ekki að segja að það hefði ekki átt að grípa til neinna aðgerða, en það var engin alvöru umræða. Þegar við lítum til baka hljótum við að sjá að þetta var ekki alveg í lagi."

Í þættinum ræða Sölvi og Hörður um stöðu fjölmiðla á Íslandi og hve mikið hefur breyst í þeim efnum:

„Mér finnst fjölmiðlarnir hafa orðið veikari með árunum og aðhaldið á ráðandi öfl orðið minna sem er kannski eðlilegt, enda erfitt rekstrarumhverfi. En fjölmiðlafólk verður að þora að vera gagnrýnið og veita aðhald. Þegar virkilega reynir á og við þurfum á gagnrýnum fjölmiðlum að halda finnst manni vanta talsvert upp á. Stundum finnst mér fjölmiðlamenn vera ofurviðkvæmir fyrir því að það séu fleiri en ein skoðun leyfð. Þetta verður stundum eins og einhver Marteins Mosdal tilhneiging þar sem er bara ein ríkisskoðun og allir eiga að ganga í takt. Að mínu mati brugðust fjölmiðlar á Íslandi á ákveðinn hátt í bæði aðdraganda hrunsins og svo í faraldrinum og þeir hafa ekki staðið undir því að vera fjórða valdið. Þeir fjölmiðlamenn sem hafa orðið sjálfstæðir og eru frjálsir undan ákveðnu oki virðast oft þora að spyrja mun áleitnari spurninga. Það má ekki gleyma grunnhlutverki fjölmiðla og því að fjölmiðlar eiga alltaf að vera tilbúnir til að vera gagnrýnir á ráðandi öfl og velta upp öllum hliðum."

Hörður hætti fyrir nokkrum árum á Twitter og segir það hafa verið frábæra ákvörðun. Hann segir mikinn hita í umræðunni um íþróttir á samfélagsmiðlum:

„Það var frábær ákvörðun að hætta á Twitter fyrir 5 árum síðan. Ég hafði alltaf talið mér trú um að ég ætti að vera þarna til að miðla upplýsingum. En svo lenti ég í því að þurfa að eiga síðasta orðið og þetta var orðið mjög þreytandi. Ég var í hringiðu umræðunnar í íþróttunum og umræðan varð stundum mjög harkaleg og leiðinleg. Það getur orðið mjög mikill hiti í umræðunni þegar kemur að íþróttum og það eru miklar tilfinningar. Mesta heiftin er í kringum enska boltann. Þegar það er farið að hóta þér lífláti fyrir að vera með skoðanir er gott að spyrja hvort maður eigi ekki að logga sig út," segir Höddi, sem jánkar því þegar hann er spurður hvort það hafi gerst að hann hafi fengið líflátshótanir á Twitter:

„Það er mikið af tröllum þarna inni sem hafa ekkert betra að gera en að reyna að sverta þig og svo hjálpar maður sjálfur kannski ekki til með því að vera að tísta einhverju sem maður sá svo að var bara rangt. Í stóru myndinni kemur engin niðurstaða úr því að vera að þrasa við fólk á samfélagsmiðlum. Það hafði mjög góð áhrif á líf mitt að hætta að vera þarna inni."

Hægt er að nálgast viðtalið við Hörð og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Skildu eftir skilaboð