Um síðustu helgi gengu þúsundir múslima í gegnum Hamborg og kröfðust þess að komið yrði á íslömsku ríki í Þýskalandi. Á spjöldum mátti meðal annars sjá að „Kalífatið er lausnin.“
Myndbönd sýna múslima kyrja „Allahu akbar.“ Mótmælin voru skipulögð af hópnum Muslim Interaktiv, sem hafnar lýðræði og er nú til rannsóknar hjá leyniþjónustu Hamborgar vegna öfgastefnu.
Leiðtogi samtakanna, Joe Adade Boateng, lýsti því yfir, að Þýskaland þyrfti „réttlátt kalífadæmi“ til að leiðrétta meinta rangfærslur um múslimahópa í fjölmiðlum.
Muslim Interaktiv skrifar á samfélagsmiðlum, að mótmælunum hafi verið ætlað að taka afstöðu gegn „djöflavæðingu alls íslamsks lífs í Þýskalandi.“
Líkt og í öðrum löndum hafa hópar múslima orðið sífellt árásargjarnari í andstöðu sinni gegn Ísrael eftir fjöldamorð hryðjuverkasamtaka Hamas á gyðingum.
Pólitísk viðbrögð
Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, sagði á mánudag að „afleiðingar“ hlytu að verða í kjölfar mótmæla helgarinnar sem stjórnmálamenn um allt land fordæmdu. Á sunnudag lofaði Nancy Faeser innanríkisráðherra að grípa til „harðra aðgerða gegn hryðjuverkaáróðri íslamista og hatri á gyðingum.“ Hún sagði:
„Ef þú vilt kalífadæmi, þá er Þýskaland ekki rétti staðurinn.”
Áður hefur hópurinn skipulagt mótmæli gegn Kóranbrennum í Svíþjóð.