Jón Magnússon skrifar:
Það er dapurlegt að horfa upp á háskólastúdenta í lýðræðisríkjum Evrópu og Bandaríkjunum standa fyrir mótmælum og kyrja möntru hryðjuverkasamtaka Hamas um að eyða öllum Gyðingum í Ísrael.
Stúdentamótmæli hafa almennt beinst að því að ná fram mannréttindum t.d. tjáningafrelsi og mótmæla ófrelsi og nauðung. Stúdentar í Íran efndu til víðtækra mótmæla til að krefjast lágmarksmannréttinda fyrir konur í Íran í fyrra. Þau mótmæli voru barin niður af skefjalausri hörku og þúsundir ungra baráttumanna og kvenna lágu í valnum. Það hreyfði ekki við þeim stúdentum sem nú stilla sér upp við hlið hryðjuverkasamtaka Hamas, sem hafa gerst sek um svívirðilegan skepnuskap m.a. morð og nauðganir auk ýmiss annars.
Miðað við orðfæri mótmælendanna þá virðist helsta inntak mótmælendanna vera mótmæli gegn eigin menningu og hatur á öllu vestrænu, sér í lagi Bandaríkjunum. Í samræmi við það sem Douglas Murray skrifar í bók sinni „War on the west. (stríðið gegn vestrinu) Þessum mótmælendum hefur verið kennt, að allt illt stafi frá Vesturlöndum þeim er kennt að við eigum að skammast okkar fyrir sögu okkar og menningu sem hafi alla tíð stefnt að því að tortíma jörðinni m.a. með kynrænu atferli sem leitt hafi m.a. til hnattrænnar hlýnunar.
Sú mantra var einmitt kyrjuð af íslensku sendinefndinni á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn þar sem Svandís Svavarsdóttir ráðherra var forsöngvari.
Þeim er kennt að fyrirlíta forfeður sína og þau afrek sem unnin hafa verið í vestrænum lýðræðisríkjum, sem hafa skapað bestu lífsafkomu almennings fyrr og síðar, mesta frelsið og mestu mannréttindin. Fólk eins og dekurkynslóð mótmælendanna, sem neitar að horfst í augu við þessar grundvallarstaðreyndir á verulega bágt, en það breytir því ekki að framkoma þeirra og atferli nú er þeim til skammar og háskólasamfélagi nútímans, sem virðist í vaxandi mæli víða um heim eiga við mikinn tilvistarvanda að etja.
Fávísa dekurkynslóð háskólastúdenta sem nú stillir sér upp við hlið dauðasveita Hamas virðist telja, að öll fátæk ríki séu náttúrurlega góð og rík lönd séu að sama skapi af sömu ástæðu slæm. Vestræn ríki séu kúgarar og Klerkastjórnina í Íran telur þetta fólk vera bandamann sinn í baráttunni gegn hinum mikla Satan.
Mótmælendurnir virðast gjörsneyddir þekkingu á nútíma sögu sem og fyrri tíma sögu og hafa nánast enga trúfræðilega þekkingu vita m.a. ekki að Íslam stefnir að heimsyfirráðum og kúgun allra sem ekki játa Íslam.
Þessir krakkar veifa fána samkynhneigðra og transara og virðast ekki vita að samkynhneigt fólk er hundelt og drepið miskunarlaust í þursa- og einræðisríkjunum sem játa Íslam m.a. á Gasa svæðinu.
Það er dapurlegt að verða vitni að því hversu illa er komið varðandi menntun og menningu stórs hóps háskólastúdenta í dag. Þekkingarleysi og skilningsleysi þessa hóps er alvarlegt mál. Það versta er þó að verða vitni að þeim skefjalausa rasisma gagnvart Gyðingum og skefjalausu Gyðingahatri, sem birtist hjá þeim, sem í orði kveðnu segjast berjast gegn rasisma.
Það sem Evrópa og að stórum hluta lönd Íslam þurfa að skammast sín fyrir úr sögu sinni er sá skefjalausi ofstopi, hatur og fjöldamorð sem þau hafa unnið á Gyðingum í margar aldir, sem náði fullkomnun vitfirringarinnar á dögum 3.ríkisins um miðja síðustu öld. Velviljuðu fólki fallast nánast hendur við að horfa upp á forsmekkin af þeim hryllingi, sem nú virðist vera að búa um sig í háskólasamfélagi Vesturlanda.
Gegn því verður að bregðast af hörku.