Páll Vilhjálmsson skrifar:
Fréttamaður RÚV, Sunna Valgerðardóttir, hættir störfum og ræður sig til Vinstri grænna. Hún segir um blaðamennsku:
Blaðamennskunni fylgja þau forréttindi að geta bent á það sem betur má fara og látið svo aðra um að laga.
Trúlega getur margur blaðamaðurinn tekið undir með Sunnu. Fjölmiðlar benda á vanda/álitamál sem aðrir, eftir atvikum hið opinbera eða einkaaðilar, laga eða færa í betra horf. Eða upplýsa að ekki sé tilefni til aðgerða, fréttin hafi verið byggð á misskilningi.
Í lýðræðisþjóðfélagi hafa fjölmiðlar eftirlitshlutverk. Fyrirkomulagið er viðurkennt í vestrænni fjölmiðlun.
En hverjir benda á það sem miður fer hjá blaðamönnum og fjölmiðlum? Hverjir sjá um eftirlitið þegar út af bregður og blaðamenn komast í kast við lögin?
Fimm blaðamenn eru sakborningar í byrlunar- og símastuldsmálinu. Fréttin fær litla sem enga umfjöllun fjölmiðla. Tilfallandi bloggari skrifar um málið og uppsker tvær málsóknir. Ekki einn einasti starfandi blaðamaður hefur stigið fram og efast um réttmæti þess að blaðamenn stefni bloggara og krefjist takmörkunar á tjáningarfrelsinu. Blaðamannastéttin lætur gott heita að blaðamenn með stöðu sakborninga í refsimáli gangi fram fyrir skjöldu og takmarki málfrelsið - beinlínis í því skyni að þagga niður fréttir um óhreint mjöl í pokahorni fimm blaðamanna.
Erlendis er tekið alvarlega ef misbrestur verður frammistöðu blaðamanna. Skytt-málið er nýlegt dæmi. Hér þegja menn skömmustulega og horfa í gaupnir sér þegar fimm blaðamenn á þrem fjölmiðlum eru til lögreglurannsóknar vegna alvarlegra afbrota, byrlunar og stuldar.
Heimildin er uppvís að stórfelldum blekkingum, prentar yfir 36 þúsund eintök, sem flest fara á haugana. Tilgangurinn er fela magnkaup auðmanna að áskriftum annars vegar og hins vegar ýkja útbreiðsluna til að ná í auglýsingafé á fölskum forsendum.
Bloggari greindi frá siðlausu athæfi Heimildarinnar, sjá hér og hér, en fjölmiðlar þegja. Ekkert eftirlit er með frammistöðu fjölmiðla - en þorri þeirra þiggur ríkisframlag. Opinbert fé án eftirlits er iðulega misnotað.
Fjölmiðlar þegja um skattsvik formanns Blaðamannafélags Íslands, láta formanninn komast upp með að senda út fréttatilkynningu um að skattsvikin sé einkamál. Þó vita allir blaðamenn að skattsvik eru opinbert fréttamál enda reglulega á dagskrá fjölmiðla. Það þykir aftur frétt er formaðurinn fær stungu hunangsflugu. Faglega kýlið sem blasir við fær enga stungu. Enda gerir það ekki annað en að vaxa.
Spillingin þrífst best í þögninni. Grafarþögnin um skemmdu eplin í fjölmiðlatunnunni spillir öllu innihaldinu. Íslensk blaðamennska er sú spilltasta á vesturlöndum. Til að fela ósómanna hratt Blaðamannafélagið úr vör auglýsingaherferð um mikilvægi blaðamennsku. Í herferðinni er ekki minnst einu orði á heiðarleika. Skiljanlega.