Þorvaldur Þorvaldsson skrifar:
Það var sláandi að horfa á kosningasjónvarp föstudagskvöldið 3. Maí og heyra Katrínu Jakobsdóttur, forsetaframbjóðanda segja, sem dæmi um beitingu málskotsréttarins, að „ef Alþingi myndi ætla að ráðast í inngöngu í Evrópusambandið, ímyndi hún sér að það kæmi ekki annað til greina en að bera það undir þjóðina fyrst. Ef svo væri ekki væri það augljóslega mál sem ætti heima hjá þjóðinni.“
Það sem er sláandi er að þessi sami forsetaframbjóðandi tók virkan og leiðandi þátt í því fyrir aðeins 15 árum að sækja um aðild að Evrópusambandinu án þess að spyrja þjóðina fyrst. Og ennfremur greiddi hún atkvæði gegn tillögu um að bera málið fyrst undir þjóðina. Þetta er slíkur viðsnúningur í afstöðu að skýringa er þörf. Hefur frambjóðandinn skipt um skoðun? Hvenær gerðist það og hverjar eru ástæður breyttrar afstöðu?
Minnisleysi er ekki trúverðug skýring og ef engin skýring verður reidd fram vaknar sú spurning hvort frambjóðandinn sé einfaldlega svo mikill tækifærissinni að hún samþykki bara það sem færir henni mestan ávinning hverju sinni.
Spyrjendur í kosningaumfjöllun eiga auðvitað að spyrja út í svona hluti. Annað hlýtur að flokkast undir hreina þöggun. Þjóðin á rétt á að heyra raunverulega afstöðu frambjóðenda og fá skýringar þegar misræmi í málflutningi er svona skerandi. Vonandi verður bætt úr því á næstunni svo heiðarleg og lýðræðisleg kosningabarátta geti farið fram.
Greinin birtist fyrst á vefsíðunni Neistar þann 9.5.2024