Páll Vilhjálmsson skrifar:
Formaður Blaðamannafélags Íslands, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, er búinn að ganga frá einkakjarasamningi fyrir sig þótt lítið gerist í kjarabótum blaðamanna almennt. Í frétt í prentútgáfu Morgunblaðsins 15. maí, með fyrirsögninni Tvær á framkvæmdastjóralaunum, segir:
Á sama stjórnarfundi [Blaðamannafélags Íslands] var samþykkt að endurnýja ráðningarsamning félagsins við Sigríði Dögg út þetta ár með 100% starfshlutfalli, ásamt því að samningurinn verði endurskoðaður í september. Þá verður metið hvort framhald verður á samningssambandinu árið 2025. Jafnframt var bókað í fundargerð að vilji fundarmanna væri „að formaður verði ekki á lægri kjörum en fyrrverandi framkvæmdastjóri.“
Sigríður Dögg rak fyrrum framkvæmdastjóra, Hjálmar Jónsson, í byrjun árs. Forsagan er að síðast liðið haust varð Sigríður Dögg uppvís að skattsvikum þegar hún leigði út íbúðir á Airbnb. Hún neitaði að gera grein fyrir málavöxtu, sagði skattsvikin einkamál, og varð að hætta á RÚV, sem gat illa sagt skattsvikafréttir með Sigríði Dögg á fréttastofu.
Látið var heita að hún hefði farið í leyfi frá ríkisfjölmiðlinum til að sinna starfi brottrekins Hjálmars. Raunin er önnur. Sigríður Dögg varð að fá annað starf. Hún og félagar hennar treystu á hugleysi blaðamannastéttarinnar. Það gekk eftir, blaðamenn hvorki æmtu né skræmtu við óvinveittri yfirtöku á skrifstofu og sjóðum félagsmanna.
Tilvitnunin hér að ofan sýnir að Sigríður Dögg fer með Blaðamannafélagið eins og sitt einkalén. Jafnframt er látið í það skína að stjórnarmenn nánast grátbiðji Sigríði Dögg að starfa í þágu félagsins og ,,verði ekki á lægri launum en fyrrverandi framkvæmdastjóri." Undirlægjuhátturinn er áþreifanlegur. Í maílok tekur nýr framkvæmdastjóri við störfum en Sigríður Dögg er búin að tryggja sér launatékka félags blaðamanna út árið hið minnsta.
Hvers vegna láta almennir félagsmenn BÍ það yfir sig ganga að sjóðir félagsins séu mjólkurkú skattsvikara sem er svo lélegur pappír að jafnvel Glæpaleiti segir pass, hingað og ekki lengra?
Sigríður Dögg tilheyrir valdaelítu blaðamanna, kennd við RSK-miðla, RÚV og Heimildin (áður Stundin og Kjarninn). Valdaelítan þarf á Sigríði Dögg að halda sem málssvara. Fimm úr elítunni eru sakborningar í byrlunar- og símastuldsmálinu. Þeir þurfa sinn talsmann sem í nafni íslenskra blaðamanna kemur fram fyrir þeirra hönd og opnar sjóði félagsins vegna fyrirsjáanlegs málskostnaðar upp á tugi milljóna króna. Skel hæfir kjafti að talsmaðurinn sé skattsvikari og sjóðirnir félagsgjöld hugleysingja.