Skoðanablaðamennska

frettinFjölmiðlar, Innlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Leiðréttingar mátti einu sinni lesa í fjölmiðlum. Dagblað sem rangnefndi viðmælanda átti til að leiðrétta daginn eftir. Ef rangt var farið með staðreyndir þótti sjálfsagt að leiðrétta þær. Fyrir daga félagsmiðla var strangur greinarmunur gerður á leiðurum, sem voru skoðanapistlar, og fréttum sem voru staðreyndamiðaðar og áttu að byggja á traustum heimildum.

Leiðréttingar eru sjaldséðar nú á dögum. Trauðla er það meiri nákvæmni blaðamanna að þakka. Skoðunum og staðreyndum er hrært saman. Leiðarafréttir eru ráðandi sniðmát þar sem áður voru staðreyndafréttir.

Í sígildri blaðamennsku skipta fimm atriði meginmáli. Atriðin fimm eru kjarninn í um 400 siðareglum blaðamanna á alþjóðavísu, samkvæmt manni sem þekkir til, Aiden White á Ethical Journalism Network. Hann segir 5 kjarnaatriði blaðamennsku vera:

  1. Nákvæmni, byggja á staðreyndum, ekki blekkja.
  2. Sjálfstæði, stunda ekki í hagsmunagæslu, vera óháður.
  3. Óhlutdrægni, segja frá báðum (öllum) hliðum máls.
  4. Mannúð, upplýsa en ekki meiða.
  5. Ábyrgð, leiðrétta og viðurkenna mistök þegar þau eru gerð.

Lesendur íslenskra fjölmiðla vita að ekki líður sá dagur að eitt eða fleiri megingildi blaðamennsku er fyrir borð borið.

Blaðamenn leita ekki frétta vítt og breitt um samfélagið. Þeir eru farandsverkamenn, skrifar Sigurður Már Jónsson:

Skrifstofumenn sem afla frétta í gegnum símann eða hanga á borðsenda samfélagsmiðlanna í von um að eitthvað bitastætt hrökkvi af. Óhætt er að segja að 90% af fjölmiðlaefni verði til með þeim hætti.

Auðveldari aðgangur að upplýsingum, staðreyndum, t.d. úr gagnasöfnum opinberra stofnana, draga úr sérstöðu og mikilvægi staðreyndafrétta. Meira máli skiptir hvaða skoðun menn hafa á staðreyndum en hverjar þær eru. Ef nógu margir eru sömu skoðunar er hægt að knýja fram atburðarás sem verður raðfréttaefni. Blaðamennskan eltir skoðanir til að missa ekki af hraðferð næsta fordæmingarvangs. Tilvera blaðamanna gengur út á að lesa sig sem best inn á síkvika hópsál samfélagsumræðunnar.

Af sjálfu leiðir að hráar upplýsingar, staðreyndir, verða aðeins viðbit í skoðanablaðamennsku. Úrslitum ræður að endurtaka skoðanir nógu oft og víða. Er vel tekst til verður ein fjöður að fimm hænum. Skoðanir, ólíkt staðreyndum, krefjast ekki leiðréttinga. Mælikvarðinn á skoðanir er annar og óljósari en sá sem lagður er á staðreyndir.

Skoðanablaðamennska er sjálfstæð uppspretta óeiningar og sundurlyndis í samfélaginu. Skýtur skökku við að ríkisvaldið telji það sitt hlutverk að setja almannafé í fjölmiðla sem flytja minnst fréttir en mest skoðanir. Það er ekki ríkisvaldsins að blása í glæður átaka og óánægju. Skoðanablaðamennska ætti eingöngu og alfarið að vera fjármögnuð af þeim sem hana stunda, blaðamanna og eigenda fjölmiðla.

Skoðanablaðamennska á Fróni er iðulega kölluð rannsóknablaðamennska. Á ritstjórn ónefndrar útgáfu sitja fjórir blaðamenn með stöðu sakborninga í opinberu refsimáli. Yfirmaður þeirra er titlaður rannsóknaritstjóri. Brandari.

Skildu eftir skilaboð