Fréttatilkynning: Forsetakosningar á netinu með mismunandi kosningakerfum

frettinInnlent, KosningarLeave a Comment

Almenningi er boðið til þátttöku í netkosningu í tilefni af forsetakosningunum sem fram fara þann 1. júní næstkomandi. Á vefsíðunni https://forseti2024.politicaldata.org/ getur almenningur tekið þátt í kosningunum og stuttri meðfylgjandi könnun, auk þess að fræðast um ólík kosningakerfi sem geta verið notuð í forsetakosningum og eiginleika þeirra.

Í netkosningunni geta kjósendur kosið sér forseta bæði með núverandi kosningakerfi og með öðrum kosningakerfum sem hefur verið til umræðu að taka upp í forsetakosningum á Íslandi: raðvali með varaatkvæði (e. Alternative Vote), raðvali með Borda talningu (e. Borda count) og samþykktarkosningu (e. Approval Voting). Kosningin í þessum kerfum verður sömuleiðis notuð til að greina hvernig kosningarnar gætu farið ef aðeins tveir tilteknir frambjóðendur myndu mætast í seinni umferð í tveggja umferða kosningu, líkt og notuð er í forsetakosningum í Frakklandi.

Niðurstöður netkosninganna verða birtar opinberlega skömmu eftir forsetakosningarnar sjálfar og niðurstöður þeirra verða vigtaðar með tilliti til þess hversu mörg atkvæði hver frambjóðandi fékk í kosningunum, til að komast sem næst mati á því hvort niðurstöður kosninganna gætu hafa verið aðrar ef önnur kosningakerfi hefðu verið notuð.

Netkosningin er auk þess hluti af rannsókn tveggja íslenskra stjórnmálafræðinga á því hver áhrif ólíkra kosningakerfa gætu verið á kosningahegðun íslenskra kjósenda og niðurstöður kosninga hér á landi. Henni fylgir stutt könnun þar sem fólk er m.a. spurt um það hvað skiptir það mestu máli í þessum kosningum, til að kanna hvaða þættir gætu tengst því hvernig fólk kýs í ólíkum kosningakerfum.

Þátttaka í netkosningunum og könnuninni er algjörlega valfrjáls og ópersónugreinanleg. Gögnin verða vistuð í gagnagrunni rannsakanda í Bandaríkjunum án nokkurra auðkenna sem gefa færi á að rekja svörin til þátttakenda. Svarendur hafa val um það hvort einstaka spurningum er svarað eða ekki. Hvorki IP-addressur tölvu, stillingar vafra eða nokkrar aðrar upplýsingar sem gera það mögulegt að rekja svör til einstaklinga eru vistaðar.

Einnig er hægt að fara beint inn á netkosninguna í gegnum eftirfarandi slóð:

https://ucriverside.az1.qualtrics.com/jfe/form/SV_24tZUNBEQIUKlXU

Ef þú hefur einhverjar spurningar um netkosninguna, rannsóknina eða vefsíðuna getur þú beint spurningum til ábyrgðaraðila þeirra:

Indriða H. Indriðasonar ([email protected]), prófessors í stjórnmálafræði, stjórnmálafræðideild University of California, Riverside.

Viktors Orra Valgarðssonar ([email protected] eða [email protected] ), nýdoktors í stjórnmálafræði (Leverhulme Early Career Fellow), stjórnmálafræðideild University of Southampton.

Skildu eftir skilaboð